„Alltaf veður fyrir leður“

Elín Ósk mætir alltaf með góða skapið.
Elín Ósk mætir alltaf með góða skapið. Samsett mynd

Elín Ósk Ólafsdóttir er með rokkaðan en í senn mjög elegant fatastíl sem er lýsandi fyrir karakterinn sem hún hefur að geyma. Hún er mikil stemningskona, uppfull af orku, eldmóð og rafmagnaðri útgeislun. 

Elín Ósk starfar sem árangursstjóri upplifunar viðskiptavina hjá Sýn og nýtir hvert tækifæri til að þess að rúnta um götur borgarinnar á rauða mótorhjólinu sínu íklædd leðurjakka í sama lit. 

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ég myndi segja að fatastíllinn minn einkennist af töffaraskap með gellulegu ívafi. Ég klæði mig eftir eigin höfði og klæðist öllum litum regnbogans. Það blundar í mér sterkur kúreki og því er támjótt, útvítt og hattur algjör negla. Lífið er of stutt fyrir eitthvað annað. 

Mamma er tískugúrúinn minn og hefur haft mikil áhrif á það hvernig stíllinn minn hefur þróast í gegnum tíðina. Hún vann lengi í fatabúð og hafa því föt og tíska verið partur af tilveru minni allt mitt líf. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að klæða mig upp og verið með sterkar skoðanir þegar kemur að fatavali. Ég byrjaði snemma að klæða mig öðruvísi en jafnaldrar mínir.“

Elín Ósk elskar að blanda saman litum.
Elín Ósk elskar að blanda saman litum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Þægindi í bland við gellustæla virkar alltaf, mjög góð blanda. Ég er algjör „sökker“ fyrir samfestingum og elska að henda mér í slíkan þegar ég nenni ekki að hafa fyrir því að velja mér dress dagsins. Það er svo auðvelt að klæða þá upp og niður.“

En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Ég á mjög erfitt með að ákveða fyrir fram í hverju ég ætla að vera þegar ég er á leið í brúðkaup, á árshátíð eða út að borða. Hjá mér kemur þetta heim og saman í flæðinu þegar ég byrja að hafa mig til hverju sinni. Ég reyni að skilja strigaskóna eftir heima en annars er alltaf veður fyrir leður og mikið af pallíettum. Góð gæra er líka eitthvað sem er alltaf hægt að vinna með.“

Skvísulæti.
Skvísulæti. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir hverju fellur þú oftast?

„Ég elska flotta samfestinga. Notagildið er mikið og það er svo gaman að dressa þá upp. En nýju áhugamáli fylgja að sjálfsögðu ný trend og er mér mikið í mun að finna mótorhjólafatnað sem „lúkkar“ vel og veitir öryggi í leiðinni, það hefur reynst mjög erfitt. Ég hef oft pælt í því að byrja að hanna mínar eigin leður- og mótorhjólabuxur. Fylgist með!“

Elín Ósk veit fátt betra en góðan samfesting.
Elín Ósk veit fátt betra en góðan samfesting. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Ég reyni eins og ég get að velja réttu flíkurnar og það heppnast sem betur fer oftast. Það tók mig nokkur ár að meðtaka það sem mamma sagði alltaf við mig: „Aldrei henda flíkunum þínum, þetta kemur alltaf aftur“ sem er alveg hárrétt. Nokkrar af uppáhaldsflíkunum mínum eru einmitt þær sem ég hef átt einna lengst og aldrei tímt að láta frá mér.

Gömlu jakkarnir hennar mömmu standa alltaf upp úr en uppáhaldsflíkurnar mínar í dag eru sennilega grænu samfestingarnir mínir og leðurjakkarnir. Annar samfestingurinn er algjör partígalli og fullkominn í gott sumarpartí eða sumarbrúðkaup. Hinn er hermannagrænn frá AndreA sem góð vinkona gaf mér. Hann er í miklu uppáhaldi enda ekkert eðlilega klæðilegur og gellulegur. Ég má einnig til með að minnast á smekkbuxur úr Monki sem ég elska. Þær eru grænar, víðar og geggjaðar en gera ekkert mikið fyrir mig. Sonur minn orðar það eflaust best: „Jæja, þá er hún komin í bóndagallann.“

Ein af uppáhaldsflíkum Elínar Óskar.
Ein af uppáhaldsflíkum Elínar Óskar. Ljósmynd/Aðsend
Bóndagallinn!
Bóndagallinn! Ljósmynd/Aðsend

Uppáhalds fylgihlutur?

„Uppáhalds fylgihluturinn og sá nýjasti er klárlega Harley Davidson mótorhjólið mitt. Ég ákvað að fá mér mótorhjólapróf fyrir tæplega tveimur árum og keypti mér hjólið í framhaldinu. Ég elska að klæða mig í liti og kom því ekkert annað til greina en að kaupa rautt hjól. Að því sögðu er uppáhalds fylgihluturinn fyrir þennan tiltekna fylgihlut rauði leðurjakkinn minn sem tónar fáránlega vel við hjólið.

Svo tileinka ég mér að ganga með dýrmætan fylgihlut sem varir að eilífu og gefur meira en okkur grunar, brosið.“

Mótorhjólið, leðurjakkinn og brosið.
Mótorhjólið, leðurjakkinn og brosið. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsmerki eða verslanir?

„Nýja uppáhaldsmerkið mitt er auðvitað Harley Davidson...djók!

Ég á mér ekkert uppáhaldsmerki enda alls ekki dugleg að kaupa mér merkjaflíkur, maðurinn minn sér um það fyrir okkur bæði. En ég held mikið upp á flíkur frá Levi's og Tommy Hilfiger enda alltaf klassískar, Andrea er einnig í uppáhaldi og svo er Ganni að koma sterkt inn þessa stundina.“

Áttu þér uppáhaldslit? 

„Ég á mér engan uppáhaldslit en ef ég þyrfti að velja einn þá væri það Þórdísar-grænn. Þórdís er vinkona mín og mikil smekkkona sem elskar grænan. Flestir þekkja hana úr útvarpinu, Bylgju-Tóta í Reykjavík síðdegis.

Það er svo gaman að lífga upp á hversdagsleikann með því að klæðast litríkum fötum og geisla í sjálfinu í leiðinni. Það er hending að ég klæðist svörtu, það er þá bara fyrir gauraganginn og töffaraskapinn sem fylgir því að vera á mótorhjóli.“

Elín Ósk og Þórdís á góðri stundu.
Elín Ósk og Þórdís á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er á óskalistanum þínum?

„Stefnan er sett alla leið í Reykjavíkurmaraþonið, heilt maraþon, þannig að nýir hlaupaskór eru efstir á listanum í dag. Þar á eftir eru það Ganni-stuttermabolur og Levi's gallabuxur. Svo er ég alltaf að leita að hinu fullkomna bikiníi en það virðist ófáanlegt.“

Hvaðan sækir þú innblástur þegar þú setur saman dress?

„Ég held að innblásturinn komi einna helst frá vinkonum og vinum, nýju áhugamáli, gaurunum í mótorhjólaklúbbnum og samstarfsfólki mínu hjá Sýn. Það er svo gaman að vera í kringum alls konar týpur af fólki sem klæðir sig allavega.“

Elín Ósk er á fullu að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið.
Elín Ósk er á fullu að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Ljósmynd/Aðsend

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?

„Ég ætla að svara þessari spurningu með sannri línu sem ég heyrði um daginn og hollt er að minna sig á reglulega: „Fegurðina er ekki að finna í skrautinu, heldur í kjarna lífsins.“

Hver finnst þér vera best klæddi einstaklingurinn í heiminum í dag?

„Þessi er mjög stór og margir sem koma til greina! Mér finnst Rihanna og Beyoncé algjörir töffarar í lífinu. Fegurðin er líka að fylgja sínu og vera óhrædd að fara sínar eigin leiðir í fatavali, sama hver það er.“

Elín Ósk kann að setja saman skemmtilegar en ólíkar flíkur.
Elín Ósk kann að setja saman skemmtilegar en ólíkar flíkur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál