Alexander farðaði Sophie Tweed Simmons fyrir brúðkaupið í Los Angeles

Alexander Sigurður Sigfússon farðaði Sophie Tweed Simmons fyrir brúðkaupið hennar.
Alexander Sigurður Sigfússon farðaði Sophie Tweed Simmons fyrir brúðkaupið hennar. Ljósmynd/Samsett

Förðunarfræðingurinn Alexander Sigurður Sigfússon lét drauminn rætast fyrir einu og hálfu ári og flutti til Lundúna. Eftir nokkurt hark fékk hann vinnu hjá snyrtivörumerkinu Charlotte Tilbury og í framhaldinu fóru hjólin að snúast. Á dögunum farðaði hann söngkonuna og lagahöfundinn, Sophie Tweed Simmons, þegar hún gekk að eiga unnusta sinn, James Henderson, sem er tónlistarmaður. Þess má geta að fjölskyldan er heimsfræg en Simmons er dóttir Gene Simmons gítarleikara hljómsveitarinnar KISS. 

„Ég kynntist Simmons fyrst í gegnum Ásdísi Maríu vinkonu mína. Þetta var stuttu eftir að ég flutti til Lundúna en síðan þá höfum við verið góðir vinir. Síðastliðið sumar trúlofaðist hún James Henderson í borginni Zurich í Sviss. Þau voru í ferðalagi um Evrópu og áður en þau flugu heim til Los Angeles stoppuðu þau við í Lundúnum þar sem við Ásdís María hittum þau í kvöldverð á veitingastaðnum Soho House. Þau buðu okkur í brúðkaupið og hún spurði mig hvort ég væri til í að farða sig fyrir brúðkaupið sitt og alla aðra viðburði brúðkaups vikunnar. Að sjálfsögðu sagði ég já þar sem hún er góð vinkona mín en líka því þetta brúðkaup er stórt tækifæri fyrir mig á marga vegu. Ég kynnist helling af skemmtilegu og áhugaverðu fólki,“ segir Alexander. 

Brúðkaupið fór fram í Los Angeles og stóð yfir í fimm daga. Alexander segir að það hafi verið mikil upplifun að fá að taka þátt í þessari gleðistund með hjónunum. Hann var með förðunarburstana á lofti alla vikuna. Fyrsti viðburðurinn var svokallað „Bachelorette“ teiti með með glamúr-kúrekaþema. Daginn eftir var kvöldverður heima hjá foreldrum brúðarinnar, Gene Simmons og Shannon Tweed Simmons, sem búa í Beverly Hills í West Hollywood. Brúðkaupið sjálft fór fram í sumarhúsi móður brúðarinnar sem er staðsett á hæsta punkti fjallgarðsins við Malibu í Kaliforníu. 

Alexander segir að það hafi verið mikil upplifun að koma þangað þar sem mikið var lagt í húsakynnin og útsýnið hafi verið sturlað. Þrátt fyrir glæsilega umgjörð var brúðkaupið sjálft lítið og þar voru bara nánustu ættingjar og vinir eða um 50 manns. Daginn eftir var svo haldin 300 manna brúðkaupsveisla á klúbbnum Delilah í Los Angeles. Á brúðkaupsdaginn sjálfan farðaði Alexander bæði brúðina og brúðarmeyjar hennar. 

„Daginn eftir brúðkaupið sjálft var stór brúðkaupsveisla haldin þar sem 300 gestum var boðið á klúbbinn Delilah í Los Angeles sem er innréttaður í 1920 stíl,“ segir hann en daginn eftir var dögurður fyrir alla gestina sem komu fljúgandi til Los Angeles erlendis frá. 

Hér er Alexander að farða Sophie Tweed Simmons fyrir brúðkaup …
Hér er Alexander að farða Sophie Tweed Simmons fyrir brúðkaup hennar. Ljósmynd/Aðsend

Það þýðir ekkert að tala við Alexander nema spyrja hann út í förðunina sjálfa. Hvað gerði hann til þess að brúðurin yrði eins og drottning alla vikuna? 

„Það voru nokkur lykilatriði sem við héldum okkur við alla dagana. Hún vildi hafa náttúrulega fríska húð með rjóðum kinnum. Ég setti kinnalitinn hátt á kinnbeinin og blandaði fram á kinnar og upp á nef líkt og hún væri með léttan sólbruna. Ég vildi hafa varirnar náttúrulegar og létt mótaðar með glans áferð. Hún vildi ýfðar augabrúnir og skyggingu í kringum um augun í „nude“ litasamsetningu. Ég blandaði augnskugganum alltaf út í hliðar og upp í átt að gagnauganu til að gefa augnsvæðinu lyftingu. Með dekkri augnskuggum bjó ég til léttan eyeliner með spíss sem ég blandaði út svo hann væri mjúkur en ekki skarpur,“ segir Alexander. 

Simmons er með mjög löng augnhár frá náttúrunnar hendi og því lét Alexander bara létt lag af maskara á augnhárin. 

„Ég vildi rétt skerpa augnsvipinn með maskara og setti þunnt lag í stað þess að setja þykkt lag. Það þyngir augnsvæðið að hafa þykkt lag af maskara. Svo setti ég þrjú stök gerviaugnhár í ytri augnkrókinn til þess að ná fram meiri lyftingu,“ segir hann. 

Þegar Alexander er spurður um hverju hann vildi ná fram með förðuninni segir hann að markmiðið hafi verið að búa til fallega og náttúrulega förðun sem virkaði í öllum birtustigum. 

„Brúðkaupsathöfnin sjálf byrjaði í sólskini og endaði í sólsetri á Malibu þá þurfti förðunin að taka mið af því. En hún þurfti líka að koma vel út á myndum,“ segir Alexander. 

Þegar Alexander er spurður út í hvaða snyrtivörur hann hafi notað á andlit Simmons segist hann aðallega hafa notað vörur frá Charlotte Tilbury.

„Ég er gjörsamlega ástfanginn af þessu merki en það býður upp á mikið úrval af framúrskarandi húð-og förðunarvörum. Til að kalla fram það besta á brúðkaupsdag Simmons setti ég saman skothelda húðrútínu fyrir hana. Góð húðrútína er undirstaða fallegrar förðunar. Hún tryggir fallega áferð og förðunin helst einnig betur á húðinni ef undirstaðan er góð. Oft er sagt að farðinn muni líta eins vel út og húðrútínan þín er. Ég tek heilshugar undir það. Ég byrjaði á að undirbúa húðina með Charlotte Tilbury Magic Serum Crystal Elixir. Það er kraftmikið rakagefandi serum sem jafnar áferð húðar, dregur út ásýnd húðhola og inniheldur Polyglutamic sýru sem er fjórum sinnum meira rakagefandi en hýalúronik sýra. Serumið er borið á hreina húð. Næst notaði ég Charlotte Tilbury Cryo Recovery Eye Serum sem er rakagefandi augnserum sem samstundis dregur úr þrota og þéttir augnsvæðið. Þá bar á Charlotte Tilbury Magic Cream á húðina en það er besta rakakrem sem ég hef notað! Ég geri ekki farðanir lengur nema ég noti Magic Cream til að undirbúa húðina því það gerir húðina tíu sinnum fallegri. Svo notaði ég Charlotte Tilbury Magic Lip Oil Crystal Elixir sem er  rakagefandi varaolía. 

Til að ná fram fullkomnum léttum grunn á húðina notaði ég hinn fræga Hollywood Flawless Filter frá Charlotte Tilbury. Þetta gefur húðinni léttan lit og ljóma og sléttari áferð. Hægt er að nota vöruna eina og sér, blanda út í farða eða setja yfir farða. Hollywood Flawless Filter er ein af þeim vörum sem Charlotte Tilbury notar mikið fyrir rauða dregilinn á stórstjörnurnar,“ segir Alexander og heldur áfram: 

„Fyrir aukna þekju á húðina blandaði ég nokkrum dropum af Beautiful Skin Foundation frá Charlotte Tilbury út í Hollywood Flawless Filter-inn. Farðinn er með meðal þekju og ljómandi áferð. Hann er einstaklega rakagefandi og inniheldur mengunarvörn. Simmons kann ekki vel við hyljara svo við notuðum farðann óblandaðan undir augun til að jafna húðlitinn. Svo notuðum við örlítið af Charlotte Tilbury Hollywood Contour Wand til að gefa húðinni smá lit og skerpa kinnbeinin. En þetta er ein af vinsælustu vörum merkisins. Svo notaði ég Besuty Wand Matte Blush í litnum Pillow Talk í kinnanar en það er kinnalitur í vökvaformi sem gefur náttúrulega þatta áferð og bráðnar inn í húðina.“

Alexander ákvað að láta drauma sína rætast og flutti til …
Alexander ákvað að láta drauma sína rætast og flutti til Lundúna.

Alexander notaði Charlotte Tilbury Hollywood Beautylight Wand í litnum Spotlight sem er ljómagefandi highlighter í vökvaformi. Hann setti hann á hæstu punkta kinnbeinanna til að gefa þeim fallegan ljómandi áferð. 

„Vanalega held ég mig við vökva og krem vörur á húðina til að ná fram náttúrulegri og frísklegri áferð og nota sem minnst af púðurvörum þar sem púðurvörur eiga það til að draga fram áferð og draga úr frískleika húðar,“ segir hann og segist hafa notað ljómapúðrið Hollywood Glow Glide Facial Architect í litnum Pillow Talk sem er „nude“ bleikur litur.

„Púðrið er einstaklega fíngert svo það bráðnar inn í húðina og skilur ekki eftir sig púðuráferð.“

Þegar kom að brúðkaupinu sjálfu notaði Alexander augnskugga pallettuna Luxury Eyeshadow Palette - Pillow Talk frá Charlotte Tilbury. Í þeirri pallettu eru ljósir bleiktóna litir sem draga fram alla augnliti og gefa augunum draumkennt og mjúkt yfirlit að mati Alexanders. Hann notaði líka augnskuggapallettuna Super Nudes Palette sem geymir matta liti í brúnum tónum. Hann segir að það hafi komið vel út að blanda þessum litum saman. Til þess að ramma augun inn notaði hann maskarann Legendary Lashes frá Charlotte Tilbury. Á varirnar notaði hann varablýantinn Pillow Talk Original sem er vatnsheldur. 

„Ég mótaði varirnar og jafnaði litinn út á vörunum. Svo setti ég varaglossið Collagen Lip Bath í litnum Refresh Rose á varirnar.“

Alexander segir að púðrið Airbrush Flawless Finish Powder sé eitt af bestu púðrum sem hann hefur notað. Hann setti það að sjálfsögðu á andlit Simmons. 

„Ég nota það undir augu, nef, enni og höku og þau svæði sem ég vill minka glans á. Púðrið er rakagefandi og skilur ekki eftir sig púður áferð en blörrar áferð og húðholur og skilur eftir sig áferð líkt og húðin væri photoshop-uð. Til að læsa niður förðunina, bræða allt saman í húðina og láta allt saman endast út allan daginn notaði ég Airbrush Flawless Setting Spray. Það virkar líkt og hárlakk. Læsir allar förðunarvörurnar niður,“ segir hann og bætir við: 

„Ef Simmons var klædd í fatnað sem sýndi bera handleggi og bringu notaði ég Supermodel Body frá Charlotte Tilbury fyrir aukinn ljóma og raka á þau svæði.“

Alexander segir að fólk fái kannski hland fyrir hjartað yfir magninu af vörunum sem hann notaði. 

„Allt eru þetta vörur sem ég notast mikið við þegar ég farða en gott er að hafa í huga að þótt þetta líti út fyrir að vera mikið af förðunarvörum þá notaði ég lítið af öllu. Ég forðast það að nota of mikið af hverri vöru þar sem því meira sem þú setur á húðina því líklegri er förðunin til að kámast af húðinni og safnast saman í fínar línur.“

Alexander starfar hjá Charlotte Tilbury í Covent Garden í Lundúnum.
Alexander starfar hjá Charlotte Tilbury í Covent Garden í Lundúnum.

Það er hægt að gleyma stund og stað við það eitt að ræða förðunarvörur við Alexander. Hann býr yfir dýrmætri þekkingu á sínu sviði. Það var einmitt þess vegna sem hann ákvað að láta drauma sína rætast og flytja til Lundúna. Hann vildi gera eitthvað meira og stærra. 

„Síðan ég byrjaði feril minn sem förðunarfræðingur árið 2016 vissi ég strax að mig langaði að starfa við fagið erlendis. Það er vegna þess að tækifærin fyrir förðunarfæðinga eru takmörkuð heima á Íslandi - en endalaus erlendis. Ég hafði ekki hugmynd um hvar mig langaði til að búa enda voru valmöguleikarnir endalausir. Meðan ég hægt og rólega aflaði mér reynslu og þekkingar heima á Íslandi og byggði upp minn feril, hélt ég áfram að sigta út valkostina um hvar ég gæti hugsað mér að búa. Meðal þeirra voru New York, Kaupmannahöfn og Lundúnir þær borgir sem ég var hvað mest spenntur fyrir,“ segir Alexander og bætir við: 

„Í lok ársins 2019 ákvað ég að nú væri komið gott af frestunaráráttu og fara að gera eitthvað í þessum málum. Ég vildi fara að drífa mig út að heimsækja borgirnar sem ég hafði hugsað mér að búa í. Kaupmannahöfn hafði ég heimsótt áður en ekki New York né Lundúnir. Ég byrjaði á að skella mér í vikuferð til Lundúna snemma árs 2020. Eftir þá ferð varð ég ástfanginn af borginni og fékk þá innri tilfinningu um að ég væri kominn heim. Svo New York og Kaupmanna höfn voru úr sögunni. En þá vandaðist málið því þegar ég flaug aftur heim aftur hófst kórónuveirufaraldurinn. 

Sökum þess töfðust flutningar til Lundúna. Þegar faraldurinn fór að róast var komið gott af bið og ég bókaði mér miða til Lundúna með tveggja vikna fyrirvara og tók skrefið. Áskorunin var að slíta sig út úr þægindarammanum heima á Íslandi og demba sér út í nýtt ævintýri og ofhugsa ekki of mikið. Hér er ég nú og gæti ekki verið ánægðari með lífið. Besta ákvörðun sem ég hef tekið og hefði átt að vera löngu búinn að þessu,“ segir Alexander. 

Síðan er liðið eitt og hálft ár. Þegar hann er spurður að því hvernig Lundúna-lífið hefur verið segir hann að þetta sé einfaldlega snilld. 

„Fyrstu mánuðirnir voru smá erfiðir þar sem það var mjög erfitt að fá atvinnu-vísa sem kom í veg fyrir að ég gæti fengið vinnu vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandalaginu. Það tók sinn tíma og hafði áhrif á sjálfstraustið en allt gekk upp á endanum. Ég myndi hiklaust endurtaka allt ferlið mitt hér í Lundúnum vitandi að ég myndir enda á þeim stað sem ég er á í dag. Ég var staðráðinn í að gefast ekki upp og láta allt saman ganga upp. Ég er í fullu starfi  hjá förðunarmerkinu Charlotte Tilbury í Covent Garden,“ segir hann og játar að hafa sóst mest eftir því starfi og segist ánægður að hafa fengið það. 

„Möguleikarnir innan fyrirtækisins eru endalausir og starfið er mjög spennandi. Ég ætla ég mér að komast eins langt innan fyrirtækisins og ég get.

Er þetta eintómt ævintýri og dans á rósum?

„Já, að mestu leyti. Ég hef aldrei verið hamingjusamari eftir að ég flutti út. Borgin er fjölbreytt og iðar af lífi. Ég hef kynnst yndislegu fólki hér. Auðvitað saknar maður fjölskyldu og vina. Það getur stundum verið erfitt en hér vill ég vera. Ef heimþráin er of mikil þá tekur flug til Íslands styttri tíma en að keyra frá Reykjavík til Akureyrar.“

Hægt er að lesa nánar um brúðkaup Sophie Tweed Simmons í People. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál