Það var hátíðleg stemning í Hallgrímskirkju í gær þegar frú Agnes M. Sigurðardóttir vígði sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur sem biskup Íslands. Guðrún var í sínu fínasta pússi við athöfnina og til þess að vera óaðfinnanleg á allan hátt fór hún í förðun til Elínar Reynisdóttur förðunarfræðings.
Elín er ein af þeim allra færustu í faginu og segja sumar drottningar að hún sé þeim hæfileikum gædd að geta breytt vatni í vín. Með færni á förðunarsviðinu nær Elín að draga fram það besta í andlitum fólks. Hún farðar augnsvæðið þannig að það stækkar og opnast meira. Augun virðast stærri og meira heillandi. Það fara yfirleitt ótalmargir litir á augnlokið þótt förðunin virki alls ekki þannig þegar listaverkið er tilbúið.
Það eru þó ekki bara augun sem opnast og stækka við förðunartilþrif Elínar. Hún skyggir andlitið á listilegan hátt og það fer varla nein manneskja úr förðunarstólnum frá Elínu nema vera með nokkur álímd augnhár. Það gerir hún til þess að augnsvipurinn verði ennþá þokkafyllri.
Kúnnahópur Elínar er fjölbreyttur en hún farðaði til dæmis Höllu Tómasdóttur forseta Íslands bæði í kosningabaráttunni en einnig fyrir forsíðuna á bók hennar Hugrekki sem kom út í fyrra. Lilja Alfreðsdóttir menningar-og viðskiptaráðherra kemur reglulega í förðun til Elínar og líka Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra, Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Sigríður Beinteinsdóttir söngkona og Hera Björk Þórhallsdóttir svo einhverjar séu nefndar.
Það er því ekkert skringilegt að nýkrýndur biskup hafi leitað á náðir Elínar til þess að láta hana draga fram það besta fyrir stóra daginn.