Hjarta mitt tók kipp þegar ég fékk skilaboð frá franska tískuhúsinu Chanel að mín biði gjöf. Ég bjóst við einhverju litlu og krúttlegu en við mér blasti stór silfurlitaður kassi sem var í stórum hvítum og svörtum poka frá tískuhúsinu.
Þegar ég tók utan af gjöfinni reyndist þessi silfurlitaði kassi vera plötuspilari. Hjarta mitt tók ennþá meiri kipp því ég hef aldrei í lífinu átt plötuspilara. Ég datt beint í barnaorkuna og leið eins og ég væri átta ára og hefði fengið heila Barbie-blokk. Eða tveggja milljóna inneign í Hello Kitty-versluninni Tokyo sem var starfrækt í Reykjavík í minni barnæsku. Það tók mig smá tíma að átta mig á því að það fylgdi plata með plötuspilaranum og að plötuspilarinn væri í raun kynning á nýjum Chance Eau Splendide-ilmi frá Chanel.
Ég var hálf klaufaleg þegar ég setti plötuna á fóninn en eftir smá æfingu náði ég að kveikja án þess að rispa elsku Angèle, sem heitir fullu nafni Angèle Van Laeken. Hún er frá Belgíu og hefur haslað sér völl sem söngkona, lagahöfundur, hljóðfæraleikari og upptökustjóri. Hún var ráðin sem sendiherra franska tískuhússins 2020 og 2021 var hún andlit augnfarðalínunnar og í ár andlit Chance Eau Splendide. Það er kannski ekki á hverjum degi sem Belgísk söngkona verður andlit hjá frönsku tískuhúsi en hvað sem því líður þá á hún fullt erindi í það.
„Upprunalega hugmyndin að Chance var hugarástand sem við túlkuðum á mjög ólíkan hátt. Hver Chance-ilmur er einstakur, en allir tjá þeir sama hugarástand. Það er engin sameiginleg samsetning, heldur eitthvað í líkingu við tilfinningu og svipbrigði sem hver ilmur tjáir – eitthvað mjög líflegt og beint,“ segir Olivier Polge, ilmmeistari hjá franska tískuhúsinu. Hann segir að þessi fjólublái ilmur sé stökkpallur inn í framtíðina.
Lagið A Little More með Angèle er hugljúft stuðlag sem færir fólki birtu og yl inn í daginn og gerir hann örlítið bærilegri. Oft veitir nú ekkert af því í öllum hamaganginum.
Þessi Chanel-plötuspilari hefur nú orðið að sérstöku atriði því að í hvert skipti sem gesti ber að garði á Smartlandsskrifstofunni er silfurlitaði kassinn opnaður og kveikt á A Little More. Fólki er líka boðið að úða Chance Eau Splendide á sig og þannig getum við Smartlandsguggurnar, ég og samstarfskonur mínar, boðið gestum okkar upp á lítið ilmferðalag sem skilur eitthvað eftir sig. Ekki eitthvert innihaldslaust hjóm eins og svo margt í samtímanum.
Lykt og tónlist getur fært fólk á annan stað innra með sér og oft þarf fólk örlítið á því að halda. Sérstaklega á rigningardögum eins og þessum þar sem ótíðindi koma á færibandi. Þá getur nú verið gott að gleyma stund og stað yfir skemmtilegheitum eins og plötuspilara frá Chanel og fjólubláum ilmi. Að geta upplifað eitthvað sem gervigreindin getur ekki töfrað fram.