Það er fáheyrt að loðið tuskudýr með skörpum tönnum og reiðu augnaráði valdi fjaðrafoki í heimi tískunnar, en einmitt það hefur gerst með Labubu. Þessi dularfulli bangsapúki sem lítur út eins og blendingur af kanínu og skrímsli er nýjasta æðið. Fólk á öllum aldri virðist heillað af þessum óvenjulega krúttlega skrímslabangsa sem kemur frá Asíu en breiðist nú út um allan heim á ógnarhraða.
Labubu var upphaflega skapaður af listamanninum Kasing Lung sem er frá Hong Kong. Þetta var fyrir áratug síðan. Hann sækir innblástur í norrænar þjóðsögur og lýsir Labubu sem lítilli tröllaskepnu með oddmjó eyru og sögbarðar tennur sem gefa henni stríðnislegt útlit. Þrátt fyrir tröllalegt yfirbragð er Labubu góðhjartaður í grunninn og ætíð boðin og búin að hjálpa þó að það klikki stundum á skemmtilegan hátt, ef marka má sögur listamannsins.
Kínverska leikfangafyrirtækið Pop Mart tók Labubu upp á arma sína og þróaði heila vörulínu sem kallast The Monsters út frá persónunni. Í dag framleiðir Pop Mart bæði litlar safngripafígúrur og stærri tuskudýr af Labubu, jafnt sem öðrum furðuverum úr þessum sama ævintýraheimi. Eftirspurnin er gríðarleg og hefur fyrirtækið vart undan við framleiðslu. Labubu selst upp á örfáum mínútum við hverja sendingu.
Árið 2024 fór salan á Labubu á flug og breyttist í sannkallað tískufyrirbæri. Fólk fór að festa litla Labubu-bangsa við glæsilegar handtöskur sínar og Labubu-bangsar sáust dingla eins og hver annar skrautmunur um allar trissur.
Ekki leið á löngu þar til tískublöð og áhrifavaldar tóku eftir æðinu. Stórstjörnur á borð við Rihanna og Dua Lipa hafa sést skreyta töskur sínar með Labubu-bangsa.
Allt þetta hefur gert það að verkum að Labubu er ekki lengur bara dót, hann er orðinn tjáningarform í tísku og poppkúltúr. Þegar tískufyrirmyndir og áhrifavaldar birta myndir af sér með Gucci- eða Chanel-töskuna á öxlinni og litla tannhvíta skrímslið dinglandi við hliðina, vilja aðdáendur umsvifalaust herma eftir. Vogue Business greinir frá því að Labubu sé kominn í hóp eftirsóttustu tískuvara heims um þessar mundir.
Hvað skýrir þetta æði? Þarna spilar sjarmi Labubu, sem fólginn er í útlitinu, stóran part. Hann er „ljót-sætur“ eins og sumir kalla það.
Hluti af sprengingu Labubu-æðisins er einnig tengdur því hvernig varan er seld. Flestir litlu Labubu-safngripirnir koma í leynilegum lokuðum öskjum, þar sem þú veist ekkert hvaða útgáfu þú færð fyrr en þú opnar: Verður liturinn sem ég fékk blár, bleikur eða glitrandi? Er þetta sjaldgæfa útgáfan? Spennan við óvissuna kallar fram gleði og eftirvæntingu.
Hér má til dæmis sjá Teboðsvinkonurnar Sunnevu Eir Einarsdóttir og Birtu Líf Ólafsdóttir opna Labubu pakka.