„Þessi heimur er ekki til hérna heima“

Tinna var með á heilanum að komast inn í góðan …
Tinna var með á heilanum að komast inn í góðan listaháskóla og komst loks inn í De Montfort University í Englandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var týpa þegar ég var lítil, átti saumavél og var alltaf að breyta fötum því ég vildi ekki vera klædd eins og aðrir,“ segir Tinna Bergmann Jónsdóttir fatahönnuður sem á sér langan feril í tískuheiminum. Eftir nám í Bretlandi stofnaði hún sitt eigið fatamerki og starfaði sem stílisti fyrir þekktustu tískuhús heims í London. Ástin dró hana heim til Íslands og telur hún framtíðina í hátísku vera í lítilli verslun sem hún opnaði nýverið í miðbæ Reykjavíkur.

Á unglingsaldri skráði hún sig í fatahönnunarnám í Fjölbrautarskólann í Garðabæ en fann sig illa í náminu. Í kjölfarið kláraði hún hárgreiðslunám hér á landi en hélt svo út til Englands. Eftir tvö ár í starfinu var hún stödd á tískusýningu og heillaðist alveg. „Þá hugsaði ég, vá þetta er það sem ég vil. Þetta voru listaverk úr öðrum heimi.“

Tinna velti fyrir sér hver næstu skref hennar gætu orðið þar sem hana vantaði grunn í fatahönnun.

„Það er erfitt að komast í þessa góðu skóla úti, þeir eru auðvitað bara nokkrir sem eru virtastir og ég var ekki með rétta grunninn. Svo ég byrjaði á að sækja um í grunnnám, svokallað Art Foundation, sem áttu að vera þrjú ár á menntaskólastigi. Ég byrja í því námi og er að klippa til hliðar,“ útskýrir Tinna. Hún endaði þó aðeins á að vera eitt ár í náminu og var útskrifuð fyrr en aðrir.

„Ég var algjörlega með á heilanum að komast einhvers staðar inn í góðan skóla. Ég sótti því um í De Montfort University. Á þeim tíma bjóst ég ekki við því að komast inn því ég hafði heyrt hvað það væri mikil samkeppni. Það eru yfir þúsund manns sem sækja um og 75 sem enda á því að komast inn. En ég ákvað að gefa þessu séns og gerði mitt allra besta. Ég undirbjó mig ótrúlega vel fyrir viðtalið en var alltaf með varaplan í höfðinu því ég vissi að margir væru með mun sterkari grunn. En ég var sjúklega heppin að komast inn.“

Mæðgurnar Tinna og Guðrún standa vaktina saman í Buymychic.
Mæðgurnar Tinna og Guðrún standa vaktina saman í Buymychic. mbl.is/Árni Sæberg

„Það erfiðasta sem ég hef gert“

Tinna myndi hugsa sig tvisvar um með að fara aftur í listnám í Englandi.

„Ég myndi aldrei gera þetta aftur, guð minn góður,“ segir hún hlæjandi. „Ef ég hefði vitað að þetta væri svona. Maður hefur þessa ímynd um að þetta sé svo skemmtilegt og listrænt en svo er þetta það erfiðasta sem ég hef gert.“

En myndirðu segja að þú værir með harðari skel í dag fyrir vikið?

„Já, algjörlega. Það er svo mikið um niðurrif. Það er verið að reyna að halda þér niðri svo þau geti byggt þig aftur upp. Við vorum 75 sem byrjuðum í náminu en aðeins 20 sem útskrifuðumst. Fólk fór grátandi heim á hverjum degi og maður svaf ekki í þrjú ár. Gleymdu jólafríinu því það voru alltaf stór skil eftir jólin,“ rifjar hún upp.

„Svo þetta var rosalegt,“ segir hún og hlær.

„En í dag þegar ég er gagnrýnd þá bítur ekkert á mig. Það er bara annarra manna skoðun og hefur engin áhrif á mig. Það var nú oft hlegið af mér í náminu því ég svaraði oft kennurum mínum sem enginn annar þorði að gera. Það er kannski Íslendingurinn í manni. Auðvitað var þetta erfitt en maður verður sterkari. Ef þú þolir þetta, lætur þig hafa þetta þá kemurðu út úr náminu mun betri hönnuður.“

Ástríðan verði að vera til staðar annars klári fólk ekki námið. „Þeir sem héldu að þetta væri bara skemmtun, töff og vildu bara djamma. Þeir auðvitað hættu á fyrsta ári.“

Hún segist hafa komið hógværari úr náminu. „Maður sér svo mikið af hæfileikaríku fólki. Fólkið sem eru með manni í náminu, það eru allir góðir.“

Draumur Tinnu um að opna hringrásarverslun með hátískuvörum hér á …
Draumur Tinnu um að opna hringrásarverslun með hátískuvörum hér á landi hefur ræst. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég get ekki verið skuldug“

Eftir námið hélt Tinna aftur til London og stofnaði fljótt sitt eigið fatamerki. „Ég fór beint í það. Mig langaði að prófa. Ég vann til hliðar í útstillingum, byrjaði hjá COS og var með fatamerkið mitt til hliðar.“

Hún segir þetta hafa verið bilaða og kostnaðarsama vinnu. Þar hafi að auki verið erfitt að koma sér á framfæri í einni af stærstu tískuborgum heimsins.

„Ef þú þekkir engan þá er svakaleg vinna að komast inn á réttu sýningarstaðina og búa til sterk tengsl við þá sem kaupa inn. Það var skemmtileg reynsla því það sýndi mér aðra hlið á þessum heimi.“

„En þetta var þannig að ég var alltaf að vinna líka til að halda mér uppi,“ segir Tinna. Eftir nokkurn tíma fór boltinn að rúlla. Virtar tískuverslanir eins og Selfridges og Neiman Marcus fóru að sýna merki Tinnu áhuga.

„Svo þetta fór í góða og rétta átt en maður varð fljótur að átta sig á hlutunum. Neiman Marcus gerðu svokallaða tilraunapöntun. Fyrir þeim eru þetta 300 stykki af hverri flík en eftir að þetta kemur til þeirra þá hafa þeir þrjár vikur til að hætta við, það var inn í þeirra skilmálum. Ég man eftir að hafa setið með pabba mínum og farið yfir þetta. Þá var annað hvort að fá fjárfesti og eiga þá lítið í mínu eigin fatamerki eða mögulega stofna mér í mikla skuld. Hingað til hafði ég náð að gera þetta skuldlaust. Það var erfið ákvörðun að ákveða að taka pásu. Þetta var ekki rétti tíminn fyrir merkið, ég hafði ekki efni á þessu. Ég get ekki verið skuldug og skil þá ekki sem geta það, ég fengi bara kvíðakast,“ segir Tinna.

„Ég trúi því að ég hafi verið með mjög góða vöru. Þetta var vel úthugsað og gæðin voru góð. Öll efnin voru ofin í Bretlandi og þetta var eins vistvænt og ég gat. Ég saumaði allt sjálf til að byrja með og endaði svo í flottri verksmiðju. Þar kynntist ég meira að segja þeim sem sneið klassíska Burberry-rykfrakkann og fékk að sníða með honum kápu.

Ég var fljót að fatta að þú getur verið með bestu vöru í heimi, en þú selur hana ekki því það vantar upp á viðskipta- og markaðshliðina. Svo ég ákvað að geyma þetta aðeins og styrkja hitt hjá mér. Ég hugsaði, kannski leyfi ég mér að hanna aftur þegar ég er komin með meiri reynslu.“

Stílisti fyrir stærstu tískuhús heims

Eftir þessa stóru ákvörðun fór Tinna á fullt í hátískuheiminn. Hún hóf störf hjá franska fatahönnuðinum Isabel Marant, var yfirmaður í versluninni í London og starfaði sem stílisti til hliðar.

„Ég var mikið að vinna sem persónulegur stílisti fyrir flottar konur sem þurftu smá hjálp. Þar myndaði ég frábærar tengingar. Ég var á samningi hjá Stellu McCartney, MaxMara, Fendi og Victoriu Beckham. Þar kynntist ég allt annarri hlið aftur. Þar var ég farin að þekkja önnur og fleiri merki vel og vinna rosalega náið með kúnnanum. Það var svo spennandi að átta sig á sem hönnuður hvað konur eru að kaupa, vera í og nota því ég vann fyrir svo margar mismunandi konur.“

Það er eitt situr eftir sem henni finnst eiga við flestar konur. „Það er magnað hvað við erum allar með okkar óöryggi. Ég var stundum að vinna fyrir súperstjörnur, fólk sem maður horfir á og það er eins og það sé photoshoppað en það er sama hvernig fólk lítur út, það er alltaf eitthvað. Mér finnst við konur ekki vera nógu góðar við okkur. Þær voru margar með þann misskilning til dæmis að ef þær eru lágvaxnar þá geta þær ekki klæðst hinu og þessu. Það er mýta því það snýst ekki um það, þetta snýst um hlutföll en ekki hæð. Svo þetta var allt annar skóli.

Í þessu starfi fór ég á tískusýningarnar með merkjunum og var þá baksviðs að máta fötin til að reyna að átta okkur á því hverju þyrfti mögulega að breyta til að fötin gengu upp. Ég var til dæmis á síðustu sýningu Karl Lagerfeld fyrir Fendi. Það stendur sérstaklega upp úr.“

Kom heim með brotið hjarta og kynntist kærastanum

Svo kom að því að þú fluttir aftur heim til Íslands, hvað varð til þess?

„Það var alveg ógeðslega, hallærislega fyndið. Ég kom heim með brotið hjarta eftir einn Breta. Kom heim í þrjá daga yfir jól aðeins með náttföt í tösku. Á þessum þremur dögum hitti ég Guðbrand, kærasta minn. Það var eiginlega bara þannig,“ segir Tinna.

Hún flutti þó ekki strax heim, var með annan fótinn hér á landi en hinn úti í London og starfaði sem stílisti. Parið vildi vera saman og segir Tinna að hún hafi fljótt áttað sig á því að hún yrði að flytja heim.

„Hann er hæstarréttarlögmaður og erfiðara fyrir hann að flytja. En ég var með kvíðakast. Þessi heimur er ekki til hérna heima. Svo það var erfitt að flytja heim en ég gerði það hægt,“ segir Tinna.

„Ég fór út að vinna í útstillingum en ég tók nokkra daga í mánuði. Ég starfaði í útstillingum hjá Harvey Nichols, Liberty’s, Harrods og Selfridges. Svo ég hélt alltaf litlu tánni í London.“

Hún fann fljótt að hún var fljót að missa puttann af púlsinum. „Þetta er hraður heimur og allt í einu leið mér ekki nógu vel. Ég var að stílisera og ég fann að ég var ekki með allt á hreinu og vissi ekki hvað væri til og svona. Svo var ég orðin smá þreytt á þessu og ákvað að sækja um vinnu hér heima. Og flutti bara.“

Eftir þrettán ár í tískuheiminum í London voru flutningar heim til Íslands mikil viðbrigði. Tinna sagði þó ekki skilið við tískuna heldur hóf störf hjá NTC ehf. og opnaði GK Reykjavík.

„Mér fannst ekki vera pláss fyrir mig neins staðar, ég get ekki lýst því betur. Mér fannst ég þurfa læra allt upp á nýtt eins og með innkaupin og svona. Þegar ég var að kaupa inn fyrir Isabel Marant þá voru vinsælustu stærðirnar 34 og 36, það er ekki þannig hér. Stuttbuxur eru bestseller í París, seljast ekkert í London og lítið hér. Pils seljast mjög hratt í London en varla hér. Maður verður að vera algjör svampur en samt vill maður nýta reynsluna og reyna að setja smá krydd. Þetta var áhugaverð reynsla.“

„Þetta er gæðavara sem leitar eftir nýjum eiganda. Allt inn …
„Þetta er gæðavara sem leitar eftir nýjum eiganda. Allt inn í búðinni finnst mér flott og það er allt handvalið af mér. Fyrir mér er þetta kremið af hringrásinni. Ég er með reynslu úr hátískuheiminum og vildi koma hringrásarhreyfingu á þennan markað því hann er ekki til.“ mbl.is/Árni Sæberg

Öryggi barnanna skiptir öllu

Það leið ekki á löngu þar til Tinna og Guðbrandur ákváðu að stofna saman fjölskyldu og fæddi Tinna tvö börn á undir tveimur árum. „Þegar ég eignaðist börnin þá fannst mér ég lenda. Þá var ég ótrúlega ánægð með að vera hér. Mér fannst London einblína annað hvort á fjölskylduna eða ferilinn. Það sem skipti mig mestu máli er öryggi barnanna minna og hér er öryggið mikið. Fjölskyldan kom mér niður á jörðina.“

Hún viðurkennir þó að hún eigi það til að hugsa til Bretlands með trega. „Þetta á að einfalda hlutina en flækir þá í rauninni. Ég get átt erfitt með að horfa á breska þætti. Svo verður maður lélegri á báðum tungumálum,“ hlær Tinna.

Í fæðingarorlofinu opnaði Tinna litla verslun í kjallaraherbergi heima hjá sér, hringrásarverslunina Buymychic. Þar finnurðu vel valda notaða merkjavöru og allt handvalið af Tinnu. Móðir hennar, Guðrún Bergmann, aðstoðaði hana og fann sig vel í þessu með dóttur sinni. Mæðgurnar eru enn saman að þessu í dag og segir Tinna það ómetanlegt að geta starfað með móður sinni í dag eftir allan þennan tíma sem hún varði erlendis.

„Þetta er gæðavara sem leitar eftir nýjum eiganda. Allt inn í búðinni finnst mér flott og það er allt handvalið af mér. Fyrir mér er þetta kremið af hringrásinni. Ég er með reynslu úr hátískuheiminum og vildi koma hringrásarhreyfingu á þennan markað því hann er ekki til,“ útskýrir Tinna.

Varstu búin að vera með hugmyndina lengi í maganum?

„Ógeðslega lengi. Árið 2017 kaupi ég lénið og þá er ég ennþá búsett í London. Það var þegar ég var á fullu að vinna sem stílisti með alla kúnnanna. Ég var fljót að sjá sem stílisti, þar sem peningurinn er mikill og þar sem verið er að kaupa alveg svakalega mikið af fötum þá er aðeins brotabrot af þessu notað. Það er alveg sama hvað þú gerir og hver þú ert, við erum flestar svona. Ég hef unnið með það mörgum konum að ég veit að við notum ekki meira en svona tuttugu prósent af fataskápnum okkar. Mér finnst það svo magnað,“ segir Tinna.

„Fólk elskar hugmyndina að einhverri flík en líður kannski ekki vel í henni. Það er svo týpískt. Mér finnst líka oft verið að selja konum of litlar stærðir. Það er ekki verið að horfa á sniðið endilega.“

Upphaflega sá hún fyrir sér að opna Buymychic í London og var hún byrjuð að selja flíkur á milli kúnnanna sinna. Þannig hófst ævintýrið. „Mörgum kúnnum fannst meira spennandi að vita hvað ég ætti hjá mér þegar ég væri að klæða þær fyrir gala eða amFAR-gala til dæmis. Þær vildu síður það sem var til í búðum svo þaðan kom hugmyndin.“

Tinna þurfti þó aðeins að endurhugsa hlutina þegar hún var flutt heim til Íslands. „Ég var aðeins óörugg. Ég eyddi miklum tíma í að gera vefverslunina allt fæðingarorlofið og var með þetta heima. Ég var ekki viss hvort íslenskar konur væru tilbúnar í þetta.“

Tinna segir mikla vitundarvakningu í kringum hringrásarverslanir.
Tinna segir mikla vitundarvakningu í kringum hringrásarverslanir. mbl.is/Árni Sæberg

Framtíðin í hátísku í miðbæ Reykjavíkur

Nú hefur Tinna opnað verslun Buymychic á Óðinsgötu 8b í miðbæ Reykjavíkur. Mæðgurnar standa vaktina saman.

„Mig hefur dreymt um svona hringrásarverslun þar sem upplifunin er eins og að labba inn í nýja verslun og fólk fái þjónustu eins og hjá Stellu McCartney og Isabel Marant til dæmis. Þannig á þetta að vera. Ég er með fullt af merkjum og flest fötin eru bara algjör klassík. Hátískan fer í hringi en vörumerki eins og Max Mara og Isabel Marant eru alltaf með grunnlínur. Isabel Marant með sebra- og hlébarðamynstrið sem er alltaf töff og Max Mara er alltaf klassískt,“ segir Tinna.

„Það styrkti mig líka aðeins að eignast börnin því hvernig heim viljum við skilja eftir? Í þessum tískubransa er offramboð af öllu. Það er heldur betur ódýrara að kaupa gæðavöru því hún endist lengur. Það er ekki spurning að þetta er framtíðin í hátísku.“

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Ég hef verið í skýjunum með móttökurnar frá því ég opnaði. Þetta er draumur að rætast,“ svarar Tinna.

Hún segir fagnaðarefni hve vel hefur verið tekið í verslunina og hún sé farin að fá konur til sín sem hún bjóst endilega ekki við. „Þetta eru konur sem eru vanar að kaupa merkjavöru og vita hvað þær vilja. Þær þekkja merkin, vita hvað þetta kostar nýtt og hvaða vöru þær eru að kaupa,“ segir Tinna.

„Ég þekki þennan hátískubransa vel en það sem mér finnst geggjað er að þær sem hafa ástríðu fyrir fötum og kaupa mikið af merkjavöru, eru auðvitað enn að því, en eru líka að kaup af hringrásinni. Ég hélt það myndi aldrei gerast. Svo það er klárlega vitundarvakning, þetta er klárlega að breytast og það gerir það með betra framboði.“

Mikið af eftirlíkingum í umferð

Er mikið til af merkjavöru hér á landi?

„Já, það eru auðvitað alltaf þessi vinsælu merki. En fjölbreytileikinn kom mér á óvart en það eru líka þær sem eru að koma í verslunina sem ég tengi við. Þær sækja í conceptið og eru með flottan stíl. Það hefur þó líka komið mér virkilega á óvart hvað það er mikið af feik vörum í umferðinni líka.“

Hún segir vörumerki eins og Max Mara, Zadig & Voltaire, Anine Bing, Kristensen Du Nord, Gucci, Ganni, Spakmannsspjarir, Steinunn, Alexander Wang, Prada og Filippa K séu einna vinsælust og það sé gaman að bjóða upp á einstakar vörur. „Ég hef verið með Dolce & Gabbana flíkur sem keyptar voru í Los Angeles á síðustu tíu árum, algjör fjársjóður. Það er svo gaman að finna eina flík sem passar á þig og þú fýlar. Það eru líka mikið af ungum skvísum að koma núna því ungt fólk vill föt sem enginn annar á. Svo það eru klárlega komnir svona slowfashion-mógúlar hingað. Næsta skref hjá mér er að gera eitthvað svona fyrir herra líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál