Förðunar- og viðskiptafræðingarnir Heiður Ósk Eggertsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir eru á bak við snyrtivörumerkið Chilli In June og eigendur Reykjavík Makeup School. Þær hafa þekkst í rúmlega fimmtán ár og var það sameiginleg ástríða fyrir förðun og snyrtivörum sem dró þær saman. Þær komust að því árið 2019 að draumurinn væri að stofna eigið förðunarmerki.
„Fljótlega kom í ljós að slíkt verkefni krefðist talsverðs fjármagns, og til að safna því ákváðum við að halda námskeið sem við kölluðum „Snyrtinámskeið“, þar sem við kenndum fólki að farða sig með sínum eigin vörum,“ segir Heiður.
„Við fengum ótal spurningar um hvernig við ætluðum að fara að þessu, og hvort það væri raunhæft fyrir tvær stelpur frá Íslandi að stofna sitt eigið förðunarmerki? En eftir rúmlega fjögur ár af harki, þrautseigju og elju kom loks okkar fyrsta vara á markað í september 2023.“
Í dag eru þær enn einu eigendurnir og starfsmenn merkisins og eru staðráðnar í að halda áfram að byggja það upp og koma því til fleiri landa. Þær vinna náið saman í ferlinu, allt frá hugmyndavinnu yfir í formúlugerð til lita, hönnunar, umbúða og flutnings.
Þær segja eðlilegt að íslenskt vörumerki gefi húðinni þann ljóma og hlýju sem ekki fæst með sólarleysinu. Á dögunum kynntu þær nýja vöru til leiks sem þær kalla The Bronzing Gel.
„Það er létt, húðbætandi gel sem gefur fallegan, náttúrulegan lit og ljóma án þess að þyngja húðina. Það bráðnar bókstaflega inn í húðina og skilur eftir sig mjúka, jafna áferð og sólkysstan gljáa sem lítur út eins og maður hafi verið kysstur af sólinni,“ segir Heiður.
„Varan er þróuð í nánu samstarfi við framleiðanda okkar á Ítalíu með áherslu á hrein, húðvinaleg, hágæða hráefni og viljum við að áferðin láti húðina líta út eins og hún sé náttúrulega ljómandi.“
Af hverju bronzing-gel?
„Við vildum búa til vöru sem hentar íslenskum viðskiptavinum. Við vitum mjög vel að við fáum ekki mikla sól yfir árið og vildum því búa til vöru sem myndi gefa fólki sólarkysst útlit án þess að þurfa sólina sjálfa.
Við höfum báðar alltaf elskað ljómandi húð og langaði okkur að skapa vöru sem gefur lit og ljóma ásamt því að jafna húðlitinn á sama tíma. Í raun var þetta draumavaran sem okkur sjálfar vantaði í snyrtitöskuna, og það varð upphafið að The Bronzing Gel.“
Hvernig er best að nota vöruna?
„Þetta er mjög fjölnota vara. Það er hægt að nota það eitt og sér fyrir náttúrulegan ljóma, undir farða sem grunn, yfir farða til að fá meiri dýpt og lit eða blandað út í farða til að gera hann ljómandi,“ segir Heiður.
„Blanda út í dagkremið, þetta er trix sem við erum að kenna mörgum karlmönnum. Það virkar líka fallega á axlir, bringu eða handleggi og alls staðar þar sem maður vill fá smá lit og ljóma,“ segir Ingunn.
Þær segja umbúðirnar skipta gríðarlega miklu máli enda eru þær miklir fagurkerar.
„Við viljum að viðskiptavinurinn upplifi þennan „wow-factor“ þegar hann kaupir vörur frá okkur. Umbúðirnar þurfa að endurspegla vöruna sjálfa og silfraða, spegilglansandi hönnunin á The Bronzing Gel er táknræn fyrir ljómann sem varan gefur. Við vildum að hún yrði jafn falleg á baðherbergishillunni og hún er á húðinni.“
Heiður og Ingunn eru með margar spennandi vörur í þróun og er næsta vara á dagskrá eitthvað sem margir hafa beðið eftir að þeirra sögn.
„Þróunarferlið tekur alltaf sinn tíma og við segjum í gríni að það að þróa eina snyrtivöru sé svipað og að ganga í gegnum eina til tvær meðgöngur. Við erum líka að vinna í því að breikka litaúrvalið á núverandi vörum svo þær henti fleiri húðtónum. Markmið okkar er að halda áfram að vaxa og koma Chilli in June til fleiri landa og það er margt mjög spennandi fram undan í þeim málum líka.“