Snyrtivöruheimurinn getur verið mikill frumskógur, úrvalið endalaust og erfitt að átta sig á hvaða vörur eru þess virði að fjárfesta í.
Harpa Káradóttir, förðunarfræðingur og eigandi Makeupstudio Hörpu Kára, er ein sú færasta á sínu sviði hér á landi og hefur starfað í faginu í næstum tvo áratugi. Harpa hefur komið víða við á ferli sínum og starfar við förðunarkennslu ásamt verkefnum fyrir sjónvarp, auglýsingar og tísku.
Harpa mun koma til með að deila sínum uppáhaldssnyrtivörum með lesendum Smartlands í hverjum mánuði í vetur, kynna þeim spennandi nýjungar ásamt því að veita innsýn í hvaða vörur eru heitastar hverju sinni.
Hér er listi Hörpu fyrir októbermánuð.
Mest notaða varan mín í þessum mánuði var þessi dásamlegi kinnalitur frá YSL. Mildur fjólutónninn klæðir flesta húðtóna vel og veitir húðinni silkiáferð sem lífgar upp á hvaða förðun sem er. Þessi formúla tollir einstaklega vel á húðinni, er vatnsþolin og er sögð endast í allt að 24 klukkustundir á húðinni.
Eitt besta leynitrixið í bókinni er góður og virkur augnmaski til þess að lífga og hressa upp á augnsvæðið. Þessi maski er búinn að vera í uppáhaldi hjá mér lengi og flestir mínir fastakúnnar hafa fallið fyrir þessari vöru með mér. Þessi maski inniheldur virk innihaldsefni og því er æskilegt að ég mæli með honum fyrir fólk sem er komið yfir þrítugt. Maskinn inniheldur retínól og veitir húðinni algjöra rakasprengju, dregur úr þrota og fínum línum ásamt því að vinna á baugum. Þessi vara er tilvalin sérstaklega fyrir betri tilefni og þegar þú vilt láta förðunina haldast ferska og fallega yfir lengri tíma.
Nærandi andlitshreinsir sem leysir upp farða, sólarvörn og aðrar förðunarvörur á einfaldan og fljótlegan hátt. Hreinsirinn er í nokkurs konar salvaformi og með því að nudda honum yfir andlit, augu og varir bráðnar förðunin af á auðveldan og mildan hátt. Salvinn inniheldur náttúrulegar olíur sem róa og vernda húðina. Síðan fylgi ég eftir með volgum og rökum þvottapoka svo að andlitið verði skínandi hreint. Ég held mikið upp á andlitshreinsi sem ég get notað á fljótlegan og einfaldan hátt. Sjálf er ég mjög viðkvæm í augunum og ég hef aldrei fundið fyrir ertingu í augum né húð eftir hreinsun með þessum hreinsi.
Ég vildi óska þess að ég hefði kynnst þessu kremi fyrr. Þetta krem er vegan útgáfa af hinum sívinsælu sniglakremum. Kremið veitir húðinni mikinn raka, aukinn teyjanleika og fyllingu. Einn helsti kostur þessarar vöru er hvað kremið virkar guðdómlega undir farða og aðrar vörur sem þú berð á húðina. Kremið gengur hratt inn í húðina og situr vel undir farða. Þetta krem er orðinn minn uppáhaldsfarðagrunnur í dag. Ég mæli eindregið með því að þau sem starfa við förðun kynni sér þetta krem nánar því mér finnst þetta virka mjög vel og frábært að farða beint ofan á vöruna.
Þetta er besta litaleiðréttingarvaran fyrir augnsvæðið að mínu mati. Ég hef prófað ansi margar sambærilegar vörur en ég fer alltaf aftur í þessa stórkostlegu vöru frá Bobbi Brown. Þessa vöru nota ég á blámasvæði undir augum og í innri augnkrók. Varan inniheldur ljósbleika/ferskju/rauða undirtóna sem hjálpa til við að láta blátóna bauga sjást minna. Formúlan er fullkomin og þekur vel svo þú þarft lítið af vörunni en hún bráðnar inn í húðina þannig að þú tekur varla eftir henni á augnsvæðinu. Ef þér finnst þú glíma við bauga og þreytumerki þá mæli ég hiklaust með því að þú prófir þessa vöru. Þessi Corrector kemur í nokkrum tónum svo æskilegt er að fagmanneskja á sölustöðunum aðstoði þig við val á litnum.
Frábær augabrúnapenni með einstökum tvöföldum burstatoppi sem auðvelt er að teikna afar fíngerðar línur sem líkjast hárum. Þannig er auðvelt að móta og fylla upp í augnabrúnirnar á náttúrulegan og auðveldan hátt. Þessi vara endist mjög vel á húðinni, er vatnsheld, svitaheld og hitaþolin. Augabrúnapenninn fæst í nokkrum litatónum svo allir geta fundið lit við sitt hæfi.
Mjúkur og undurfagur rauðbrúnn augnblýantur sem hægt er að nota á marga vegu. Þar sem formúlan er mjög mjúk þá er auðvelt að teikna línu við rót augnháranna og blanda henni út með bursta eða fingri. Einnig er liturinn mjög fallegur fyrir innri vatnslínu. Þessi brúni blýantur ber rauðan undirtón sem dregur fram blá, græn og brún augu. Ég veit til þess að lesendur tóku vel í brúna YSL maskarann frá síðasta topplista svo ég mæli hiklaust með að þið sem fjárfestuð í þeim maskara prófið þennan blýant við. Þar hafið þið dúndur „augncombo“ fyrir haustið.
CC-krem sem litaleiðréttir og jafnar út húðtóninn á náttúrulegan hátt. Ég er mikið búin að vinna með þessa vöru undanfarinn mánuð. Ég myndi kalla þessa vöru aðeins meira en litað dagkrem og frekar eins og léttan farða sem hægt er að byggja upp. Ég nota rakakrem sem fer eftir húðtýpu á húðina áður en ég ber CC-kremið á. Ég hef notað þessa vöru á mjög breiðan aldurshóp og ólíkar húðgerðir en varan virðist ganga vel inn í húðina og aðlagast húðtóninum mjög vel. CC-kremið kemur í nokkrum litum.
Æðislegt rakasprey sem róar og nærir húðina. Spreyið veitir húðinni náttúrulegt og ljómandi útlit, jafnar út húðtón, ver húðina fyrir mengun og hentar vel til að mýkja og fríska upp húðina yfir daginn eða þegar þú vilt hressa upp á dagförðunina án þess að byrja upp á nýtt. Sjálf nota ég spreyið sem síðasta skrefið í förðuninni til þess að fá allt til að blandast enn betur inn í húðina og veita aukna mýkt og raka.
Frábær nýjung frá YSL, sólarpúður sem blandast auðveldlega inn í húðina, og veitir húðinni afar fallega satínáferð.Þessi vara kemur í nokkrum litum en sjálf fékk ég mér lit 3 og 4 og hef notað þá báða mjög mikið á mína kúnna. Upp á síðkastið hef ég verið mikið að nota kremaðar vörur til þess að veita andlitinu frísklegan lit en þessi vara hefur verið mikið notuð undanfarinn mánuð, þá helst á enni, kinnbeini og sem mild náttúruleg skygging við augnbein. Með haustinu er tilvalið að velja sér eina förðunarvöru sem veitir andlitinu milt sólkysst útlit.