„Konur eiga bara að klæða sig eins og þær vilja“

Guðrún Kjartansdóttir á litríkan fataskáp og segist helst ekki kaupa …
Guðrún Kjartansdóttir á litríkan fataskáp og segist helst ekki kaupa svartar flíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Kjartansdóttir lyfjafræðingur hefur haft brennandi áhuga á tísku síðan hún var lítil stelpa í Borgarnesi. Þegar hún var yngri hannaði hún eigin föt en í dag á hún litríkan fataskáp enda er hún á því að lífið sé skemmtilegra í lit

„Foreldrar mínir ferðuðust frekar mikið til útlanda, sem var ekki algengt í gamla daga, og báru með sér heim nýjungar frá hinum stóra heimi, sem ég fékk líka að njóta. Þau létu mikið klæðskerasauma á sig föt og voru alltaf mjög fallega klædd bæði. Áhugi á tísku tók síðan stórt stökk á unglingsárunum,“ segir Guðrún Kjartansdóttir um tískuáhugann.

Þegar Guðrún var í menntaskóla og háskóla saumaði hún og hannaði meira og minna öll sín föt sjálf.

„Mig dreymdi um að læra hönnun svo ég sótti um í listaháskóla í Berlín eftir stúdentspróf. Það var mjög erfitt að komast inn í skólann og eftir inntökuprófin var ég því miður ekki hluti af þeim litla hópi sem komst inn. Þá var tekin u-beygja daginn fyrir síðasta innritunardag í HÍ og ég skráði mig í lyfjafræði. Þó að hönnun og lyfjafræði eigi ekki mikið sameiginlegt hef ég alltaf haft mjög gaman af faginu og ég hef líka kennt lyfjafræðigreinar í gegnum tíðina sem er mjög skemmtilegt. Ég hef líka kynnst mörgum af mínum bestu vinum í gegnum lyfjafræðina svo ég hef verið mjög lánsöm með það. Þegar ég var að læra var ennþá verið að búa til ýmis lyf í apótekum og mér fannst mjög gaman af fá að kynnast handverkinu í kringum það.“

Guðrún og kisan Sigríður en nafnið á kettinum veldur stundum …
Guðrún og kisan Sigríður en nafnið á kettinum veldur stundum ruglingi. mbl.is/Árni Sæberg

Dætur Guðrúnar eru þekktar fyrir að vera með flottan stíl rétt eins og móðir þeirra.

„Stelpurnar mínar hafa alla tíð haft mjög sterkar skoðanir á hvað þeim finnst smart og hverju þær vilja klæðast, alveg síðan þær voru litlar. Kannski hafa þær eitthvað litast af áhuga móður sinnar. Við höfum farið í margar ferðir saman til útlanda og okkur finnst öllum gaman að skoða föt, skó og fylgihluti. Við fórum allar saman á sýningu í London á hönnun Balenciaga og við höfum allar gaman af því að fara á söfn og sýningar þegar við ferðumst saman og auðvitað líka hér heima. Við höfum mjög gaman af dansi og vorum allar í JSB á okkar yngri árum, þær báðar á listdansbraut í MH og ég var sjálf í MH og æfði mikið dans, svo áhugamálin okkar hafa mikið fylgst að, í tísku, listum og dansi. Þær hafa gengið í fötum af mér, sem ég sjálf hannaði og saumaði þegar ég var ung og við höfum í gegnum tíðina oft lánað hver annarri eitthvað, bæði skó og föt. Mér finnst þær báðar hafa mjög flottan fatastíl og þær eru óhræddar við að klæða sig eins og þeim sýnist, óháð því hvað öðrum finnst.“

Ljósbláu stígvélin eru hönnuð af Dóru Júlíu dóttur Guðrúnar í …
Ljósbláu stígvélin eru hönnuð af Dóru Júlíu dóttur Guðrúnar í samstarfi við skómerkið JoDis í Danmörku. Bláa veskið fékk Guðrún frá Helgu Margréti dóttur sinni í jólagjöf. mbl.is/Árni Sæberg

„Svona er ég gerð og svona er smekkur minn“

Er lífið skemmtilegra í lit?

„Lífið er tvímælalaust skemmtilegra í lit. Hugsaðu þér hvernig náttúran væri ef hún væri öll í grátónum! Ég held að litir hafi mikil áhrif á hvernig okkur líður, ég finn það alla vega á sjálfri mér og ég reyni að klæðast litum sem mest. Ég kaupi til dæmis helst ekki svartar flíkur, nema kannski kjóla til að fara í í jarðarfarir. Svart og grátt er ekki mikið fyrir mig, en smekkur er mismunandi og mörgum finnst gott að klæðast þessum tónum en mér líður betur í lit. Mér finnast mynstraðar flíkur líka oftast mjög skemmtilegar og líflegar og þær heilla mig mjög.“

Heimilið er í sama anda og fötin. „Ég er óhrædd við að hafa heimilið litríkt. Ég er sjálf alin upp við mjög fallegt og litríkt heimili og hef líka reynt að búa börnunum mínum hlýlegt og fallegt umhverfi sem ég sé að þau hafa tekið með sér þegar þau fóru sjálf að skipuleggja sín heimili. Mér líður vel í litríku fallegu umhverfi og það nærir mig. Það er bara eins og með fötin, svona er ég gerð og svona er smekkur minn.“

Röndótti jakkinn er frá Ralph Lauren en svörtu stígvélin eru …
Röndótti jakkinn er frá Ralph Lauren en svörtu stígvélin eru keypt í Edinborg. mbl.is/Árni Sæberg

Breytist fatastíllinn eitthvað með aldrinum?

„Ég er að verða 59 ára á þessu ári og sumir myndu kannski segja að ég ætti að fara að klæða mig miðað við aldur en aldur er svo afstæður og konur eiga bara að klæða sig eins og þær vilja, sama hvað þær eru gamlar. Auðvitað hefur fatastíllinn eitthvað breyst, tískan er alltaf að breytast og fara í hringi og maður hringsnýst eitthvað með henni. Sumt breytist þó ekki, mér hefur alltaf þótt ákveðinn stíll flottur, fallegir litir og mynstur og flottir strigaskór eru klassískir.“

Guðrún í fallegum kjól úr Cos.
Guðrún í fallegum kjól úr Cos. mbl.is/Árni Sæberg

Bleiki kjóllinn frá mömmu í uppáhaldi

Hefurðu gert einhver tískumistök?

„Ég man ekki eftir því að hafa gert tískumistök. Það er samt ekki víst að allir séu sammála því. Ég held að ég hafi alltaf verið mjög ánægð með fötin mín og hef eftir því sem ég best veit bara klætt mig í það sem mér finnst flott og líður vel í. Hvert tímabil í lífinu á sinn sjarma og fötin endurspegla tímabilið. Það þykir kannski ekki smart í dag sem manni fannst flott á sínum tíma en ég myndi ekki kalla það mistök að hafa fundist það flott þá.“

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Það er kjóll sem ég hef stundum farið í við sérstök tækifæri, sem mér þykir mjög vænt um. Hann er bleikur síður hrásilkikjóll og kápa sem fylgir í sama lit. Þetta var saumað á mömmu þegar ég var lítil og þetta dress er svakalega elegant og flott og ég man eftir hvað mamma var glæsileg í þessu. Þetta hangir inni í skáp hjá mér og það er gaman stöku sinnum að fara í þetta.“

Bleiki kjóllinn er frá móður Guðrúnar.
Bleiki kjóllinn er frá móður Guðrúnar.

Hvar finnst þér skemmtilegast að versla og skoða flíkur?

„Ég kaupi svolítið af fötum á netinu, á ýmsum vefverslunum og ég er alltaf einstaklega heppin með hvað nánast allt hefur passað vel. Ég man ekki eftir að hafa endursent neitt. Mér finnst mjög gaman að fara eitthvað í búðir þegar ég er á ferðalögum, ég hef til dæmis farið tvisvar í ítölskuskóla undanfarin ár og fötin á Ítalíu eru sérstaklega falleg og freistandi. Ég kaupi stöku sinnum eitthvað notað í „second-hand“-búðum og ég hef verið svo heppin að dætur mínar hafa stundum unnið með námi í tískuverslunum hér í bæ og fundist mjög gaman að fá mömmu sína í heimsókn til að máta föt og benda mér á hvað er flott og hvað þeim finnst fara mér vel.“

Eitt af svörtu veskjunum er frá Michael Kors en börnin …
Eitt af svörtu veskjunum er frá Michael Kors en börnin hennar Guðrúnar gáfu henni það í fimmtugsafmælisgjöf. mbl.is/Árni Sæberg
Stígvélin voru keypt í London.
Stígvélin voru keypt í London. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað finnst þér setja punktinn yfir i-ið þegar þú ferð eitthvað fínt?

„Ég er mjög hrifin af fallegum yfirhöfnum og þar sem við búum nú á Íslandi og förum lítið án yfirhafna er þetta frekar nauðsynlegur búnaður fyrir mann. Ég er mjög veik fyrir fallegum jökkum, kápum eða gervipelsum og finnst sérstaklega gaman að klæðast þeim þegar maður fer eitthvað fínt. Falleg yfirhöfn getur poppað hvaða föt sem er mjög mikið upp. Ég á til dæmis rauða síða kápu sem er mjög gaman að klæðast í kringum jólin.“

Guðrún er dugleg að kaupa fallega kjóla á netinu.
Guðrún er dugleg að kaupa fallega kjóla á netinu. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað dreymir þig um að eignast?

„Það sem mig langar mest í fyrir sumarið eru mjög flottir lágir hvítir Converse-strigaskór sem heita Run Star Motion OX. Ég sá konu í svona skóm úti í Edinborg í desember og er búin að hugsa um þá síðan. Ég hef ekki séð þá hérna heima en reyni kannski að panta þá ef ég finn þá á einhverri netsíðu,“ segir Guðrún.

Útvíðu gallabuxurnar eru úr Vero Moda og jakkinn keyptur í …
Útvíðu gallabuxurnar eru úr Vero Moda og jakkinn keyptur í Kaupmannahöfn. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál