Leikkona Charlize Theron ætlar ekki að láta hanka sig á því að hún sé komin fram yfir síðasta söludag. Það gerði hún með klæðaburði og stælum í teiti hjá tísuhúsinu Dior í síðustu viku7.
Theron var eitursvöl þegar hún mætti í teiti hjá franska tískuhúsinu Christian Dior 1. október. Teitið var haldið í tengslum við tískusýningu Dior sem sýndi vor- og sumarlínuna 2026 í París. Um er að ræða stóran atburð í heimi hégómans.
Theron skartaði hermannagrænum stuttbuxum með tveimur fellingum að framan, sitt hvorum megin við rennilásinn. Undir stuttbuxunum var hún í sokkabuxum sem náðu upp fyrir buxnastrenginn. Það sást greinilega því hún var ekki í neinu undir óþekktarleðurjakkanum – svona óþekktarleðurjakka eins og John Travolta klæddist í kvikmyndinni Grease þegar hann fór með hlutverk Dannys Zukos. Mestu gellurnar árið 1978, þegar Grease var frumsýnd, féllu náttúrlega í stafi yfir Zuko, persónutöfrum hans og kannski klæðaburði. Það var enginn svalari en John Travolta. Í framhaldinu reið yfir John Travolta-bylgja um heiminn þar sem flestir kynþroska karlar vildu líkjast kauða.
Kannski eru einhver hugrenningatengsl þarna því Theron, sem fæddist 1975, var þriggja ára þegar Grease var frumsýnd, og líklega hefur þessi stíll sogast inn í undirmeðvitundina án þess að hún fattaði það. Stíllinn var allavega lifandi kominn þarna í París.
Það var þó eitt nýtt tvist í þessu: að klæðast víðum stuttbuxum við Danny Zuko-óþekktarjakka. Gellur sem eru fastar í tímabili sem er liðið hefðu líklega valið þröngar buxur við, niðurmjóar gulrótarbuxur, en ekki Theron. Hún er ekki föst í úreltum hugmyndum um smartheit og skilgreinir fatastíl sinn ekki út frá eigin aldri. Hún tekur nýjustu tískustrauma og eignar sér þá. Það er þannig sem þarf að gera þetta því það er ekkert eins dapurt og fólk sem er fast í tískustraumum sem virkuðu þegar það var upp á sitt besta – en virkar svolítið eins og súr G-mjólk í hversdagsleikanum.
Ef við viljum ekki vera eins og útrunnar G-mjólkurvörur þá þurfum við að gera slíkt hið sama. Við þurfum að draga fram Tenerife-stuttbuxurnar og klæðast þeim í vetur. Þannig er hægt að sýna ákveðna ráðdeild og þóknast Þórarni Gunnari Péturssyni, vini mínum í Seðlabankanum, og Ásgeiri Jónssyni, best klædda bankastjóra landins. Þeir vilja alls ekki að við séum að eyða peningum í rugl. Þeir vilja minnka verðbólguna.
Það er þó eitt sem ég myndi gera öðruvísi ef ég væri Theron. Ég hefði farið í bol og verið í honum undir Danny Zuko-óþekktarjakkanum. En það er nú bara vegna þess að ég vil ekki að vömb mín kælist um of þegar haustlægðirnar birtast hver af annarri.