Leikkonan Demi Moore frumsýndi nýja hárgreiðslu á tískuvikunni í Mílanó á dögunum og skartar nú dökku síðu hári og topp. Hún birti myndir af sér af þessu tilefni á samfélagsmiðlum og rifjaði upp dagana þegar hún var síðast með þessa hárgreiðslu.
„Toppur - nú og þá. Takk Gucci fyrir að leyfa mér að vera aftur með topp, í fyrsta skiptið frá Striptease-dögunum,“ skrifaði hún undir myndirnar.
Moore hefur vakið athygli fyrir færsluna og sérstaklega þar sem hún þykir mjög ungleg á myndinni. Hún er 62 ára gömul en lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 25 ára á myndinni.
Árið 1996 lék Moore strippara í kvikmyndinni Striptease og olli bæði hneykslun og aðdáun. Moore fékk um 12,5 milljónir dala í laun sem gerði hana að hæst launuðu leikkonu heims en myndin sjálf fékk blendnar viðtökur og var harðlega gagnrýnd. Þrátt fyrir það hefur hún síðar sagt að Striptease hafi verið mikilvæg reynsla sem opnaði umræðu um líkamsímynd, fordóma og kvenhlutverk í Hollywood.
Á tískuvikunni í Mílanó sýndi ítalska tískuhúsið nýja stuttmynd, The Tiger, með Moore í aðalhlutverki. Það sem stóð upp úr þar á meðal aðdáenda var einmitt síða dökka hárið. Þetta verkefni sameinar tísku og kvikmyndalist á áhrifaríkan hátt og markar nýtt tímamót í stefnu Gucci undir Demna Gvasalia.