„Við trúum því að ljósið sigri myrkrið“

Alyona Ponomarenko segir að Úkraínumenn séu orðnir þreyttir. Þau ætla …
Alyona Ponomarenko segir að Úkraínumenn séu orðnir þreyttir. Þau ætla þó ekki að gefast upp. Ljósmynd/Samsett

Alyona Ponomarenko förðunarritstjóri Úkraínska Vogue býr í Kænugarði. Í viðtali við Smartland í gær sagði hún frá því hvernig líf hennar hefði breyst á einni nóttu þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. 

„24. febrúar í fyrra ætlaði ég að birta stórt viðtal við förðunarfræðinginn Peter Philips sem starfar fyrir Dior. Í stað þess skrifaði ég greinar um „Hvernig á að stöðva blæðingu“ og „Hvernig á að takast á við kvíðakast“,“ segir Ponomarenko. Hún og hennar teymi tók höndum saman og birti fjöldann allan af fréttum um stríðið sem voru mikið lesnar. 

„Við fengum mikla endurgjöf. Á Instagram-reikningi okkar hófum við að birta stríðstengt efni í staðinn fyrir lífsstílsefni þar sem tíska, fegurð og menning var í forgrunni. Og veistu hvað. Útrás okkar og útbreiðsla hefur aldrei verið eins mikil. Lesturinn jókst umtalsvert og við byggðum upp stóran fylgjendahóp á Instagram. Ég mun til dæmis aldrei gleyma greininni „Hvað áttu að gera eftir að hafa verið nauðgað“ og „Saga af konu sem var drepin í Bucha“ en myndin sem birtist með þeirri grein fór um allan heim,“ segir Ponomarenko og er þá að vísa í umfjöllun sem úkraínska VOGUE um dauða Irinu Filkina. Ljósmynd af henni látinni þar sem rauðlakkaðar gelneglur eru í forgrunni fór fyrir brjóstið á fólki. 

Hér er myndin af gelnöglum Irinu Filkina en myndin var …
Hér er myndin af gelnöglum Irinu Filkina en myndin var tekin eftir að hún var drepin af Rússum. Ljósmynd/Skjáskot af VOGUE

Hvernig breytir stríð tískuheiminum?

„Fólkið í tískuheiminum er ekkert öðruvísi en annað fólk. Það reyndi að koma fjölskyldum sínum á öruggari staði og fór að bjóða fram aðstoð sína. Margir skapandi einstaklingar fóru að hjálpa til við mannúðaraðstoð og dreifa á mat og lyfjum. Einhver tók að sér að flytja dýr sem voru lokuð inni í íbúðum. Einhver fór að hjálpa úkraínska hernum varðandi búninga. Það lögðust allir á eitt og tóku þátt þótt tískan gleymdist þó stundum. Mörg þekkt vörumerki fluttu sig yfir á öruggari svæði í Úkraínu og önnur fóru úr landi með starfsemi sína. Það sem var mest áberandi og er enn er það að við erum öll í sama liðinu. Við höfum hjálpast að við að lifa af og á sama tíma viljum við vekja athygli á Úkraínu,“ segir hún. 

Þegar Ponomarenko er spurð að því hvort fólk missi áhugann á lífsstílsefni þegar stríð geisar segir hún svo ekki vera. Hún finni þó fyrir meiri áhuga á greinum sem sýna raunveruleikann eins og hann er. 

„Vinsælustu greinarnar okkar hafa verið „Hvers vegna ættir þú að slökkva ljósið heima“, „Hvers vegna er mikilvægt að halda tveggja veggja reglu í eldflaugaárás“ og „Hvað áttu að gera eftir að hafa verið nauðgað“. Skyndilega varð stríðið lífsstíll okkar og stríðstengt efni varð okkar kjarni. „Svona á fólk að haga sér á meðan á loftárás stendur“, „Svona á að hreinsa vatn“, „Svona á að meðhöndla brunasár“ og svo framvegis. Við vorum líka að segja sögur af fólki sem flutti sig og hvernig líf þeirra og fjölskyldna þeirra væri. Við fórum að skrifa um andspyrnu og hugrekki. Við ræddum mikið við erlenda fjölmiðla og vorum í raun í vinnunni allan sólarhringinn,“ segir hún. 

Glanstímarit á erfitt uppdráttar á stríðstímum. Síðan Rússar ruddust inn í Úkraínu hefur VOGUE verið eingöngu í vefútgáfu. 

„Núna erum við að vinna að fyrsta prentaða tölublaði okkar frá því stríðið braust út. Þema blaðsins verður þrautseigja þjóðarinnar. Í blaðinu verða sagðar sögur fólks úr öllum stéttum sem hefur lagt sitt af mörkum í baráttunni og er að færa sigurinn nær lífinu. Við birtum stórt safn af andlitsmyndum sem teknar eru í Úkraínu af okkar allra bestu lífsstíls-, tísku-, og heimildaljósmyndurum,“ segir hún. 

Úkraínska VOGUE varð tíu ára á síðasta ári. Ætlunin var að halda upp á afmælið með pompi og prakt en vegna stríðsins breyttist það. 

„Við ætluðum að halda upp á afmælið með tilkomumiklum hátíðarverkefnum. Þessu var stolið frá okkur með yfirgangi Rússa. Svo við gáfum út bók sem heitir „9 ½ Years of Vogue in Ukraine“. Bókin sýnir það besta af því sem úkraínska VOGUE-liðið hefur skapað á síðasta áratug.“

Þótt hún sé staðráðin í að halda áfram. Halda áfram að vinna og halda áfram að lifa þá finnur hún fyrir þreytu og segir að samlandar hennar séu á sama stað. Þær ætla þó ekki að gefast upp. 

„Við enduruppgötvum líf okkar og enduruppgötvum erfðaefni okkar. Við hittum sjálfsmynd  okkar, losum okkur við keisaraarfleifðina. Við trúum því að ljósið sigri myrkrið. Við vinnum, við bjóðum okkur fram, gefum, berjumst og við lifum. Það kann að virðast of tilgerðarlegt en  líf okkar snýst um allan skalann - ekki bara eitthvað eitt. Fólk giftir sig og konur fæða nýjar kynslóðir. Við hugsum um börnin okkar og hlúum að garðinum okkar. Við trúum því og viljum að hetjurnar okkar komi heilar heim.“

Er hægt að vera með vonir og væntingar þegar fólk býr í Úkraínu?

„Já, það er hægt. Ég lofaði sjálfri mér þrennu; að læra að skjóta, að veita skyndihjálp og svo ætla ég að verða blóðgjafi. Ég ætla að skrifa fleiri greinar um fólkið í Úkraínu og menningu þess. Heimurinn verður að vita fyrir hvað við stöndum fyrir. Vonandi lifum við af. Ef ekki - þá ætlum við ekki að deyja sem þrælar. Við erum sjálfstæð, öflug og hugrökk.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál