Tvær af einna mest áberandi táknmyndum tíunda áratugarins komu saman á dögunum í tilefni myndatöku, en stöllurnar Carmen Electra og Jenny McCarthy stilltu sér upp fyrir framan myndavélarnar klæddar nýjustu baðfatalínu SKIMS.
Á nýútgefnum myndum má sjá þær Electra og McCarthy þrífa og bóna rauðan sportbíl af mikilli natni. Vinkonurnar, sem eru báðar á 51. aldursári og öðluðust frægð á MTV–tónlistarstöðinni, sjást einnig löðrandi í sápu er þær sýna nýjustu SKIMS–baðfötin.
„Ég gæti ekki verið spenntari fyrir að fá að vera hluti af nýjustu auglýsingaherferð SKIMS, sagði McCarthy, 50 ára, í fréttatilkynningu. „Stemningin á tökustað var ótrúleg, sérstaklega að fá að gera þetta með Electra, sem lítur ótrúlega vel út! Okkur leið eins og við værum komnar aftur til tíunda áratugarins.“
SKIMS var stofnað af raunveruleikastjörnunni Kim Kardashian og var það hennar hugmynd að fá stöllurnar til þess að sitja fyrir á nýjustu auglýsingamyndum fyrirtækisins. „50 hefur aldrei litið svona vel út!“ sagði Kardashian þegar hún sá myndirnar.