Sigga Soffía hönnuður Bleiku slaufunnar í ár

Sigríður Soffía Níelsdóttir hannar Bleiku slaufuna í ár.
Sigríður Soffía Níelsdóttir hannar Bleiku slaufuna í ár.

Bleikur október er handan við hornið og það þýðir bara eitt. Það kemur ný Bleik slaufa sem er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. 

Hönnuður Bleiku slaufunnar í ár er Sigga Soffía

Sigríður Soffía Níelsdóttir, eða Sigga Soffía eins og hún er kölluð, hannaði Bleiku slaufuna í ár. Hún er danshöfundur og hönnuður sem hannar undir nafninu Eldblóm. Sem listamaður teygir hún hönnun sína frá dansi yfir í vöruhönnun með anga yfir í mat, flugeldasýningar, ljóðlist og nú skartgripi.

Bleika slaufan í ár eru þrjú eldblóm sem mynda skínandi blómakrans sem lítur út fyrir að hafa verið dýpt ofan í fljótandi málm.

„Allt tekur enda - ekkert er varanlegt. Augnablikið þegar blómin springa út er ákveðinn hápunktur en mörgu þarf að huga að til að plantan blómstri. Að jafna sig eftir veikindi er svipað - og því meira sem við hlúum að fólkinu okkar eftir meðferð - því líklegra er að það blómstri aftur. Aðstandendur, ókunnugir sem bjóða góðan daginn, þeir sem að styðja við, peppa og segja þér að gefast ekki upp og trúa á þig hafa meiri áhrif en margan grunar,“ segir Sigga Soffía sem þekkir það af eigin raun að fá krabbamein. 

„Þegar mér bauðst að hanna Bleiku slaufuna var það ótrúlega skemmtilegt framhald af samstarfinu við Krabbameinsfélagið. Það er líka alltaf gaman að fá áskorun um að gera eitthvað sem maður hefur ekki gert áður. Ég fékk strax fullt af hugmyndum bæði tengt texta og einhverju svona sjónrænu til að sameina flugelda og blóm og reyna þannig að ná kjarnanum úr Eldblómi inn í þetta verkefni. Verkefnið snertir mig auðvitað persónulega, ég greindist með brjóstakrabbamein árið 2020 og þurfti að fara í lyfja- og geislameðferð og aðgerð. Hef því sjálf miklar og sterkar tilfinningar tengdar þessu verkefni,“ segir Sigga Soffía og bætir við:

„Ég þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa baklandið og félag eins og Krabbameinsfélagið til styðja við mann í ferlinu öllu og ekki síður eftir að meðferð lýkur. Félagið gaf mér leiðarvísi í þeim nýja veruleika sem ég þurfti að fást við,“ segir hún. 

Sparislaufan í ár er gullhúðað, rósagyllt koparhálsmen í samlitri keðju. …
Sparislaufan í ár er gullhúðað, rósagyllt koparhálsmen í samlitri keðju. Hálsmenið er einstaklega glæsilegur gripur, stílhreinn en um leið djarfur. Hálsmenið kemur í afar fallegum gjafaumbúðum og er framleitt í takmörkuðu magni. Sparislaufan hefur oft selst upp á fyrstu dögum átaksins og því er gott að tryggja sér eintak í tíma.

Fegurðin í hversdagsleikanum

„Fáir vita að flugeldar voru upphaflega hannaðir eftir blómum. Þessi blóm sem prýða slaufuna eru Eldblóm sem hægt er að sjá töfra í í hversdagsleikanum og í hægfara flugeldasýningum í blómabeðunum. Metaláferðin minnir á flugeldana en blómin skjótast upp og springa út: flugeldar springa út á himnum á 4 sek. en blómið við jörðina á 4 mánuðum,“ segir hún og bætir við: 

„Fyrir mér er slaufan næla sem er hönnuð eins og flugeldasýning þar sem flugeldar eru sprengdir upp í ákveðinni röð til að mynda ákveðna mynd eða blóm sem springa út, í slaufunni frystum við augnablikið, líkt og flugeldasýningu í hápunkti.“

Undanfarin ár hafa verið framleiddar tvær útgáfur af Bleiku slaufunni, almenna slaufan sem í ár er næla og Sparislaufan sem er hálsmen. Sparislaufan er framleidd í takmörkuðu upplagi og er hálsmen úr 100% kopar sem er gullhúðað og kemur í afar fallegum gjafaumbúðum. Sparislaufan fæst í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins og í Mebu skartgripaverslun í Kringlunni og Smáralind og fer í sölu 1. október.

Sigga Soffía hannaði Bleiku slaufuna í ár.
Sigga Soffía hannaði Bleiku slaufuna í ár.

Sigga Soffía x Bleika slaufan

Sigga Soffía hefur áður verið í samstarfi við Krabbameinsfélagið í Bleiku slaufunni. Sýningin hennar „Til hamingju með að vera mannleg” var hluti af opnunarhátíð Bleiku slaufunnar 2023 og hefur hún áður framleitt Bleika blómakassa til styrktar Krabbameinsfélaginu í Bleiku slaufunni og við stórfenglegt blómabeð hennar í Hallargarðinum í Reykjavík hvatti hún fólk til að styrkja félagið.

„Mér fannst mér bera skylda til að bera þennan boðskap áfram og þakka fyrir þann mikilvæga stuðning sem ég hef fengið. Ég er svo þakklát fyrir að mér hafi verið bent á að leita til Krabbameinsfélagsins því ég hélt að ég væri hreinlega eina unga konan að greinast með krabbamein en það er alls ekki þannig – það er svo gott að geta fengið strax einhvern leiðarvísi,“ segir hún. 

Allur ágóði af sölu Bleiku slaufunnar rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Bleika slaufan er ein af lykilstoðunum í starfsemi félagsins.

Að meðaltali greinist nú 971 kona með krabbamein á ári. Framfarir eru stöðugar og í árslok 2023 voru á lífi 10.070 konur sem höfðu fengið krabbamein.

Bleika slaufan kemur í fallegri öskju.
Bleika slaufan kemur í fallegri öskju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda