Móeiður Lárusdóttir var gestur í brúðkaupi góðra vina í Aþenu í Grikklandi um helgina. Móeiður vakti mikla athygli fyrir fatavalið en hún klæddist rosalegum gulum kjól í veislunni. Guli liturinn var í fallegum tón með keim af appelsínugulum.
Kjóllinn var síður niður í gólf og bundinn um hálsinn. Snið kjólsins var ósamhverft með hárri klauf, skreytt með skrautsteinum hægra megin.
Kjóllinn er frá ástralska fatahönnuðinum Christopher Esber. Esber er þekktur fyrir áhugaverðar útfærslur á annars minimalískum sniðum og leikur sér mikið með göt eða útklippt snið og smáatriði sem minna stundum á skúlptúra.
Esber hefur skapað sér sess í tískuheiminum frá því hann stofnaði fatamerkið árið 2010. Kjólarnir hans hafa verið mjög vinsælir á meðal þeirra sem vilja vekja athygli í áhugaverðum fötum.
Kjóllinn kostar 123 þúsund krónur á gengi dagsins í dag. Það er þó lítið eftir af honum á helstu vefverslunum heims í dag.
Móeiður er búsett í Grikklandi ásamt kærasta sínum Herði Björgvini Magnússyni sem spilar fyrir Panathinaikos í Aþenu. Þau eiga tvær dætur saman.