Kenningin um rauðar neglur hefur breyst í trúarbrögð á samfélagsmiðlum síðustu misseri. Hverjar á fætur annarri fjalla samfélagsmiðlastjörnur um athyglina sem rauðar neglur vekja hjá karlmönnum. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Women's Health.
„Rautt hefur alltaf verið tengt við sjálfstraust og aðdráttarafl, svo eðlilega ef fólk skartar rauðu þá vekur það athygli,“ segir sálfræðingurinn Stefanie Mazer. „Ef einhver er sannfærð um að rauðar neglur hjálpi henni að standa út úr, mun sú hin sama haga sér öðruvísi og fólk tekur eftir því.“
Rauður er einn þeirra lita sem hefur hvað mest sálfræðileg áhrif. „Í sögulegu samhengi hefur liturinn verið tengdur við ástríðu, kraft og vald, sem stendur út úr hlutlausum litum,“ segir Mazer.
Robyn DelMonte, sem er með TikTok-reikning undir nafninu GirlBossTown, fjallaði um rauðar neglur á samfélagsmiðlinum árið 2022. Hún spurði sjálfa sig af hverju menn væru svo hrifnir af rauðum nöglum og kom með þá kenningu að það minnti þá á mæður þeirra þegar þeir voru að alast upp á níunda og tíunda áratugnum.
Í kjölfarið spratt hvert myndskeiðið upp af öðru frá hinum ýmsu snillingum sem veltu rauðum nöglum fyrir sér.
Samkvæmt Women's Health eru hugsanleg vísindi á bak við kenninguna um rauðar neglur. Í grein á Journal of Personality and Social Psychology, frá 2008, kemur fram að rannsóknir hafi sýnt að karlmönnum finnist konur sem klæðast rauðu meira aðlaðandi og girnilegri. Þessar tilfinningar virðast alveg ómeðvitaðar.
Rannsókn frá 2024, sem framkvæmd var meðal kínverskra háskólanema, sýndi að fólki fannst einstaklingar í rauðu meira aðlaðandi heldur en þeir sem klæddust hvítu. Það sýnir að rauður sem aðdráttarafl eigi ekki einungis við um Vestræna menningu.
„Samkvæmt þróunarsálfræðinni, hefur rautt þróast hjá mörgum tegundum sem merki um yfirráð, lífsgæði og frjósemi,“ segir Mazer. Liturinn tengist blóðflæði og kynferðislegri örvun sem getur tengst því af hverju rauður þykir aðlaðandi.
Mazer segir að kenningin „virki“ en ekki að því leyti sem samfélagsmiðlar gefa til kynna.