Öldungadeild Frakklands samþykkti frumvarp sem á að minnka umsvif hraðtískufyrirtækja. Frumvarpið felur í sér bann á auglýsingum og refsiaðgerðir gegn fyrirtækjum sem framleiða hraðtísku.
Frumvarpinu er sérstaklega beint að netversluninni Shein sem er þekkt fyrir að selja ódýr föt í lélegum gæðum. Frumvarpið á ekki að hafa áhrif á frönsk og evrópsk fyrirtæki eins og Zöru og H&M.
„Frumvarpið er stórt skref í baráttunni gegn efnahagslegum og umhverfislegum áhrifum hraðtísku og sendir sterkt skilaboð til fyrirtækja og neytenda,“ sagði Agnes Pannier-Runacher, ráðherra vistfræðilegra umskipta, eftir að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru kynntar.
Frumvarpið var samþykkt af 337 þingmönnum öldungadeildar gegn einum á þriðjudag en það hafði þegar verið samþykkt af þjóðþingi Frakklands fyrir rúmu ári síðan. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur verið látin vita af frumvarpinu en hún úrskurðar hvort frumvarpið stangist á við lög sambandsins.
Pannier-Runacher segir frumvarpið boða strangari refsiaðgerðir á hraðtískufyrirtæki sem verði gefin einkunn fyrir „umhverfissamskipti“. Þessi „umhverfisstig“ munu hafa áhrif á öll hraðtískufyrirtæki. Fyrirtækin sem fái lægstu einkunnirnar verði skattlögð af stjórnvöldum.
Pannier-Runacher segir hraðtísku þrefalda ógn sem stuðli að ofneyslu, sé óumhverfisvæn og ógni frönskum fatafyrirtækjum.
Markaður fyrir hraðtískuvörur er vaxandi í Frakklandi en um 48 flíkur á hvern íbúa eru settar á markað í Frakklandi á hverju ári og 35 flíkum er hent á hverri sekúndu.