Sól Hansdóttir fatahönnuður sýndi nýja fatalínu í íslenska sendiráðinu í Lundúnum á meðan tískuvikunni stóð. Hún segir línunni hafa verið vel tekið og það séu strax komin áhugaverð verkefni inn á borð til sín.
„Línan heitir Reglur framtíðarinnar (e. Rules for The Future). Þetta var pæling eins og þegar maður er úti að labba og sér einhvern, til dæmis einhverja kúl konu í kúl lúkki, og maður hugsar; hey, hvert er hún að fara? Ég vil fara þangað sem hún er að fara,“ segir Sól um línuna.
„Einhver sem er með góða orku.“
Sól lýsir fötunum þannig að þau eigi að ganga við öll tilefni. „Þú getur flakkað, hvert sem þú ert að fara, þá ganga þau. Þó þú sért að fara út í „corner-shop“ að kaupa þér Coca Cola, hitta kærasta eða út á lífið. Þetta eru föt fyrir öll tilefni. Þetta er ekki of mikið hversdags, ekki of mikið kvöld- eða íþróttafatnaður. Ekki einn viðburður.“
Er það ekki algengt hjá mörgum merkjum í dag?
„Algjörlega. Kannski er pælingin að þú getir hoppað í fötunum í mörg mismunandi umhverfi. Farið á djammið, hitt elskhugann, út í búð eða út að borða. Fötin geta tekið þig á alls konar kúl staði. Það var svona pælingin með hvað ég myndi gera.“
Hvað er það við Lundúni sem heillar þig?
„Ég tók BA-gráðuna á Íslandi og fór í kjölfarið til Lundúna. Það er enginn tískuiðnaður á Íslandi og ég varð að fara þangað sem var tískubransi. Þetta er ekki öruggur iðnaður heima. Ég vildi fara til Lundúna, bæði út af praktík þar sem ég tala ensku en ekki frönsku og ítölsku,“ segir hún.
„En líka því ég fýla svo mikið tískuna í Lundúnum. Hún er fersk og tekur vel á móti þér. Hún er öðruvísi og er opin fyrir öðruvísi hugmyndum. Mun meira en í Mílanó og París, þar eru rótgrónar hugmyndir um tísku og varla hægt að hagga neinu. Lundúnir eru eins og unglingurinn, hér er pönk og rými fyrir sterkar hugmyndir. Svoleiðis orka passar við mína orku.
New York, ég veit það ekki. Mér finnst New York svo „boring og commercial.“ Ég hefði ekki viljað fara þangað, Bandaríkin eru líka „crazy“ en það er allt önnur umræða,” segir hún og hlær.
Hún bætir því við að tískuháskólinn Central Saint Martins, einn sá virtasti í heimi, hafi einnig heillað hana.
„Skólinn dró mig ekkert endilega hingað en hann hafði gott orðspor á sér og ég tengdi við það,“ segir hún.
„Ég flutti fyrst hingað til að vinna. Ég ætlaði að vinna í bransanum og ég fékk vinnu hjá fyrirtæki í austurhluta Lundúna. Ég komst svo óvænt inn í námið í CSM, byrjaði í því og það gekk í raun rosalega vel.
Ég hef búið hérna mest megnis síðan árið 2018 og ég elska þessa borg. Ég elska hvað það er mikill menningarmunur, ólík tungumál og ég gæti ekki hugsað mér að vera annars staðar. Allavega ekki núna.”
Hvernig er að koma sér á framfæri fyrir ungan hönnuð frá Íslandi?
„Það er bara ógeðslega erfitt og ég er enn þá í því. Þó að ég hafi farið í þennan skóla og þó að það hafi gengið vel, þá er þetta samt endalaus vinna og hark. Ég held það muni alltaf vera þannig, þetta er þannig bransi. Þó að maður komist einhvert þá þarf að halda því við og það getur verið erfitt.“
Hönnuðir tala stundum um það að það geti verið erfitt þegar viðskiptatengdi hlutinn fer að taka við af þeim listræna. Finnur þú fyrir því?
„Ég geri það. Ég útskrifaðist 2021 og ætlaði ekki að stofna fatamerki til að þurfa ekki að hugsa út í þessa hluti. Mig langaði bara að gera tilraunir og ég gerði það í nokkur ár. Ég var þá að gera mitt og spáði ekkert í viðskiptahliðinni.
En þetta hefur verið brjáluð vinna síðasta árið, að setja þetta upp sem fyrirtæki. Ég hef aldrei gert það áður. Ég hef aldrei spáð í hvað ég er að setja út á markaðinn því ég hef verið meira í listrænum verkefnum með áherslu á fatnað, frekar en að búa til fatalínur, þar sem þarf að vera ákveðið mikið af toppum á móti svona mörgum buxum. Ég hef meira verið í bara þeirri hugsun að hver saumur er óvæntur,” segir Sól og hlær.
„En mesta vinnan mín núna fer fram í tölvunni, að senda tölvupóst og þannig. En það er ekki hægt að vera framkvæmdastjórinn, hönnuðurinn og klæðskerinn. Það meikar engan sens. Ég verð að hugsa þannig að ég geti ekki rekið fyrirtækið ef ég er endalaust að sauma, svo ég er líka í leiðinlegu hlutunum núna en ég reyni að klára þá hratt.”
Hvernig hefur línunni verið tekið?
„Mjög vel hingað til. Það er auðvitað stutt síðan en það hafa komið nokkur verkefni inn sem er mjög gott, verkefni sem ég má ekki beint segja frá akkúrat núna. En það hefur ekki gerst svona fljótt áður,” segir hún.
Áttu þér draumaverslun sem þú værir til í að sjá fötin þín í?
„Núna er ég mest í því að reyna að byggja upp beina sölu frá mér til kúnna. Ef maður fer í alvöru framleiðslu þá getur verið erfitt að græða á því að vera í öðrum verslunum því þær geta verið að taka svo mikið til sín. Sumar búðir eru þó mjög góðar fyrir markaðssetningu og kynningu á merkinu. Eins og Dover Street Market, ef þú ert þar þá er það mjög góð kynning. Þú græðir ekki pening á því, en græðir athygli og fólk kynnist merkinu þínu betur.”