Ásgerður Diljá Karlsdóttir er 27 ára gömul, menntaður viðskiptafræðingur og starfar sem markaðsstjóri og listrænn stjórnandi hjá skartgripafyrirtækinu Aurum. Hún segir tísku alltaf hafa átt sérstakan stað í hjarta sínu og að hún muni varla eftir sér án þess að hún hafi haft gaman af því að klæða sig upp fyrir tilefni og þá sérstaklega að undirbúa það, að velja fötin, skóna og aukahlutina. Hún er dugleg að gera sig fína, hvort sem það er dags daglega eða við betri tilefni.
„Ég á son sem heitir Rúrik Blær og verður tveggja ára í sumar. Áhugamálin mín snúast mikið um hreyfingu, ég elska pilates æfingar og svo hef ég alltaf haft mikinn áhuga á ljósmyndun og því að afla mér nýrrar þekkingar, hvort sem það er til að styrkja mig í starfi, sem móðir eða einfaldlega sem manneskja.“
Hvernig byggirðu þinn stíl upp?
„Stíllinn minn byggir fyrst og fremst á því að klæða mig í föt sem mér líður vel í. Eftir að ég varð mamma breyttist hann svolítið, á tímabili langaði mig helst að skipta út öllum fataskápnum mínum fyrir eitthvað nýtt. En nú, tveimur árum síðar, finnst mér ég loksins vera komin á stað þar sem ég kann aftur að meta gömlu fötin mín og er glöð að ég lét ekki allt fara. Ég er hægt og rólega að byggja upp fataskáp sem ég elska og sem endurspeglar hver ég er í dag.
Ég myndi lýsa stílnum mínum sem frekar skandinavískum, einföldum, þægilegum og tímalausum, með persónulegum blæ. Dagsdaglega kýs ég minimalísk og praktísk föt, en á sumrin og þegar ég er að fara eitthvað fínt, leyfi ég mér að leika mér meira með liti, form og aukahluti. Þá blómstrar stíllinn aðeins meira og gefur þetta auka.“
Hver er uppáhaldsflíkin í fataskápnum?
„Eins og er er uppáhaldsflíkin mín ljósbrúnn rúskinnsjakki sem ég keypti í mars. Hann er bæði tímalaus og ótrúlega klæðilegur, og passar við allt, hvort sem ég er í gallabuxum og strigaskóm eða í kjól og hælum. Mér finnst líka gaman að eiga flíkur sem endast og eldast vel, og ég sé alveg fyrir mér að þessi jakki verði með mér í mörg ár.“
Hvaða fylgihlut heldurðu mest upp á?
„Ég elska að vera með skartgripi og finnst ég næstum því vera hálf nakin ef ég er ekki með eyrnalokka. Þeir geta algjörlega breytt lúkkinu, hvort sem maður er í jogginggalla eða fínum kjól og þeir þurfa alls ekki að vera stórir eða áberandi til að gera mun. Ég held sérstaklega mikið upp á Eagle eyrnalokkana mína frá Aurum, sem ég er eiginlega með alla daga. Síðan held ég líka mikið upp á rúskinnstöskuna mína, sem ég keypti nýlega og veit að ég mun nota endalaust mikið í sumar.“
Er eitthvað trend í gegnum tíðina sem þú hefur kunnað að meta vel og eitthvað sem þú hefur ekki fílað?
„Ég hef alltaf verið hrifin af rúskinni, mér finnst áferðin og litirnir gera mikið fyrir hvaða flík sem er, og mér finnst mjög gaman að sjá hversu áberandi rúskinn er í tískunni núna, sérstaklega brúnleitt. Nýlega fór ég líka að fíla klemmur og spangir í hárinu, sem kom mér svolítið á óvart, ég hélt lengi að það væri ekki alveg mitt, en núna finnst mér þær bæta skemmtilegum blæ við lúkkið. Eitt trend sem ég hef ekki náð að tengja við eru doppótt mynstur og „skorts“ sem eru stuttbuxur að aftan en pils að framan. Þó það fari mörgum vel, þá hef ég bara aldrei séð mig í því. En svo veit maður aldrei, ég hef alveg lent í því áður að trend fari smám saman að heilla mig, og áður en ég veit af er ég farin að fíla það.“
Hvernig er þín húðumhirðu- og förðunarrútína?
„Húðrútínan mín er frekar einföld, og svolítið sveigjanleg, þar sem ég er með viðkvæma húð og þarf að passa mig á sterkum virkum efnum. Ég byrja á að nota hreinsivatn til að taka farða af, og er mjög hrifin af bæði bleika vatninu frá Garnier og vatninu frá Bioderma. Svo nota ég mildan hreinsi, núna er það hreinsir frá Byoma, en ég skipti reglulega um slíkt. Ég hef líka mjög góða reynslu af vörum frá Pharmaceris, La Roche-Posay og Rhode en þær henta húðinni minni vel. Á kvöldin elska ég að nota gua sha stein til að örva blóðflæði og slaka á, og svo finnst mér þurrburstun á líkamanum fyrir sturtu algjörlega breyta leiknum.“
„Förðunarrútínan mín er líka frekar einföld dagsdaglega. Ég blanda saman bronzing-gelinu frá Sensai og True Match farðanum mínum til að fá náttúrulega áferð. Ég nota hyljara frá Nyx og setting púður frá Charlotte Tilbury, og blanda saman tveimur kinnalitum en það er minn uppáhalds, True Harmony frá Mac, ásamt Rosy Glow frá Dior Backstage. Sólarpúðrið mitt er Bronze Goddess frá Estée Lauder, og maskarinn sem ég elska er Telescopic frá Loréal. Að lokum nota ég Fix+ sprey frá Mac til að binda förðunina saman og gefa henni fallega áferð, mér finnst það setja punktinn yfir i-ið.“
Hverju bætirðu við þegar þú ferð fínt út?
„Þegar ég fer fínt út finnst mér ótrúlega gaman að gefa mér tíma í að ákveða outfit-ið. Ég vel oft eitthvað sem lætur mér líða vel en er samt aðeins meira uppsett, en dagsdaglega. Ég elska að bæta við armböndum og stóru hálsmeni til að gera lúkkið skemmtilegra og persónulegra. Svo finnst mér flottir skór og vel valið veski líka gera mjög mikið fyrir heildamyndina.
Ég legg líka aðeins meiri áherslu á förðun, nota til dæmis meiri ljóma, augnblýant eða sterkari kinnalit, og oftast varablýant og varalit til að fullkomna lúkkið. Varalitirnir Modesty og Honeylove frá Mac eru í miklu uppáhali hjá mér núna. Mér finnst líka gaman að undirbúa mig aðeins betur fyrir tilefni, ég nota gjarnan brúnkukrem til að fá fallega brúnku.“
Er einhver árstíð í uppáhaldi hjá þér, þegar kemur að tísku og klæðaburði?
„Ég verð að segja sumarið og tískuna sem fylgir bæði vorinu og sumrinu. Mér finnst ótrúlega gaman að klæðast léttum jökkum og strigaskóm, það er eitthvað við sumartískuna og einfaldar, fallegar flíkur sem ég elska.“
Hvað er á döfinni hjá þér?
„Eins og er er ég að einbeita mér að spennandi verkefnum hjá Aurum, bæði í listrænni þróun og markaðssetningu. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast þar, og mér finnst ótrúlega gefandi að fá að vinna skapandi vinnu með svona fallega skartgripi. Samhliða því er ég að reyna að halda góðu jafnvægi milli vinnu og heimilislífs, njóta hversdagsins með fjölskyldunni og leyfa hlutunum að þróast á sínum hraða. Ég er líka að vinna að mínum eigin persónulegu markmiðum og draumum, sem ég hlakka til að leyfa að vaxa og deila með öðrum einn daginn. Og svo er sumarið fram undan, sem gefur alltaf smá auka orku og innblástur!“
Er eitthvað tískutengt á óskalistanum hjá þér?
„Já, sólgleraugu og fallegt, tímalaust úr eru á óskalistanum. Ég er ekki búin að ákveða nein sérstök merki enn, þar sem ég er ennþá að leita, en ég er með augun opin!“