Það þarf vart að kynna hina einu sönnu Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokks Íslands, fyrir landsmönnum. Hún hefur frá fyrstu tíð vakið athygli fyrir hlýja framkomu, litríkan stíl og einlægan áhuga á fólki og samfélaginu sem hún þjónar. Í henni býr þessi fallega blanda af gleði, sköpunarkrafti og trú á eigin sannfæringu – og það sést í einu og öllu sem hún gerir.
Sanna Magdalena, ein sex kvenna sem bera þetta fallega nafn samkvæmt Hagstofu Íslands, hefur alla tíð haft gaman af fötum og fylgihlutum og lítur á fatnað sem hluta af sjálfstjáningu – leið til að segja sögur og fagna fjölbreytileika mannlífsins. Það kemur varla á óvart, enda er hún mannfræðingur að mennt og brennur fyrir öllu sem tengist mannlífinu.
„Það er gaman að segja frá því að ég þurfti leyfi mannanafnanefndar til að fá að heita Sanna,“ segir hún, áður en samtalið berst að fatastíl hennar, uppáhaldsflíkum og best klædda einstaklingnum í borgarstjórn – að hennar mati.“
Áður en Sanna Magdalena fór út í pólitík hafði hún þegar prófað ýmis störf – enda verið drífandi og metnaðarfull frá blautu barnsbeini.
„Fyrsta starfið mitt var í blaðburði,“ segir hún. „Ég var mjög áköf í að komast í vinnu og lét ekkert stoppa mig. Svo vann ég lengi vel á Serrano þar sem ég lærði að vefja búrrító – og ég er mjög ánægð með að kunna það vel.“
Sanna Magdalena elskar að klæðast fallegum flíkum og leggur mikinn metnað í að setja saman „dress“ sem endurspeglar persónuleika hennar.
„Fatastíllinn minn er litríkur,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst gaman að vera í einhverju sem ólíklegt er að einhver annar sé í.“
Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„Ég nota oftast dökkar buxur sem grunn og vel síðan litríkar skyrtur og jakka, og stundum kjóla,“ segir hún. „Ég er mikið á ferðinni í strætó þannig að ég reyni að klæða mig eftir veðri, í viðeigandi yfirhöfn og með klút um hálsinn – sérstaklega þegar það fer að kólna.“
En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?
„Ég er að reyna að vera fín flesta daga, þar sem lífið er gjöf sem ég vil klæða mig upp fyrir,“ segir hún.
„Þegar ég er að fara eitthvað fínt reyni ég að vera í einhverju sem ég hef ekki nýlega verið í og vel eyrnalokka með. Dagsdaglega er ég oftast með eitt par af eyrnalokkum en þegar ég fer eitthvað fínt þá nota ég oft fleiri lokka, þar sem ég er með mörg göt í eyrunum – samtals tíu.
Mér finnst líka gaman að klæða neglurnar í skrautbúning með litríku naglalakki.“
Sanna Magdalena segir fatastílinn hafa þróast með árunum og að hún hugsi nú meira út í hvað passi vel saman.
„Áður fyrr fór ég meira bara í eitthvað, sem var oft mjög, mjög litríkt, en núna er ég meðvitaðri um að velja liti sem mér finnst passa vel saman.“
Hvort finnst þér skipta meira máli: þægindi eða útlit?
„Þægindi eru númer eitt, tvö og þrjú! En útlit skiptir líka máli – ég gæti ekki ímyndað mér heila viku í öllu svörtu frá toppi til táar. Litir gera svo mikið fyrir mig og gleðja mig.“
Áttu flík sem þú grípur alltaf í þegar þú veist ekki hvað þú átt að fara í?
„Já, það er oftast skyrta sem er hvít með ljósfjólubláu og dökku mynstri,“ segir hún.
Aðspurð um uppáhaldsflíkina úr æsku segir Sanna Magdalena það hafa verið blettatígurs-leggings.
„Ég var mjög hrifin af blettatígurs-leggings sem ég átti, enda var ég alltaf að þykjast vera Mel B í Spice Girls þegar ég var yngri,“ segir hún og heldur áfram:
„Svo átti ég svartan kjól þar sem búið var að sníða út sérstakt hjartamynstur á bringunni og ég var mjög hrifin af honum.“
Sanna Magdalena gekk í breskan skóla um tíma sem barn og þurfti að klæðast skólabúningi sem var ekki beint í uppáhaldi.
„Ég bað mömmu oft að koma með föt fyrir mig til skiptanna þegar hún sótti mig eftir skóla, svo ég gæti farið í mín eigin föt strax að skóladegi loknum – og ég hafði yfirleitt valið þau fyrir fram. Ég vildi ekki vera í skólabúningnum lengur en nauðsynlegt var.“
Hefur einhver í fjölskyldu þinni eða vinahópi haft áhrif á stílinn þinn?
„Mamma mín hefur haft áhrif á fatastílinn minn, þar sem hún hefur í gegnum tíðina haft einstakt lag á því að finna ódýrar, flottar og vandaðar flíkur á okkur – oft í búðum sem selja notuð föt. Ég fékk líka ýmsar flottar og einstakar flíkur gefins sem krakki frá vandamönnum.
Ég ólst upp við að grúska í búðum sem selja notaðar flíkur til að finna eitthvað flott, og þar lærði ég að finna öðruvísi flíkur. Það hefur fylgt mér í gegnum tíðina.“
Sanna Magdalena er lítið fyrir það að elta tískustrauma og kýs frekar að fara eftir eigin tilfinningu.
„Ég fylgist ekki með tískustraumum og hef aldrei skilið hver hefur valdið til að móta hvað sé talið vera í tísku hverju sinni,“ segir hún.
„Ég fer eftir eigin tilfinningu. Mér finnst mjög leiðinlegt þegar fólk fylgir utanaðkomandi áhrifum frekar en því sem heillar það sjálft mest.“
Hvaðan sækir þú innblástur þegar þú setur saman dress?
„Ég reyni bara að hafa það sem litríkast og að sniðin passi vel saman. Það er til dæmis mjög óþægilegt að vera í þröngum jakka yfir víðri skyrtu og þegar ermarnar byrja að vöðlast saman – það er nokkuð sem ég reyni að forðast,“ segir hún.
„Mér finnst líka gaman að velja skemmtilega fylgihluti með til að „poppa“ upp á „outfittið“ – áberandi eyrnalokka, litríkar töskur og litríkan augnskugga ef ég er í stuði.“
Hvaða „tískutrend“ myndir þú vilja að kæmi aftur í tísku?
„Skærir litir – eins og frá níunda áratugnum.“
Er eitthvað tískutrend sem þú skilur alls ekki hvernig varð vinsælt?
„Óþægileg föt,“ segir hún og hlær. „Hver fann eiginlega upp á támjóum pinnahælum?“
Og öfugt – er eitthvað tískutrend sem þér finnst vanmetið og ætti að vera miklu vinsælla?
„Skærir litir! Ég skil ekki allt þetta svarta, gráa, dökkbláa og drappaða sem er í tísku.“
Aðspurð um bestu fatakaupin segir Sanna Magdalena það vera litríkan regnstakk – nauðsynjaeign á Íslandi.
„Já, bestu fatakaupin eru litríkur regnstakkur sem er með marga liti á sér. Hann er flæðandi og víður, þannig að hann kemst yfir tösku líka, og svo er hægt að pakka honum saman í poka sem fylgdi með. Flott og þægilegt!“
Blaðamaður verður auðvitað líka að forvitnast um verstu fatakaupin.
„Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinu. Ég reyni alltaf að gera það besta úr kaupunum mínum. Einu sinni keypti ég til dæmis æðislegan, ermalausan, gulan bol – og fattaði löngu síðar að þetta hafði verið selt sem stutt pils. En mér fannst þetta virka bæði sem bolur og pils,“ segir hún og hlær.
Áttu þér uppáhaldsfatamerki eða búðir til að versla í?
„Ég á ekkert uppáhaldsfatamerki en uppáhaldsbúðirnar mínar eru „second hand“-búðir sem selja notaðar flíkur. Það er svo gaman að finna eitthvað nýtt og ódýrt – og það er líka betra fyrir umhverfið.
Í þessum búðum opnast líka heill heimur fyrir manni, því maður veit aldrei fyrir fram hvað er í boði,“ segir hún.
Áttu þér uppáhaldslit?
„Það er erfitt að svara því,“ segir hún. „Má segja regnboginn? Annars væri uppáhaldsliturinn minn rauður.“
Hvað er á óskalistanum þínum?
„Á óskalistanum er skærgulur jakki.“
Talið berst að best klædda einstaklingnum í borgarstjórn. Sanna Magdalena segir konurnar koma sterkar inn með skemmtilegan fatastíl.
„Þau eru nokkur með stíl sem mér persónulega finnst mjög skemmtilegur, hvað varðar liti og mynstur. Konurnar eru allar að koma sterkt inn – og það væri gaman að sjá fleiri í borgarstjórn í aðeins litríkari fötum,“ segir hún.
Að lokum varð blaðamaður að forvitnast um best klædda einstaklinginn í heiminum í dag – að mati Sönnu Magdalenu.
„Ég er heilluð af þeim sem fara ótroðnar slóðir í fatavali og klæða sig með tjáningarríkum hætti. Það eru best klæddu einstaklingarnir, að mínu mati,“ segir hún.