September er uppáhaldsmánuður allra tískuunnenda. Sérstaklega hér á landi því loksins koma flíkur sem hægt er að nota í veðurofsanum. Hér er samantekt á þeim tískustraumum sem verða allsráðandi haust og í vetur. Við horfum til franska tískuhússins Chloé sem er það allra vinsælasta núna, Prada og Isabel Marant.
Kvenleikinn verður ráðandi í haust með viðkvæmri blúndu og öðrum þokkafullum smáatriðum. Svartir blúndukjólar komu fram hjá tískuhúsum eins og Chloé, Isabel Marant, Saint-Laurent og Stellu McCartney. Í vetur geturðu skellt stórri loðkápu yfir blúndukjólinn; þannig verður þér ekki kalt.
Fallega klæðskerasniðin dragt heldur áfram að einkenna fataskáp kvenna. Fyrir haustið voru pilsadragtir í mjúkum, gráum tónum áberandi en einnig dragtarjakkar sem eru teknir saman í mittið á dramatískan hátt. Pilsadragtin frá Prada er dásamlega falleg í dökkgrárri ull og Givenchy-jakkinn er kominn á óskalistann.
Stórar og mjúkar yfirhafnir úr gerviloði eins og frá Chloé, Prada og Balenciaga verða vinsælar í vetur. Nokkur ár eru liðin frá því að stærstu tískuhús heims hættu að nota alvöruloð og hefur þróunin í gerviloði verið gríðarleg síðan þá. Svona yfirhöfn veitir þér fágað útlit og mikla hlýju.
Ljósbleikur og grænn eða sinnepsgulur og rauður? Litasamsetningar á tískupöllunum fyrir veturinn komu margar hverjar verulega á óvart. Tom Ford skellti ljósbleikri dragt við græna skyrtu og Miu Miu notaði mismunandi brúna og gula tóna við eldrauðan lit. Nú er tími til kominn að leika sér aðeins, loksins, og allar reglur eru farnar út um gluggann.