Fyrrverandi eiginkonur stórleikarans Brad Pitt, leikkonurnar Jennifer Aniston og Angelina Jolie, prýða báðar forsíður tímarita um þessar mundir.
Rígur hefur ríkt á milli þeirra í mörg ár, en Pitt var kvæntur Aniston þegar hann hélt framhjá leikkonunni með Jolie eftir að hafa kynnst þeirri síðarnefndu við tökur á Mr. & Mrs. Smith.
Í nýjasta hefti CR Fashion Book er að finna stórglæsilegan myndaþátt með leikkonunni Jennifer Aniston. Myndirnar eru svarthvítar og dramatískar en leikkonan klæðist meðal annars Yves Saint Laurent dragt.
Leikkonan á langan feril að baki í Hollywood en hún sló í gegn sem Rachel Green í þáttaröðinni Friends.
Aniston giftist Brad Pitt árið 2000 en parið skildi fimm árum síðar. Leikkonan gekk í hnapphelduna í annað sinn með leikaranum Justin Theroux árið 2015 eftir fjögurra ára samband en parið skildi árið 2017.
Óskarsverðlaunaleikkonan Angelina Jolie er nýjasta forsíðufyrirsæta Vogue, en leikkonan og aðgerðarsinninn ræðir um líf sitt og móðurhlutverkið í nýjasta tölublaði Vogue.
Jolie er elegant á forsíðu tímaritsins í Atelier-kjól, en ljósmyndarinn Annie Leibowitz á heiðurinn af myndunum.
Jolie og Pitt voru eitt umtalaðasta parið í Hollywood fyrir nokkrum árum, en þau giftu sig árið 2014 eftir tæplega tíu ára samband. Hjónabandið entist aðeins í tvö ár en Jolie sótti um skilnað frá leikaranum árið 2016.
Fyrrverandi stjörnuhjónin eiga sex börn en flest kjósa þau að eyða tíma sínum með Jolie.