Einn mest spennandi dagur í lífi barna og mögulega fullorðinna – þó ekki undirritaðrar – er á morgun. Það verður „spennandi“ að stíga út í slabbið og fylgja börnunum um hverfið þegar þau banka upp á í nærliggjandi húsum og sníkja sælgæti.
Heimatilbúnir búningar eru eflaust besti sparnaðurinn á annars kostnaðarsömum tímum þegar virðist sem markhópur flestra verslana sé yngsta kynslóðin. Sparnaðurinn verður þó ekki mikill ef ný flík er eyðilögð.
Undirrituð lenti heldur betur í bobba þegar dóttirin var á leið í hrekkjavökupartý í síðustu viku og vildi vera „dauð dúkka“. Daman klæddist glænýjum hvítum stuttermabol og í flýti, því hún var að verða of sein í partýið, þegar ég var að sulla á hana gerviblóði – eftir að hún var komin í bolinn – kom blettur í hann.
Google var með ýmis ráð eins og að ná blettinum ferskum úr með köldu vatni en það var ekki möguleiki því dóttirin var þegar horfin í partýið. Ráðin voru fleiri eins og að nota hvítt edik, barnapúður o.s.frv. Ég nennti engu veseni og hringdi því í móður mína – mömmur vita allt og oft meira en Google.
Þegar partýið var búið fékk ég bolinn í hendurnar, tók grænan uppþvottalög og nuddaði á blettinn með blautum klút, svo hann dofnaði. Því næst setti ég blettasprey og þvoði á 40 °C með þvottaefni fyrir hvítan þvott, ásamt venjulegu þvottaefni.
Bletturinn hvarf með öllu en lófarnir á mér voru þó rauðir fram á næsta dag.