Fékk fatadellu 16 ára og datt óvænt inn í tískubransann

Herrablað
Herrablað mbl.is/Kristinn Magnússon

Grímur Garðarsson er fjárfestir og eigandi Bestseller á Íslandi. Í einlægu viðtali segir hann frá því hvernig það hafi breytt lífi hans að komast á fótboltastyrk til Bandaríkjanna og hvernig hann hugsar hlutina öðruvísi í dag en hann gerði þegar hann var yngri. Eitt af
því sem hann sér mest eftir er að hafa ekki varið meiri tíma með móður sinni sem varð bráðkvödd fyrir áratug.

Grímur er í grunninn fótboltastrákur úr Kópavoginum. Eftir nám í Verslunarskóla Íslands komst hann í háskóla í Bandaríkjunum vegna fótboltastyrks.

„Það má segja að þetta hafi verið vendipunktur í mínu lífi. Það var lítið svigrúm heima fyrir til að styðja við mig til frekara náms og ég hefði líklega ekki klárað háskóla ef þetta hefði ekki komið til,“ segir Grímur. Hann lærði viðskiptafræði við James Madison-háskólann sem er í Virginu í Bandaríkjunum. Hann segir að þetta hafi verið krefjandi tími því liðið ferðaðist um allt landið til að spila fótbolta og hann fékk ekki afslátt af náminu. Hann var því oftar en ekki aftast í rútunni með bækurnar til þess að ná prófunum.

„Þetta gat verið mjög krefjandi þar sem það voru útileikir aðra hverja helgi og þá þurfti liðið oft að ferðast í margar klukkustundir í rútu, til og frá leiksvæði. Rútuferðina þurfti að nýta í lærdóm þar sem ekkert var slegið af námskröfunum til okkar sem vorum í íþróttaliðunum.“

Þegar Grímur er spurður hvernig hann hafi komist á þann stað sem hann er á í dag segir hann að leiðin hafi verið grýtt. Það hafi gengið á ýmsu í barnæskunni sem hefur mótað hann.

„Móðir mín hafði oft á orði að maður uppskæri eins og maður sáði. Hún lést árið 2013 en orðin lifa með mér. Ég hef alla tíð lagt mjög hart að mér, bæði í íþróttum og vinnu. Þegar ég set mér markmið er ég mjög einbeittur í að ná því. Sumir hafa lýst mér sem gríðarlega þolinmóðum manni en aðrir sem mjög þrjóskum. Þetta er örugglega að einhverju leyti rétt. Annars litast minn uppvöxtur af margs konar atvikum og minningum sem höfðu áhrif á mig. Margt var jákvætt og sumt erfitt, en sem betur fer tókst mér að vinna vel úr erfiðleikum sem ég held að hafi gert mig að sterkari manni. Lífið getur verið erfitt og ósanngjarnt, en við getum reynt okkar besta til að skapa hamingjuríkt líf og umhverfi sem gerir okkur betri manneskjur,“ segir Grímur.

Eftir háskólanámið kom Grímur aftur heim til Íslands og fékk vinnu hjá Skaganum 3X á Akranesi.

„Ég gegndi ýmsum störfum hjá félaginu og varð að lokum framkvæmdastjóri. Reynslan hjá Skaganum 3X var mjög lærdómsrík þar sem þetta voru krefjandi tímar hjá félaginu. Árið 2007 tók ég ákvörðun um að stofna mitt eigið fjárfestingafélag og segja upp starfi mínu. Þetta er líklega stærsta ákvörðun sem ég hef tekið á starfsferlinum og raunar stærri en margir gera sér grein fyrir. Það að segja sig frá öruggum launum gerir það að verkum að maður þarf að treysta 100% á sjálfan sig. Á sama tíma getur þú uppskortið mikil verðmæti ef allt gengur upp.“

A-manneskja sem gerir plan út árið

Í vinnunni eru engir tveir dagar eins hjá Grími. Það eina sem er ekki breytilegt er að hann er mikil A-manneskja og nýtur þess vel að eiga tíma fyrir sig á morgnana.

„Ég vakna venjulega á milli sex og hálfsjö, fæ mér nespresso, enda ekki hægt að byrja daginn betur en á kaffibolla. Opnun Nespresso á Íslandi er á meðal þeirra fjárfestingaverkefna sem ég hef tekið þátt í. Ég er ekki lengur hluti af því frábæra verkefni, en kaffið elska ég ennþá.“

Aðra hverja viku er Grímur með börnin sín sem hann eignaðist með fyrri eiginkonu sinni. Fyrir rúmum tveimur árum bankaði ástin upp á á ný þegar hann hitti Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur fjárfesti.

„Aðra hverja viku er ég með börnin og þá fer morgunninn í að koma þeim af stað í skólann. Eftir það liggur leið mín annaðhvort í tennis eða pílates sem ég stunda með konunni minni og þá eigum við smá „me time“ sem er dýrmætt því dagskrá okkar beggja er krefjandi yfir daginn og stundum eru samverustundir ekki nógu margar. Ég mæti svo á skrifstofuna um klukkan 10 og þá hefst hinn eiginlegi vinnudagur, sem getur verið mjög breytilegur. Helstu fjárfestingaverkefni mín þessa dagana eru tengd fasteignaverkefnum og smásölu, þá einkum rekstri Bestseller-búðanna sem eru Vero Moda, Jack & Jones, VILA, Selected og Name It.“

Grímur segir að börnin stýri svolítið för þegar þau eru hjá honum. Hann reynir að gera sitt besta til þess að sinna þeim sem best.

„Skilin milli vinnu og heimilis geta verið óljós þegar rekstur er á eigin ábyrgð og margt fólk sem treystir á mann. Ég tók snemma ákvörðun um að taka tölvuna helst ekki með mér heim og gefa mér tíma með vinum og fjölskyldunni eftir skóla og í kvöldmatartíma.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Datt óvænt inn í tískubransann

Tískuáhugi Gríms kviknaði þegar hann fékk vinnu í herrafataversluninni Hanz í Kringlunni þegar hann var 16 ára. Í þá daga var verslunin í eigu Guðmundar Ólafssonar.

„Þar vann ég undir dyggri handleiðslu Gunnars Hilmarssonar sem síðar stofnaði GK og ég fylgdi honum þangað. Ég vann í GK í nokkur ár og kynntist þar Hrefnu Lind Heimisdóttur sem er framkvæmdastjóri Bestseller í dag. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku og fatastíl og á þessum árum fór stærstur hluti launanna minna í föt. Þetta hefur líklega mótað mikið minn fatastíl til framtíðar. Ég vil helst alltaf vera í skyrtu, við öll tilefni. Ef ég mætti ráða myndi ég mæta í tennis í skyrtu en meðspilarinn minn hefur ekki tekið vel í það,“ segir hann og hlær og bætir við:

„Það var svo í gegnum fyrrverandi konuna mína, Helgu Árnadóttur, og hennar fjölskyldu sem ég tengdist fyrst Bestseller. Foreldrar hennar stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma og opnuðu fyrstu Vero Moda-búðina árið 1993 á Laugaveginum. Síðar fór fyrirtækið í eigu hennar og systkina hennar áður en hún og systir hennar eignuðust fyrirtækið.

Árið 2014 fluttum við fjölskyldan til Montreal í Kanada þar sem við keyptum Vero Moda í Kanada. Það reyndist mikil áskorun og það þurfti að takast á við rekstrarerfiðleika. Þótt ég ætlaði sjálfur ekki að taka þátt í rekstrinum þá dróst ég inn í hann og áhugi minn á smásölu kviknaði af alvöru. Á endanum varð ég framkvæmdastjóri Vero Moda í Kanada. Þetta var mjög áhugaverður tími og ég lærði mikið. Bæði um smásölu og fyrirtækjamenningu sem ég þekkti ekki fyrir. Þetta var töluvert stærra umhverfi en maður átti að venjast, miklu fleiri búðir og stórt landsvæði sem búðirnar voru dreifðar á.

Árið 2016 fæddist sú hugmynd að ég og þáverandi viðskiptafélagar mínir hjá Vörðu Capital keyptum fyrirtækið af þeim systrum. Þær höfðu tekið þátt í rekstrinum frá stofnun og síðar stýrt fyrirtækinu af mikilli elju og dugnaði, en langaði að dreifa sínum eignum í fleiri körfur.

Það verður af þessum viðskiptum, Varða Capital varð eigandi Bestseller, og tók við rekstrinum. Árið 2020 ákváðum við Jónas Hagan, fyrrverandi viðskiptafélagi minn, að skipta sameiginlegum eignum á milli okkar og þannig eignast ég Bestseller að fullu,“ segir Grímur.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að viðskiptaumhverfið í fatabransanum sé krefjandi og kórónuveiran hafi ekki hjálpað neitt til.

„Kórónuveiran reyndi ákaflega mikið á starfsfólk félagsins. Bæði með rekstraróvissu og óþægindum sem fylgdi því að bera grímu alla daga og aðlaga sig síbreytilegum sóttvarnarreglum. Eftir veiruna þurfti að takast á við kostnaðarverðshækkanir, launahækkanir, gengishækkanir og fleira slíkt. En þetta eru jú bara verkefni sem fylgja því að vera í rekstri. Annars er þessi geiri mjög lifandi og skemmtilegur. Það eru sífellt að koma nýjar vörur, nýir stílar, nýjar markaðsaðferðir, nýir keppinautar og það er gaman að taka þátt í þessu öllu með öflugu starfsfólki í Bestseller.“

Hver eru mest krefjandi verkefnin akkúrat núna í vinnunni?

„Það er kláralega að vinna úr kostnaðarverðshækkunum sem dynja á okkur. Við ákváðum að streitast á móti og sporna við þeirri verðlagsþróun sem við höfum séð undanfarið. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að berjast gegn verðbólgu og hún kemur illa niður á samfélaginu í heild. Við ákváðum því að lækka verð í marsmánuði um 10% sem jafngilti árshækkun í síðustu verðlagsmælingu og höfum við verið að hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Þetta hefur fengið gríðarlega góðan hljómgrunn hjá öllum og gaman að sjá hvað vel er tekið í þetta. Það er von okkar að með samstilltu átaki takist að hægja á þeim verðlagsspíral sem samfélagið virðist vera fast í. Það þarf sameiginlegt átak ríkis, launþega og atvinnulífs til að snúa þessari þróun.

Annað krefjandi verkefni er fasteignaverkefnið Smárabyggð sem eru byggingar fasteigna við Smáralind. Þetta er verkefni sem hófst 2013 og hefur verið lengi í þróun og byggingu. Aðstæður á fasteignamarkaði árið 2013 voru verulega ólíkar þeim sem við erum að upplifa í dag og síðustu misseri, en það er ein af helstu áskorunum fjárfesta að lesa í framtíðina og sjá fyrir sér þróun á ákveðnum mörkuðum. Það er mín reynsla að ef undirbúningur og greiningarvinna er góð þá verða verkefnin árangursríkari. Í þessu verkefni höfum við upplifað allar mögulegar aðstæður á fasteignamarkaði, en það er á meðal þess sem fjárfestar þurfa að lifa við og gera ráð fyrir í sínum reiknilíkönum.

Í dag er fasteignamarkaðurinn í nokkuð eðlilegu horfi. Sá tími sem tekur að selja hverja íbúð er eðlilegri en stundum áður, þegar hundrað manns mæta á opið hús og 20 tilboð berast í sömu eignina, meira og minna á yfirverði. Það er ekki eðlilegur fasteignamarkaður.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Föt skipta máli

Ég spyr Grím um það hvort hann eigi einhverjar tískufyrirmyndir.

„Ég ber mikla virðingu fyrir mörgum í heimi herratískunnar. Þar má fyrst nefna Tom Ford sem höfðar mikið til mín. Aðrir sem er vert að nefna eru Giorgio Armani, Ralph Lauren, Domenico Dolce og Stefano Gabbana. Allir þessir hönnuðir eru þekktir fyrir mjög stílhreina hönnun í karlalínu sinni ásamt nokkrum afgerandi stílum. Mér finnst mikilvægt að klæðast fötum sem vinna vel saman og skapa jafnvægi. Annars aðhyllist ég líka „less is more“ þegar kemur að fatavali. Það er til dæmis ekki gott að velja saman sterk áberandi merkjaföt enda getur samsetningin orðið eins og óstíliserað jólatré,“ segir Grímur.

Hver er best klæddi karl sem þú þekkir?

„Úff, það verða svo margir vel klæddir menn á vegi mínum. Af Íslendingum myndi ég þó fyrst nefna Daníel Ágúst, sem er alltaf flottur og þorir að vera öðruvísi en er samt ekki of ýktur. Annar sem þorir að skapa sinn eigin stíl og gerir það vel er Rúrik Gíslason. Fyrsti erlendi maðurinn sem kemur upp í hugann er David Beckham. Það er alveg sama hvað sá maður smellir sér í, hann er alltaf flottur, meira að segja í grænu, sem er litur sem ég get alls ekki klæðst.“

Leggur þú mikið upp úr því að vera vel klæddur?

„Já, mér finnst mikilvægt að huga vel að því hvernig ég klæði mig, bæði fyrir mig og til að sýna öðrum virðingu. Það væri líklega skrítið ef ég gerði það ekki, þar sem ég rek ég 12 tískuverslanir. Margir sem ég hitti vita að ég er eigandi Bestseller og því er mikilvægt að vera vel klæddur og um leið auglýsa vörurnar í búðunum. Það kemur fólki reyndar oft á óvart að ég klæðist nær eingöngu fötum sem ég sel. Í okkar búðum er að finna klassísk tískuföt sem henta við flest tilefni og á góðu verði. Það þarf ekki að vera dýrt að klæða sig vel, þetta snýst meira um að setja fötin rétt saman. Svo hefur dagskrá vinnudagsins áhrif á fataval dagsins. Það skiptir ekki máli hvort ég er að taka vakt í Jack & Jones eða fara á fjárfestakynningu, sem krefst formlegri klæðnaðar. Fötin skapa manninn og það skiptir máli að klæða sig í takt við tilefnið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvernig setur fólk saman klæðaskáp sem virkar?

„Það er mikilvægt að maður viti hvað höfðar til manns, velja snið sem henta vaxtarlaginu, að manni líði vel og finni liti sem fara manni vel. Ég sé oft flott föt sem ég get ekki notað, þar sem sniðið eða liturinn gengur ekki upp fyrir mig.“

Hvað þarf að vera í góðum klæðaskáp?

„Það fer mikið eftir starfinu þínu, en fyrir öll almenn tilefni er auðveldlega hægt að setja saman mjög flottan skáp með fötum sem henta við mismunandi tækifæri á ódýran máta. Konur komast langt á því að eiga hvíta strigaskó og svarta háhælaða skó, flottar gallabuxur og svartar síðbuxur í sniði sem hentar vaxtalagi, hvíta skyrtu sem gengur við allt, hvítan stuttermabol og hlýrabol í lit, svarta peysu, peysu í lit, svartan blazer og svarta, brúna eða hvíta kápu.

Fyrir karlmann er gott að eiga hvíta strigaskó og svarta fínni skó, flottar gallabuxur og bómullarbuxur (e. chinos) í ljósum lit, hvíta og svarta skyrtu, hvíta og svarta stuttermaboli, bláa v-hálsmálspeysu, bláan blazer, svört jakkaföt og svartan frakka. Hér má aðveldlega setja saman „casual“ stíl með strigaskóm, gallabuxum, hvítum stuttermabol og blárri peysu. Á augabragði má skipta yfir í „smart casual“ með bláum blaser og ef kvöldið er fínna má skipta yfir í svört jakkaföt með svartri eða hvítri skyrtu.“

Hver er dýrasta flíkin í fatskápnum?

„Í fyrra lét ég eftir mér að kaupa jakka frá Tom Ford sem toppar líklega annað í skápnum mínum.“

Straujarðu skyrturnar þínar sjálfur?

„Ég reyni að hugsa mjög vel um fötin mín, en treysti samt á góða félaga mína í Úðafossi þegar kemur að því að hreinsa og strauja skyrturnar. Þau eru hreinlega miklu betri en ég í þessum verkum.“

Er eitthvað sem þig langar í en ert ekki búinn að kaupa?

„Það hefur verið draumur hjá mér lengi að eignast smóking frá Tom Ford. Brúðkaup okkar Svönu verður í september og aldrei að vita nema mér takist að eignast hann áður en ég gifti mig.“

Hefur fatastíllinn eitthvað breyst eftir að þú kynnist Svanhildi Nönnu?

„Það er góð spurning,“ segir hann og hlær og bætir við:

„Það er kannski tvennt sem hefur breyst. Annars vegar elskar hún að sjá mig í vesti. Ég reyni að fara í vesti þegar ég vil ganga í augun á henni. Hins vegar hef ég eignast alls konar íþróttabúninga, en hún hefur dregið mig í öll helstu jaðarsport sem til eru enda einhver aktívasta manneskja sem ég þekki. Þannig að ég er kominn með hjóladress, tennisdress, fjallaskíðadress, crossfitdress, golfdress og svo framvegis. Líklega deilum við áhuga á fötum og tísku. Áður fyrr mætti ég í skyrtu í allt, meira að segja á skíði sem ég geri reyndar enn, svona aðeins til að ögra,“ segir hann og hlær.

Grímur og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir ætla að ganga í hjónaband …
Grímur og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir ætla að ganga í hjónaband í haust.

Vissi ekki neitt þegar hann var 20 ára!

Ef þú myndir hitta 20 ára gamla þig í dag. Hvað myndirðu segja við hann?

„Vá, ég myndi líklega byrja á að segja mér að ég vissi ekki neitt! Að öllu gamni slepptu myndi segja mér að breyta ekki neinu og allt ætti eftir að fara vel. Það er þó eitt sem við könnumst örugglega mörg við og það er að viljað hafa eytt meiri tíma með okkar fólki sem við höfum misst. Ég hefði gjarnan viljað verja meiri tíma með móður minni sem varð bráðkvödd fyrir um 10 árum.

Mér er minnistætt þegar ég sat í tíma hjá Aðalsteini Leifssyni núverandi ríkissáttasemjara í MBA-námi í Háskólanum í Reykjavík 2007-2009. Hann kenndi mér samningatækni og sagði að lífið væri eins og þriggja fóta stóll; einn fóturinn væri vinna, annar væri fjölskylda og þriðji vinir. Ef maður vanrækir eða eyðir of miklum tíma í eitt af þessu þá byrjar stóllinn að hallast og á endanum fellur hann. Þetta finnst mér lýsa lífinu ágætlega og reyni að hafa í huga í dag. Þetta hefði nýst vel á yngri árum.“

Hvað hefðir þú viljað vita 20 ára sem þú veist í dag?

„Með aldrinum skilur maður betur hversu lítið maður veit í raun og veru. Sem betur fer lærir maður af reynslunni og skilur heiminn betur. Mér fannst lífið oft og tíðum mjög ósanngjarnt og erfitt þegar ég var ungur, en mér hefur lærst að það er að miklu leyti undir okkur sjálfum komið hvernig erfiðleikar fara með okkur. Það er hægt að sjá glasið hálffullt eða hálftómt. Mér fannst lífið hefjast þegar ég eignaðist börnin mín og ég lifi fyrir að sjá þau þroskast og dafna og óska þeim heitast að lifa hamingjuríku og innihaldsríku lífi. Dóttir mín greindist snemma með bráðaofnæmi fyrir hnetum og sonur minn hefur nýlega greinst með flogaveiki. Slíkum veikindum fylgja reglulegar spítalaheimsóknir. Stundum finnst mér þetta ósanngjarnt, en þegar maður sér hvað aðrir foreldrar og börn eru að ganga í gegnum þá er ég óendanlega þakklátur fyrir allt. Það er nú einu sinni þannig að við göngum öll í gegnum eitt og annað og allir eiga við einhvers konar vandamál að glíma, bæði sýnileg og ósýnileg. Þess vegna ættum við að gera meira af því að vera góð hvert við annað.“

Hvernig eru framtíðarplönin?

„Þegar ég var í háskólanum var mér kennt að setja mér markmið. Ef ég skrifaði niður markmið og gerði fimm ára, 10 ára eða lengra plan þá myndi ég ná 93% markmiðunum. Þetta hef ég tileinkað mér síðustu 20 árin og jafnan skrifað niður 10 markmið sem ég ætla mér að ná á næstu fimm árum. Í öll skiptin hef ég náð níu af 10 atriðunum, sem er nokkurn veginn í takt við formúluna. Ég er enn að bíða eftir því að að slá henni við og ná 10 af 10.

Framtíðin er auðvitað óráðin og verður örugglega alls konar! En ég er með mitt fimm ára plan. Það er stutt í brúðkaupið okkar Svönu í september sem ég hlakka mikið til. Sonur minn er að fara á fótboltamót ársins í sumar eða Eyjamótið. Dóttir mín er að fara í framhaldsskóla næsta haust og það verður gaman að fylgjast með henni velja sér skóla, sem reyndar breytist dag frá degi.

Svo á konan mín tvo gaura sem er yndislegt að fylgjast með. Annar er í háskóla og hinn að klára framhaldsskóla. Sá eldri er reyndar líka að sjá um Bestseller Outlet fyrir mig, sem gengur vel og bendir til þess að hann hafi smitast af smásölubakteríunni.

Daglegt líf mitt stjórnast annars fyrst og fremst af dagatalinu í símanum. Við erum samsett fjölskylda og það þarf að taka tillit til margra þátta. Til þess að ná fram góðri skilvirkni reynum við að skipuleggja hverja einustu viku um það bil ár fram í tímann. Hvað varðar framtíðina þá má ætla að maður sé líklega hálfnaður. Ég ætla að gera seinni hlutann eins skemmtilegan og ég get, en sá fyrri var bara helvíti góður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál