Er gamla þú komin aftur í tísku?

Það er einmitt vegna sögunnar sem fólk, sem tengir tísku …
Það er einmitt vegna sögunnar sem fólk, sem tengir tísku nútímans við Skuggabarinn, á í erfiðleikum með að fá sér glansandi plastbuxur og þröngan glitrandi topp. Nú eða bara bláan þröngan topp og bleikar bómullarbuxur. Ljósmynd/Samsett

Það er ákveðið áfall þegar þú rankar við þér og áttar þig á því að gamla þú ert komin aftur í tísku. Þú gætir uppgötvað þetta þegar þú ferð hring í helstu tískuvöruverslanir landsins og finnst öll fötin á fataslánum vera eins og óskilamunir af Skuggabarnum. Þú gætir líka áttað þig á þessu þegar þú tekur til í geymslunni og finnur sólgleraugu og djammtoppa sem þú heldur að Sunneva Eir Einarsdóttir hafi gleymt heima hjá þér. Svo rennur það upp fyrir þér að einu sinni varstu full af lífi og þrá, áttir plastföt af ýmsum gerðum, og svo óþægileg föt að lýsingarorð ná ekki utan um það. Eina sem þú manst er hvað það var gaman hjá þér. Jafnvel þótt þú hafir verið aðeins of óþekk. En hvað um það.

Það er einmitt vegna sögunnar sem fólk, sem tengir tísku nútímans við Skuggabarinn, á í erfiðleikum með að fá sér glansandi plastbuxur og þröngan glitrandi topp. Þá vakna spurningar um það hvernig hægt sé að uppfæra sig án þess að líta út fyrir að hafa sofnað í eftirpartíi og raknað úr rotinu í júní 2023.

Í ljósi sögunnar blasir ein sorgleg staðreynd við. Það er of stór hópur sem fór beint af Skuggabarnum í flíspeysumömmuna og svo beinustu leið inn í breytingaskeiðstískuna. Jafnvel þótt breytingaskeiðið hafi í rauninni ekki verið hafið. Breytingaskeiðstískan gengur út á að klæðast helst aldrei öðru en millisíðu primaloft-vesti í jarðlitum. Nema náttúrlega þegar hörfötin eru dregin fram og litríku leðursandalarnir með opnu tánni og pena hælnum sem brúkaðir eru með 40 den möttum hnésokkum. Þess á milli eru ljósar buxur úr teygjuefni með gulrótarsniði notaðar með víðri skyrtu undir millisíða primaloft-vestið. Það er auðvitað mjög skiljanlegt að fólk velji slíkan klæðaburð því þægilegri föt er ekki hægt að finna.

En ...

Breytingaskeiðið á að vera besti tíminn í lífi hverrar konu og í raun eiga konur bara alltaf að hafa það sem best sama á hvaða aldri þær eru. Breytingaskeið á ekki að vera næsta stopp við dauðann. Loksins er konan frjáls undan skyldum lífsklukkunnar og þarf ekki að skeina neinum eða smyrja kæfusamlokur. Það er akkúrat á þessum tímapunkti sem hún ætti að njóta þess að klæða sig upp á, ausa lífsgleði sinni og visku yfir heiminn og hrífa fólk með sér í einhver ævintýri.

Lífið er allt of dýrmætt til þess að sóa því í millisítt prímaloft-vesti. Þessi kona gæti hins vegar haldið áfram að vera í ljósu breytingaskeiðsbuxunum en þá þarf fara í há stígvél við og vel sniðinn jakka úr vönduðu efni. Það er að segja ef hún er enn þá með hjarta sem slær.

Í tískunni í dag er margt mjög þröngt og glansandi en á sama tíma er líka margt mjög vítt, sítt og sniðlaust eins og millisíðu primaloft-vestin. Þær sem vilja vera flottastar kaupa sér dragt með sniði. Buxurnar mega alveg vera víðar. Gott ráð er að kaupa þær í einni stærð fyrir ofan en þú notar venjulega. Þá falla þær oft betur og verða klæðilegri. Jakkinn þarf hins vegar að vera með smá sniði þótt hann sé í yfirstærð og oft passar betur að vera í jakka í venjulegri stærð og buxum sem eru einni stærð fyrir ofan. Það þarf alls ekki að kaupa jakka og buxur í sömu stærð.

Þegar þú ert búin að leggja millisíða primaloft-vestinu skaltu kaupa þér rykfrakka með belti. Ef þú óttast að þér verði kalt getur þú keypt þér næfurþunnan ullarbol og laumast til að vera í honum undir kápunni. Svo gætir þú keypt þér vel sniðna kápu úr ull og kannski sportlegan sumarjakka – bara alls ekki úr primaloft-efni. Falleg sólgleraugu setja svo alltaf punktinn yfir i-ið og ekki er verra ef þau eru með það ljósu gleri að þú getir bara gengið með þau alltaf. Þá sjást gömlu djamm-hrukkurnar minna.

Það er ágætt að hafa bak við eyrað að hrísgrjónin eru ekki fullsoðin þótt þú hafir náð þeim aldri að hafa djammað á Skuggabarnum. Það er undir þér komið hvort þú ætlir að láta umhverfið halda að þú sért hundleiðinleg og goslaus í millisíða primaloft-vestinu. Það hvarflar ekki að neinum að það sé leiðinlegt hjá Jennifer Aniston. Það er kannski vegna þess að hún myndi aldrei láta sjá sig í millisíðu primaloft-vesti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál