Rapparinn Kendrick Lamar steig á svið í hálfleik Ofurskálarinnar á sunnudaginn var. Hátíðin var haldin Caesars Superdome í New Orleans og vakti klæðaburður hans á sviðinu athygli. Hann var í svörtum og bláum háskólajakka úr leðri, útvíðum síðum gallabuxum, strigaskóm og með derhúfu.
Einhverjir urðu fyrir vonbrigðum þar sem aðdáendur hans bjuggust við meiri sviðsfatnaði, meiri períódum, ekki gallabuxum og leðurjakka. Klæðnaðurinn kallaði fram ákveðna fortíðarþrá því heildarmyndin minnti töluvert á tískuna sem ríkti um aldarmótin. Gallabuxurnar sem hann klæddist eru með útvíðu sniði og víkkuðu út við hné. Þær eru síðar, eða í raun svo síðar, að hluti af þeim snerti jörðina.
Á félagsmiðlum voru skiptar skoðanir um útlit rapparans. Sumir voru þeirrar skoðunar að gallabuxurnar hefðu getað komið úr fataskáp Hannah Montana, Jennifer Aniston og Lainey Wilson og væru of dömulegar.
Þeir sem höfðu þá skoðun að stíllinn væri úreltur eru augljóslega ekki að fylgjast með tískunni því meiri aldarmótatíska hefur ekki sést lengi, bæði í kvenfatnaði og herrafatnaði. Gallabuxur Lamars voru hannaðar af Hedi Slimane sem hefur starfað hjá frægum tískuhúsum eins og Christian Dior, YSL og Celine.
Víðar buxur hafa verið ráðandi í tískuheiminum undanfarið ár en nú virðist sniðið vera að breytast. Franska tískuhúsið Louis Vuitton sýndi margar útgáfur af útvíðum gallabuxum á dögunum þegar hausttíska þess var kynnt. Það gefur til kynna að ný tískubylgja sé í uppsiglingu.
Lamar er þó ekki einn um að aðhyllast þessa tísku því listamaðurinn Pharrell Williams sást nýverið í útvíðum gallabuxum á tískusýningu japanska merkisins Sacai.