Halla Tómasdóttir nýkjörinn forseti Íslands mætti á sína fyrstu þingsetningarathöfn í dag þegar Alþingi kom saman á ný eftir sumarfrí. Hefð er fyrir því að þingheimurinn sé í sínu fínastra pússi á þessum degi og svo var einnig í dag.
Halla T. var trú sínum stíl í dag þegar hún klæddist beige-lituðum jakka með gulltölum. Jakkinn er aðsniðinn, einhnepptur með fjórum vösum að framan. Hann er með kraga sem er hnepptur upp í háls. Jakkinn er úr White Label-línu Rofa sem selt er í versluninni Hjá Hrafnhildi. Jakkinn kostar 39.980 kr. og er úr 53% ull, 34% pólýester, 12% pólýamíð og 1% teygju. Þessi blanda gerir það að verkum að það er gott að vera í jakkanum. Hann er bæði hlýr og svo gefur hann örlítið eftir því teygjan gerir gagn.
Það varð alger bylting í tískuheiminum þegar vefnaðarvöruverksmiðjur fóru að framleiða ullarblöndur með örlítilli teygju. Það gerði það að verkum að hægt var að hafa fatnað örlítið þrengri í sniðinu án þess að hann væri hamlandi í daglegum athöfnum. Þótt 1% teygja sé kannski ekki ígildi íþróttagalla þá er hægt að sníða föt með öðrum hætti ef teygjan er til staðar. Þá þarf ekki að gera ráð fyrir ríflegri hreyfivídd sem getur gert það að verkum að snið geta verið kauðsleg.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Halla T. klæðist fatnaði frá Rofa sem fæst hjá Hjá Hrafnhildi því bleiki forsetajakkinn, sem vakti lötustu frumur landsmanna úr dvala, er frá sama merki. Eftir að fréttin um Höllu T. og bleika jakkann birtist fór ólíklegasta fólk að hafa skoðun á því hvort þessi bleiki jakki væri flottur eða ljótur. Sjálfsskipuðum tískusérfræðingum fjölgaði um 76% þegar verst lét og var þessi hópur óvenju hávær miðað við aldur og fyrri störf. Það má því segja að jakki dagsins sé systurjakki þess bleika þar sem hann er frá sama merki og úr sömu verslun. Bara úr aðeins öðru efni og með kraga enda styttist í fyrsta vetrardag.
Halla T. klæddist beige-lituðum buxum við jakkann og svo var klúturinn á sínum stað! Hárið var vel blásið eins og venjulega og förðun fáguð.