Edda er stílisti stjarnanna úti í heimi

Edda Guðmundsdóttir hefur unnið með mörgum stórstjörnum.
Edda Guðmundsdóttir hefur unnið með mörgum stórstjörnum. Ljósmynd/Rudediger Glatz

Edda Guðmundsdóttir, stílisti og búningahönnuður, lifir spennandi lífi í heimi tískunnar. Hún vinnur náið með stórstjörnum á borð við Björk og má meðal annars sjá afrakstur vinnu hennar á rauða dreglinum, tónleikum úti um allan heim, tónlistarmyndböndum og auglýsingum.

„Ég hef frá barnsaldri haft mikinn áhuga á fötum og skoðanir á eigin klæðaburði og bauð mig líka alltaf fram til að sjá um fötin fyrir vinina fyrir afmæli, partí og alls konar uppákomur. Ég var í ballett frá því ég var krakki og fannst strax þá áhugavert að skoða hvernig tískuheimurinn og búningar gætu sameinast dansheiminum. Þannig að tilraunir með hönnun og tísku í danslist voru mér eðlislægar strax á barnsaldri,“ segir Edda spurð hvort tíska hafi alltaf verið stór hluti af lífi hennar.

Edda starfar langmest í Los Angeles í Bandaríkjunum en vinnur einnig í Evrópu. „Ég byrjaði í upphafi í New York þar sem ég bjó fyrstu árin mín í Bandaríkjunum. Þar byrjaði ég fyrst að vinna sem stílisti og smám saman jókst vinnan við tónlistarmyndbönd og auglýsingar. Þegar ég byrjaði mikið að stílisera þekkta listamenn eða stjörnur færðist starfið mitt meira til LA.“

Snýst mikið um að þekkja manneskjuna

Edda vinnur í heimi stórstjarna en auk þess að vinna með Björk hefur hún unnið með til dæmis Övu Max, Mariah Carey, Imagine Dragons, Bebe Rexha, Pamelu Anderson, John Grant og Serpent with Feet til að nefna örfáa.

„Það er skemmtilegt að vinna með stjörnum en getur líka verið erfitt. Í upphafi er þetta svolítið eins og að fara á blint stefnumót í Djúpu lauginni. Það getur tekið mislangan tíma að kynnast hverri manneskju og finna okkur þægindaramma til að ræða um viðhorf til tísku. Finna okkar tungumál til að ná utan um bæði persónulegan stíl viðkomandi og hvernig ég get komið með mitt innsæi og þekkingu til að styðja við þá sjálfsmynd sem manneskjan hefur og svo bæta við þá ímynd því fataval er svo stór hluti af því hvernig við tjáum okkur út á við. Það fer eftir verkefnum hvernig ferlið er. Ef ég er að vinna að tónlistarmyndbandi þá snýst þetta meira um þá sögu sem er á bak við lagið og að finna föt sem passa inn í hugmyndina á bak við myndbandið,“ segir Edda.

Edda starfar meðal annars með tónlistarkonunni Ava Max.
Edda starfar meðal annars með tónlistarkonunni Ava Max.

„Fyrir tónleika, kynningarviðburði, myndatökur og föt á rauða dregilinn snýst vinnan meira um að þekkja persónulegan smekk kúnnans og vita hvað passar honum. Það tekur tíma að kynnast og byggja upp traust og er mjög persónuleg þjónusta. Með minni yfirsýn yfir tísku, fatastíl og það nýjasta sem hönnuðir eru að sýna á tískuvikum stórborga um allan heim og það sem minni hönnuðir sýna á samfélagsmiðlum get ég miðlað til þeirra tillögum að fötum sem hjálpa manneskjunni að láta hugmyndir sínar rætast í því mikla úrvali fatnaðar sem er stöðug vinna að fylgjast með.“

Edda segir ólíkt að klæða fólk fyrir svið eða fyrir rauða dregilinn. Fyrir sviðsframkomu þarf manneskjan að vera örugg í fötunum þegar hún stígur á svið og fatnaðurinn þarf að hjálpa henni að tjá sig, að sögn Eddu. Einnig þurfa fötin að vera praktísk, það þarf til dæmis að vera hægt að margþvo þau og mögulega skipta um föt á leifturhraða.

„Fyrir tónleika eru fötin yfirleitt keypt, sérsaumuð eða búin til í samvinnu við tískuhönnuð og oft myndast sterk tengsl milli hönnuðar og viðkomandi listamanns sem verður jafnvel að langtímasamvinnu,“ segir Edda og segir fötin oft einstök og sérstaklega saumuð fyrir sviðsframkomuna.

„Fyrir rauða dregilinn snýst þetta meira um að vera í fötum sem myndast vel og skiptir heilmiklu máli að vera í fötum eftir þekkta tískuhönnuði. Klæðnaðurinn og skartið eru þá yfirleitt fengin að láni hjá hönnuðinum. Það er líka gjarnan mikið um demanta og eðalsteina og því fylgir mikið umstang.“

Björk er einstök

Hvernig veitir samstarfið við Björk þér innblástur?

„Fyrir mér er það mikill heiður og mjög spennandi að vinna með listakonu eins og Björk. Hennar vinnuferli er mjög ólíkt flestum öðrum sem ég vinn með. Fötin sem verða fyrir valinu eru framlenging á hennar myndrænu heildarsýn og hugmyndafræði tónlistarinnar sem hún er að vinna að í hvert skipti. Oftar en ekki er unnið út frá sérstakri litapallettu, textíl, áferð og formum í sniðum á fötunum svo eitthvað sé nefnt. Þetta er hún að þróa til að finna rétta karakterinn samhliða tónlistinni sem hún er að semja og þróunin stendur yfir margra mánaða tímabil eða jafnvel nokkur ár.

Björk hefur yfir höfuð mikinn áhuga á hönnun og tísku. Þetta er stór hluti af hennar persónuleika og er henni innblástur. Hún veit mikið um tísku og hefur gaman að því að gera tilraunir með alls konar klæðnað og nýjar samsetningar. Í gegnum árin hefur Björk að mestu leyti unnið án stílista og fundið fötin sjálf og hún setur alltaf sjálf saman heildarútlitið með fötum, hárkollum, förðun og aukahlutum.

Hún hefur viðað að sér gífurlegri þekkingu yfir árin og þekkir vel inn á þetta. Hennar kunnátta gerir það enn það áhugaverðara fyrir mig að vinna með henni og hún veitir mér sífellt innblástur. Með henni er ég meira að hjálpa henni að fá og finna föt sem passa við lögin og hjálpa henni að tjá sig.

Björk er framúrstefnukona sem fer sínar eigin leiðir bæði í tónlist og klæðnaði. Það er engin lognmolla á fataskápnum þegar maður er að vinna með henni. Hún er í sífelldri þróun og heldur manni á tánum og hjálpar mér að ýta sjálfri mér upp á nýtt og spennandi plan og sigla á ný mið.“

Björk spáir mikið í tísku og er hún Eddu mikill …
Björk spáir mikið í tísku og er hún Eddu mikill innblástur. Ljósmynd/Viðar Logi

Mikil og erfið vinna

Er eitthvað sem heitir venjulegur dagur í lífi Eddu?

„Þrátt fyrir að ég ferðist út um allan heim eins og venjan er orðin hjá mér þessa dagana, þá byrja ég daginn yfirleitt á að fara yfir tölvupósta. Svo er þetta í raun verktakavinna og því eru engir tveir dagar eins. Það byggist allt á því hvar í ferlinu verkefnin eru, hvort ég er að byrja undirbúning á verkefni eða að að vinna í myndatöku, vídeótökum eða tónleikum til dæmis. Í framhaldinu af verkefnunum fer mikill tími í að ganga frá fötum eftir tökur, skila þeim og halda utan um pappírsvinnuna. Nú til dags fer líka ótrúlega mikill tími í verkefnastjórnun þar sem ég er með fólk í vinnu í mismunandi löndum sem ég ræð til að vinna með mér að verkefnum þannig að ég get unnið mörg verkefni í mörgum löndum á svipuðum tíma. Án þess að vinna með þessu frábæra fólki gæti ég ekki gert helminginn af því sem ég geri. Það þarf oft heilan her til að vinna verkefnin sem ég er með. Svo enda dagarnir áður en ég sofna á að senda og svara tölvupóstum.“

Áttu þér uppáhaldsverkefni sem þú hefur tekið að þér?

„Ég er mikil alæta á menningu, listir og poppkúltúr og hef áhuga á ólíklegustu hlutum. Mér finnst því öll verkefni mín frekar skemmtileg, einmitt af því að þau eru ólík. Það hentar mér mjög vel til dæmis að gera Cadillac-bílaauglýsingu einn daginn og svo Nicki Minaj-rapptónlistarmyndband þann næsta. Það er hressandi og eins og að fá sér sorbet milli stórra rétta til að hreinsa pallettuna og hrista upp í hlutunum. En yfirhöfuð finnst mér skemmtilegast að gera tónlistarmyndbönd, tónleika og tískuþætti fyrir tískublöð þar sem ég get látið reyna á ímyndunaraflið og fæ að leika mér með flott föt og aukahluti alls staðar að úr heiminum.“

Hvaða eiginleikum þarf maður að búa yfir til þess að ná langt í heimi tískunnar?

„Jákvæðni er mikilvægur eiginleiki í þessu starfi, að geta aðlagast hratt mismunandi aðstæðum og vera opinn fyrir hugmyndum. Maður þarf að vera mjög vel skipulagður og úrræðagóður, geta tekið nýja stefnu mjög hratt og vera til í U-beygjur og ekki festast í fyrir fram ákveðnum hugmyndum.

Maður þarf að geta sett egóið til hliðar, hlustað á fólk og skilið hvenær hentar að „lita út fyrir línurnar“ og stundum er það einfaldlega ekki hægt. Þú þarft að vera tilbúinn til að sofa lítið þegar á þarf að halda, sýna aga og gera margt í einu, virða samstarfsfólkið og vera jafnframt góður leiðtogi, bera endalausar ferðatöskur út um allan heim og halda ró þinni þegar lyftan er biluð.

Tek það skýrt fram: Ég er enn þá lærisveinn. Þú þarft í raun að hafa það mikinn áhuga á því sem þú ert að gera að þú sért til í að vinna vinnuna vel og leggja mikið á þig frekar en að vera upptekin af hringiðu hátískunnar og velta þér upp úr glamúrnum, þar er partífólkið en ekki þeir sem eru að vinna af alvöru í þessum heimi,“ segir Edda.

Edda stíliseraði auglýsingaherferð Thom Browne.
Edda stíliseraði auglýsingaherferð Thom Browne. Ljósmynd/Viðar Logi

Jákvæð skref í tískuheiminum

Hefurðu prófað að hanna sjálf?

„Þegar ég byrjaði að stílisera var það í eðlilegu framhaldi af sambandi mínu við fatahönnuð. Ég var með honum til margra ára og við unnum saman fatalínur. Sú reynsla gaf mér bæði skilning á því hvernig það er að búa til föt, bæði tæknilegan skilning á möguleikunum sem felast í því að móta ólík efni í föt, auk þess sem ég öðlaðist aukinn skilning á því hvað það spilar margt annað inn í fatahönnuðarstarfið en að hanna föt.

Þetta er ótrúlega erfiður, margþættur og dyntóttur bransi. Þegar hönnuður er búinn að hanna fatalínuna sína og sýna hana tekur við tímabil til að selja hana og taka við pöntunum fyrir ólíkar verslanir og kúnna. Svo þarf að koma pöntuðu fötunum í framleiðslu og kosta það, sjá til þess að fá borgað og á meðan er maður líka á fullu að þróa hugmyndir og hanna næstu fatalínu.

Tímalínan er svo ótrúlega hröð og hönnuðir nú til dags eru á endalausu hamsturshjóli. Ofan á það þurfa þeir svo að átta sig á því að tískuheimurinn er brjálæðisleg vinna og bissness en ekki áhugamál. Þú þarft að taka inn í myndina hvað selst og annað hvort taka tillit til þess og vera tilbúinn til að laga þig að því eða reyna að láta heiminn laga sig að því hvað þú vilt að fólk kaupi sem kannski gengur ekki alltaf upp fyrir þig sem hönnuð. Það þarf sterk bein og elju til að halda það út. Oftar en ekki endar þetta því miður á kulnun eða „burtu með þig … næsti!“ Ég ber mjög mikla virðingu fyrir fatahönnuðum en myndi aldrei aftur vilja vera í því hlutverki,“ segir Edda.

Tækni er Eddu ofarlega í huga þegar hún er spurð hvað henni finnist mest spennandi við tískuna í dag. Tæknin kemur við sögu á mismunandi sviðum tískunnar, svo sem við að koma hönnuðum á framfæri eða t.d. til að gera tísku umhverfisvænni.

„Mér finnst mest spennandi að sjá hvernig netið hefur hjálpað manni að finna ólíka og nýja hönnuði og gert manni kleift að uppgötva spennandi hluti og allt er svo miklu aðgengilegra þannig að með örfáum smellum ertu kominn í samband við hönnuðina sjálfa. Nú til dags eru líka svo margar stefnur í gangi og aukin tækifæri fyrir unga hönnuði að spreyta sig og fanga athygli jafnvel virtra tískuhúsa sem vilja hjálpa þeim með ýmsum hætti og styðja þeirra sýn.

Einnig er einstök hönnun núna aðgengilegri fólki í ólíkum fjárhagsaðstæðum. Persónulega finnst mér líka mjög spennandi að sjá hvað það er aukið úrval þegar kemur að tísku karlmanna, þar á sér stað mun hraðari þróun og jákvæðar breytingar eftir ansi mörg ár af stöðnun og íhaldssemi. Ekki má gleyma sýndarveruleika þar sem tískan spilar stóran þátt líka með óendanlega miklu úrvali og möguleikum fyrir sófakartöflurnar.“

Tíska og tækni haldast í hendur og með aukinni áherslu á sjálfbærni í samfélaginu er verið að feta sömu braut í tískuheiminum. Það er til dæmis verið að þróa efni úr margvíslegum óvenjulegum efnum, eins og sveppum, myglu og ætilegu lífplasti sem Edda segir mjög spennandi. Það eru fleiri jákvæð skref í tískuheiminum þótt þau séu stundum stutt. Eitt af því sem Edda er ánægð með að sjá er að tískuheimurinn er fjölbreyttari en áður. Fjölbreyttar líkamsgerðir eru orðnar áberandi í tískuheiminum, til dæmis fleiri kynstofnar og fólk með sérþarfir og á breiðara aldursbili er meira áberandi en áður. „Það er enn nokkuð í land með að tískubransinn búi til sama plássið fyrir aðra en hvíta slána með átröskun en hænuskref eru samt skref í rétta átt,“ segir Edda, spennt fyrir komandi tímum í tískuheiminum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál