Söngkonan og tónskáldið Laufey Lín Bing Jónsdóttir fer með stórt hlutverk í nýrri auglýsingaherferð tískuhússins Kate Spade New York.
Herferðin, sem ber nafnið „Spark Something Beautiful“, var frumsýnd í gær. Markmið hennar er að fanga gleðina í hverju augnabliki og kynna um leið nýju Duo-töskuna, sem stendur fyrir fjölbreytni, tengsl og sjálfstjáningu.
Í auglýsingunni má einnig sjá bandaríska rapparann Ice Spice, áhrifavaldinn Charli D’Amelio og fyrirsætuna Reign Judge. Saman endurspegla þau þann litríka og skapandi anda sem einkennir tískumerkið.
Að sögn tískuhússins snýst herferðin um að sýna hvernig einföld augnablik geta umbreyst í eitthvað einstakt þegar þeim er deilt með öðrum – þar sem fegurðin felst ekki aðeins í vörunni heldur einnig í tengslunum sem hún skapar.
Laufey birti í gærkvöld á Instagram-síðu sinni myndbrot úr auglýsingunni þar sem hún sést meðal annars með hvíta Duo-tösku og valhoppa yfir gangbraut.