Róbert Wessman forstjóri Alvotech, Jón Sigurðsson forstjóri Stoða og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hittust uppi á sviði í Silfurbergi í Hörpu til þess að taka þátt í umræðum um efnahagslíf. Atburðurinn átti sér stað á Ársfundi atvinnulífsins.
Róbert Wessman klæddist teinóttum tvíhnepptum jakkafötum, var í hvítri skyrtu undir og bindislaus. Hann var vel skóaður. Í leðurskóm frá franska tískuhúsinu Louis Vuitton. Jón Sigurðsson klæddist dökkbláum jakkafötum og var í ljósblárri skyrtu undir, bindislaus líkt og Wessman. Skórnir hækkuðu aðeins í stuðinu því hann klæddist skóm frá franska tískuhúsinu Christian Dior. Daði Már Kristófersson skuldajafnaði klæðaburð þríeykisins. Hann heldur ekki bara fast um ríkisbudduna heldur líka um eigið peningaveski. Hann var í grábrúnum jakkafötum, sem passa við augnlitinn, í skyrtu og með bindi eins og alvöru embættismaður og í Ecco skóm með teygju, sem þarf ekki að reima. Slíkir skór endast og endast séu þeir burstaðir reglulega, fást í Skór.is og kosta 24.995.
Skór frá Christian Dior kosta í kringum 142.000 kr. og skór frá Louis Vuitton kosta um það bil 212.000 kr. Það fer auðvitað eftir efni, áferð og ártali.
Fréttin hefur verið uppfærð.