Ofurfyrirsætan og athafnakonan Hailey Bieber, eiginkona Justins Bieber, klæddist skóm frá íslenska skó- og fylgihlutamerkinu Kalda í bandaríska tímaritinu Wall Street Journal. Bieber var í veglegu forsíðuviðtali við tímaritið og fylgdi því nokkurra síðna myndaþáttur.
Skórnir sem Bieber klæðist heita Kana Sandal. Þetta eru mínimalískir og opnir skór með 8,5 sm hæl. Á skónum eru þó óvænt smáatriði eins og einkennir Kalda eins og fínar ólar og stálhæll. Skórnir kosta 57.100 krónur á heimasíðu Kalda.
Katrín Alda Rafnsdóttir er eigandi og hönnuður merkisins sem var stofnað árið 2016. Í viðtali Smartlands við Katrínu á síðasta ári sagðist hún selja mikið til útlanda og þá aðallega til Bandaríkjanna. Stjörnur á borð við Lady Gaga, Elsu Hosk, systurnar Gigi og Bella Hadid og Emma Corrin hafa allar klæðst skóm eða borið tösku frá Kalda.
„Ég er með almannatengil í London sem sér um að senda stílistum þeirra, það fer oft í gegnum þau eða í gegnum Instagram,“ sagði Katrín Alda í viðtali við Smartland.
Bieber er gríðarlega þekkt í tískuheiminum og þykir mikil fyrirmynd þegar kemur að persónulegum stíl. Ásamt fyrirsætuferlinum er hún einnig stofnandi snyrtivörumerkisins Rhode sem nýtur mikilla vinsælda um heim allan.