Gaman að stíga út fyrir þægindarammann

Stofnendur SPJARA ásamt hönnuðinum. Frá vinstri: Patricia Anna Þormar, Sigríður …
Stofnendur SPJARA ásamt hönnuðinum. Frá vinstri: Patricia Anna Þormar, Sigríður Guðjónsdóttir, Sól Hansdóttir og Kristín Edda Óskarsdóttir. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir

Það eru sum föt í fataskápnum sem fá afar sjaldan tækifæri til að fylgja eigandanum utanhúss og það eru sparifötin. Kjóllinn sem þú klæddist í síðasta boði gengur kannski ekki í því næsta og því fá þessar flíkur oft mjög litla notkun. 

Fataleigan SPJARA er nýtt fyrirtæki sem hefur tímabundið aðsetur í Kaffi Dal í Laugardalnum og hefur verið opið frá því í september í fyrra og þar er hægt að leigja merkjavöru eins og Stine Goya, Rodebjer, GANNI  og Isabel Marant til að nefna nokkur, en mest er um skandínavísk merki. Kristín Edda Óskarsdóttir er einn af stofnendum fataleigunnar. 

Sýnishorn úr örlínunni Sjö litir villskunnar eftir Sól Hansdóttur fatahönnuð.
Sýnishorn úr örlínunni Sjö litir villskunnar eftir Sól Hansdóttur fatahönnuð. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir

Auðveldara aðgengi að tísku og hönnun

„Við erum að hugsa tískuna upp á nýtt og finna nýjar leiðir til að njóta tísku og vera umhverfisvæn á sama tíma,“ segir Kristín um hugmyndina að fataleigunni. „Það er hægt að koma hingað og máta og leigja sér föt, sérstaklega sparifatnað fyrir boð og sérstök tilefni. Við erum svolítið að ögra þessari hugmynd um að þurfa að eiga allar flíkur og kannski líka að hafa annað og auðveldara aðgengi að hönnun.“ Hún segir að viðtökurnar við fataleigunni hafi farið fram úr björtustu vonum og greinilegt að það hafi verið þörf fyrir þessa þjónustu á markaðnum.

Samstarf við fatahönnuð

„Síðan sóttum við um styrk hjá Hönnunarsjóði til að taka þessa hugmynd ennþá lengra og við bjuggum til fatalínu í samstarfi við Sól Hansdóttur, sem er ótrúlega flott og ungur og upprennandi hönnuður. Sól er með meistarapróf í fatahönnun frá Central Saint Martins í London og fékk verðlaun fyrir útskriftarlínuna sína og var líka tilnefnd til íslensku hönnunarverðlaunanna í ár,“ segir Kristín og segir að Sól hafi hannað fyrir Spjara örlínu, flíkur sem eru eingöngu hugsaðar til útleigu. „Örlínan heitir Sjö litir villskunnar og er einstök að því leyti að hún er hönnuð fyrir fullkomna hringrás. Þetta er í fyrsta sinn sem flíkur eru sérstaklega hannaðar alfarið úr endurnýttum efnum með leigu í huga í stað einkaeigu,“ segir Kristín, en þegar línan var kynnt á dögunum var teiti í Spjara þar sem flíkurnar voru sýndar og ljósmyndir af þeim eftir ljósmyndarann Önnu Maggý og Ísak Frey Helgason sem hannaði útlitið.

Sól Hansdóttir og Isabel Diaz.
Sól Hansdóttir og Isabel Diaz. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir

„Hún er mjög spennandi hönnuður og það er líka einn angi af þessu sem við viljum vera að gera í okkar fataleigu sem er að auka aðgengi að merkjavörum og hátískuvörum. Það er margfalt ódýrara að leigja sér föt en kaupa þau. Svo finnst okkur líka aðlaðandi pæling að vera í samstarfi við flotta hönnuði eins og Sól er og draga í raun og veru tísku og hönnun nær fólki.“

Kristín segir að flíkurnar í örlínunni séu framúrstefnulegar en mjög skemmtilegar. Sól hafi fengið frjálsar hendur en fengið punkta frá eigendum Spjara út frá reynslu þeirra. 

Saga Ólafsdóttir.
Saga Ólafsdóttir. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir

Fólk mjög opið fyrir að prófa

„Við finnum það hér að á fataleigunni okkar gilda allt önnur lögmál en í hefðbundnum fataverslunum. Fólk kemur hingað inn og tekur meiri áhættu en það er vant, af því að það er ekki að skuldbinda sig flíkinni. Þú getur leigt þér einhverja flík þar sem þú ferð aðeins meira út fyrir þægindarammann en þú myndir annars gera.“

Í stað þess að eltast við tískustrauma segir Kristín að Spjara kappkosti að bjóða upp á gæðavöru úr góðum efnum. „Við viljum líka hafa bæði liti og fjör í fötunum okkar,“ segir hún.

Tískan framhald af sjálfsmyndinni

„Svo er ótrúlega gaman þegar maður er að aðstoða konu við að velja eitthvað, og hún segir: „Þetta myndi ég aldrei kaupa mér, en ég ætla að prófa.“ Svo þegar þær skila vörunni þá eru þær svo glaðar og tala um að þær hafi aldrei fengið jafnmikið hrós fyrir kjólinn og útlitið. Maður finnur líka að konur eru að fá mikið sjálfstraust fyrir að þora og prófa að fara aðeins út fyrir þægindarammann sinn. Það er líka bara skemmtilegt að auka fjölbreytileikann í tískunni.“

Kristín segist reyna að hvetja alla til að prófa eitthvað nýtt svo lengi sem þeim líði vel í flíkinni. „Föt eru svo mikið framhald af sjálfsmyndinni. Við notum tísku til þess að endurspegla hver við erum.“

Saga Ólafsdóttir, Kristín Edda Óskarsdóttir og Sól Hansdóttir.
Saga Ólafsdóttir, Kristín Edda Óskarsdóttir og Sól Hansdóttir. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir

Margfalt minna kolefnisspor

Kristín segir að fólk á öllum aldri komi til þeirra, alveg upp úr tvítugu og fram yfir sextugt. „Fólk kemur til okkar og leigir fyrir ákveðin tilefni, eins og skírnir, útskrift, afmæli og frumsýningar. Þegar mikið liggur við og fólk langar að klæða sig upp. Nú er þessi tími sem mikið er um að vera og þá er vinsælt að leigja sér kannski fallegan topp fyrir jólaboðið eða áramótadress.

Svo má ekki gleyma því að það er margfalt minna kolefnisspor sem fylgir því að leigja föt en kaupa ný. „Þeir sem koma til okkar og taka skrefið að prófa að leigja föt, þeir komast upp á lagið með það og við erum komnar með stóran hóp af fastakúnnum. En þetta er ákveðin hegðunarbreyting og öðruvísi neyslumunstur en við eigum að venjast.“

Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir
Aldís Amah Hamilton, Kolbeinn Arnbjörnsson og Apríl.
Aldís Amah Hamilton, Kolbeinn Arnbjörnsson og Apríl. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir
Sverrir Úlfur, Saga Ólafsdóttir og Edda Sól Ólafsdóttir.
Sverrir Úlfur, Saga Ólafsdóttir og Edda Sól Ólafsdóttir. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir
Erna Bergmann.
Erna Bergmann. Ljósmynd/Thelma Arngrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál