Hvaða flíkur hafa gert allt vitlaust síðustu 14 ár?

Hver getur gleymt hauskúpuklútnum, Gucci-skónum, allt of stóru lyklakippunni eða …
Hver getur gleymt hauskúpuklútnum, Gucci-skónum, allt of stóru lyklakippunni eða stutta blúndukjólnum? Samsett mynd

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar í tískuheiminum síðustu ár enda alltaf eitthvað nýtt og spennandi í tísku ár hvert. Margir tengja minningar af stórum stundum í lífinu við fötin sem þeir klæddust enda er tíska stór hluti af lífinu. Hér rifjum við upp síðustu fjórtán ár í tískuheiminum í tilefni af afmæli Smartlands sem fagnaði 14 ára afmæli 5. maí. Hvaða flíkur eða tískubylgjur voru mest áberandi. 

2011 Þröngir blúndukjólar

Þennan kjól tengja margir við Katrínu prinsessu af Wales. Kjóllinn kom í mismunandi litum, úr blúnduefni, með ermum sem náðu rétt niður fyrir olnboga og sídd kjólsins var yfirleitt um mitt lærið. Sannur skinkukjóll.

Týpískur blúndukjóll frá árinu 2011.
Týpískur blúndukjóll frá árinu 2011.

2012 Strigaskór með fylltum botni

Skórnir sem fáir geta gleymt og voru til bæði hjá virtum tískuhúsum og í ódýrustu fataverslunum. Franski fatahönnuðurinn Isabel Marant kom þeim á kortið og voru endalausar eftirlíkingar til. Útgáfan frá Isabel Marant er enn til í versluninni og seldust skórnir hratt upp hér á landi enn á ný þegar þeir komu í verslunina Mathildu fyrr á þessu ári.

Strigaskór með fylltum botni frá Isabel Marant.
Strigaskór með fylltum botni frá Isabel Marant.

2013 Klútar með hauskúpumynstri

Breski fatahönnuðurinn Alexander McQueen átti vinsælasta klútinn á þessum árum. Þetta var þunnur silkiklútur með hauskúpumynstri og var algengastur í svörtu, hvítu og rauðu. Klúturinn var hluti af vor- og sumarlínu tískuhússins fyrir árið 2003. Sá sorglegi atburður átti sér stað 2010 að McQueen féll fyrir eigin hendi en í kjölfarið varð hönnun hans mjög vinsæl. Stjörnur eins og Kim Kardashian, Lindsay Lohan, Sienna Miller og Olsen-tvíburarnir voru aðdáendur klútsins.

Silkiklútur með hauskúpumynstri frá Alexander McQueen.
Silkiklútur með hauskúpumynstri frá Alexander McQueen.

2014 Stutta kragalausa kápan

Vinsælasta yfirhöfn þessa árs var heldur sniðlaus kápa, með engum kraga og ermum sem náðu rétt niður fyrir olnboga. Þetta er snið sem flestir klæddust en klæddi fæsta.

Sniðlaus kápa án kraga.
Sniðlaus kápa án kraga.

2015 Loðnar lyklakippur

Lyklakippan var stóratriði þetta árið og var ein regla sem gilti; því stærri og loðnari, því betra. Lyklakippurnar voru einnig hafðar sem skraut á töskur og voru útgáfurnar gríðarlega fjölbreyttar. Helstu tískuhús heims framleiddu stórar og loðnar lyklakippur sem kostuðu sumar yfir hundrað þúsund krónur.

Loðin lyklakippa frá Fendi.
Loðin lyklakippa frá Fendi.

2016 Levi's 501-gallabuxur

Ljósbláar, klassískar Levi's 501-gallabuxur voru ferskt snið fyrir þá sem voru orðnir leiðir á níðþröngu gallabuxunum. Að þessu sniði var mest leitað á leitarvélum eins og Google árið 2016.

Levi's 501- gallabuxur.
Levi's 501- gallabuxur.

2017 Gucci-mokkasínur

Klassísku Gucci-mokkasínurnar voru draumaskór margra á þessum tíma. Eins skór fást enn þann dag í dag hjá tískuhúsinu og seljast vel þrátt fyrir að margir séu orðnir leiðir á þeim. Útgáfan með loðna innlegginu og bróderaðri mynd á ristinni var hvað eftirsóttust.

Gucci-mokkasínur með loðnu innleggi.
Gucci-mokkasínur með loðnu innleggi.

2018 Gömlu góðu hjólabuxurnar

Þær voru vinsælar á níunda áratugnum og aftur í kringum 2018. Vinsælast var að klæðast þröngum hjólabuxum undir kjóla og við strigaskó. Á góðviðrisdögum á Austurvelli mátti sjá aðra hverja konu í þessu dressi enda þótti þetta þægilegt og gríðarlega smart. Buxurnar voru notaðar við hvert tilefni og fylltust verslanir af þessum buxum í öllum litum.

Kim Kardashian í hjólabuxum og hettupeysu í stíl.
Kim Kardashian í hjólabuxum og hettupeysu í stíl. Skjáskot/Instagram

2019 Agnarsmá sólgleraugu

Lítil sólgleraugu fóru að vera vinsælli en þau stóru, sem höfðu lengi verið í tísku. Ofurfyrirsætur eins og Gigi og Bella Hadid komu þessari bylgju á kortið sem Íslendingar tóku vel í. Þau komu í öllum litum: svörtum, bleikum, ljósbláum og brúnum.

Lítil sólgleraugu voru aðalmálið árið 2019.
Lítil sólgleraugu voru aðalmálið árið 2019.

2020 Hálfmánabolurinn frá Marine Serre

Vinsælasta flíkin þetta árið var hálfmánabolurinn frá franska fatahönnuðinum Marine Serre. Bolurinn þótti nútímalegur og var úr endurnýttum textíl sem var farið að verða gríðarlega vinsæl framleiðsluleið.

Hálfmánabolurinn frá Marine Serre.
Hálfmánabolurinn frá Marine Serre.

2021 Perluhálsmenið frá Vivienne Westwood

Breski fatahönnuðurinn Vivienne Westwood hannaði áberandi og rokkuð perluhálsmen sem slógu svo sannarlega í gegn hjá tískuunnendum.

Perluhálsmen frá Vivienne Westwood.
Perluhálsmen frá Vivienne Westwood.

2022 Dragtarjakki í yfirstærð

Tískubylgja sem kom og hefur ekki farið síðan. Dragtarjakkar í stórri stærð, með stórum öxlum, voru áberandi þetta ár. Sá vinsælasti var frá merki sem heitir The Frankie Shop og framleiddi jakkann í mörgum litum. Gildir enn í dag, enda klassík.

Stór og víður dragtarjakki frá The Frankie Shop.
Stór og víður dragtarjakki frá The Frankie Shop.

2023 Hippaleg gallapils

Þetta ár var lítið um stutt gallapils heldur voru þau síðu og hippalegu í tísku. Þau voru yfirleitt stíliseruð við strigaskó og prjónaðar peysur. Sniðið sem var vinsælast náði rétt fyrir ofan ökkla og var með klauf. Sum þeirra voru saumuð með bútasaumi til að gera þau enn hippalegri.

Gallapils frá breska tískuhúsinu Victoriu Beckham frá árinu 2022.
Gallapils frá breska tískuhúsinu Victoriu Beckham frá árinu 2022.

2024 Hlébarðamynstur

Það var nær ómögulegt á síðasta ári að stíga fæti inn í verslun eða samkomu hvers kyns án þess að sjá flík í þessu mynstri. Það var jafn áberandi hjá stærstu tískuhúsum heims eins og hjá ódýrari fataverslunum. Þetta var ár hlébarðamynstursins og vinsældir þess náðu hápunkti síðsumars þegar verslanir fylltust af hlébarðamynstruðum gallabuxum.

Hlébarðamynstur frá danska merkinu Ganni sem þykir sérlega vel heppnað.
Hlébarðamynstur frá danska merkinu Ganni sem þykir sérlega vel heppnað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda