Skagamenn Íslandsmeistarar

Ólafur Þórðarsson þjálfari ÍA fær flugferð hjá Skagamönnum eftir að ...
Ólafur Þórðarsson þjálfari ÍA fær flugferð hjá Skagamönnum eftir að titilinn var í höfn. Mbl.is/RAX
ÍA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í Vestmannaeyjum í dag. ÍA gerði 2:2 jafntefli við ÍBV og það dugði Skagamönnum til að sigra í Símadeildinni. ÍA byrjaði leikinn mjög vel og komst í 0:2 eftir aðeins 17. mínútur. Tómas Ingi Tómasson náði að koma Eyjamönnum aftur inn í leikinn með tveimur mörkum. ÍBV pressaði mjög stíft undir lok leiksins en Skagamenn vörðust vel og náðu að halda jafnteflinu. Lokastaðan í Símadeildinni:
          L U J T Mörk Stig
 1. ÍA      18 11 3 4 29:16 36
 2. ÍBV     18 11 3 4 23:15 36
 3. FH      18 9 5 4 23:16 32
 4. Grindavík  18 9 0 9 27:29 27
 5. Fylkir    18 7 4 7 26:23 25
 6. Keflavík   18 6 5 7 27:30 23
 7. KR      18 6 4 8 16:20 22
 8. Fram     18 6 2 10 28:28 20
 9. Valur    18 5 4 9 19:26 19
 10. Breiðablik  18 4 2 12 17:32 14
Leiknum var lýst beint hér á mbl.is. Að neðanverðu má sjá lýsinguna í heild sinni:

2. mínúta Leikur ÍBV og ÍA í Vestmannaeyjum er hafinn.

4. mínúta Eyjamenn fá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig.

4. mínúta Bjarnólfur Lárusson tók spyrnuna en skaut yfir mark ÍA.

7. mínúta Kári Steinn Reynisson hefur skorað fyri ÍA af stuttu færi, eftir að Birkir Kristinsson varði skot frá Grétari Steinssyni. Gestirnir eru því komnir með forystu.

9. mínúta Sigurður Sigursteinsson gefur Eyjamönnum hornspyrnu.

9. mínúta Skagamenn hreinsa frá eftir hornspyrnu Bjarnólfs.

11. mínúta Aukinn hraði hefur færst í leikinn. Eyjamenn eiga innkast við vítateig Skagamanna.

12. mínúta Skagamenn fá markspyrnu, Ólafur Þór Gunnarsson spyrnir frá marki.

13. mínúta Fyrirgjöf Atla Jóhannssonar frá vinstri fer aftur fyrir mark Skagamanna.

15. mínúta Skagamenn fá aukaspyrnu vinstra megin á vallarhelmingi ÍBV. Boltinn fer aftur fyrir og ÍA á hornspyrnu.

15. mínúta Eyjamenn skalla frá eftir hornið, en Ellert Jón gefur fyrir markið frá hægri, og ÍA fær aðra hornspyrnu.

16. mínúta Ellert tekur hornið en ekkert varð úr henni.

17. mínúta Hjálmur Dór reynir langskot úr aukaspyrnu og ÍBV bjarga í horn.

17. mínúta Sigurður Sigursteinsson fékk boltann eftir hornspyrnuna og skoraði með yfirveguðu skoti.

19. mínúta Hjörtur Hjartarsson ÍA liggur eftir stimpingar við Pál Hjarðarsson, en ÍBV fær aukaspyrnuna.

20. mínúta Hjálmur Dór Hjálmsson ÍAfær gula spjaldið eftir brot á Inga Sigurðssyni ÍBV.

21. mínúta Ólafur Þór Gunnarsson grípur fyrirgjöf Tómasar Inga Tómassonar.

23. mínúta Gunnlaugur Jónsson spyrnir frá marki ÍA, Bjarnólfur gefur aftur inn í teiginn þar sem Ólafur Þór hirðir boltann.

24. mínúta Varnarmaður ÍBV ver skot Kára Steins eftir skyndisókn ÍA.

25. mínúta Tómas Ingi Tómasson minnkar muninn með glæsilegu marki. Bjarnólfur gefur fyrir frá hægri, Tómas tók knöttinn á brjóstið og afgreiddi boltann yfir Ólaf Þór.

27. mínúta Eyjamenn vildu fá vítaspyrnu er einn sóknarmaður þeirra datt í teignum eftir aukaspyrnu frá hægri.

28. mínúta Egill Már dæmir hendi á Tómas Ingi í vítateig ÍA.

32. mínúta Skagamenn fá aukaspyrnu vinstra megin á vallarhelmingi ÍBV.

33. mínúta Aukaspyrnu Sigurðar fer aftur fyrir endamörk.

34. mínúta Páll Hjarðar ÍBV fær gult spjald fyrir brot á Hirti Hjartarsyni ÍA.

34. mínúta Tómas Ingi vill fá vítaspyrnu, er Reynir Léosson virtist hindra hann í vítateig ÍA.

35. mínúta Baldur Aðalsteinsson reynir skot af löngu færi sem Birkir Kristinsson grípur örugglega.

37. mínúta ÍA fær markspyrnu eftir að Bjarnólfur missti boltann of langt frá sér.

40. mínúta Ólafur Þór ver glæsilega þrumuskot frá Gunnari Þorvaldssyni úr vítateignum.

41. mínúta Ólafur grípur boltann eftir hornspyrnu ÍBV.

42. mínúta Kári Steinn liggur eftir á vellinum en er staðinn upp aftur.

44. mínúta Tómas Ingi reynir skot frá vítateigslínu en í varnarmann ÍA.

45. mínúta Birkir Kristinsson grípur fyrirgjöf frá vinstri.

45. mínúta Ellert Jón Björnsson skýtur boltanum fram hjá marki ÍBV af löngu færi.

45. mínúta Kári Steinn með slakt skot fram hjá marki ÍBV.


45. mínúta Egill Már Markússon flautar til leikhlés og staðan í hálfleik ÍBV 1:2 ÍA.

46. mínúta Síðari hálfleikur er hafinn.

48. mínúta Daninn Tommy Schram fékk að líta gula spjaldið hjá Agli eftir brot á Kára Steini.

52. mínúta Síðari hálfleikur fer rólega af stað, þar sem liðin eru að þreifa fyrir sér.

55. mínúta Bjarnólfur Lárusson skaut yfir mark ÍA af löngu færi.

55. mínúta ÍA fær aukaspyrnu vinstra megin við vítateig ÍBV. En Reynir Leósson brýtur af sér í teignum og ÍBV fær aukaspyrnu.

57. mínúta Varnarmenn Skagamanna hreinsa frá marki sínu á síðustu stundu eftir langt innkast.

58. mínúta Ingi Sigurðsson reynir skot sem varnarmaður ÍA ver í innkast.

59. mínúta ÍBV sækir stíft að marki ÍA þessa stundina.

60. mínúta Tómas Ingi Tómasson hefur jafnað leikinn fyrir ÍBV með öðru marki sínu í leiknum. Tómas tók boltann viðstöðulaust og lagði boltann í fjærhornið eftir að hafa fengið langa sendingu inn fyrir vörnina.

60. mínúta Hjörtur Hjartarson reynir skot úr vítateignum vinstra megin sem Birkir ver.

61. mínúta Sturlaugur Haraldsson kemur inn á sem varamaður í lið ÍA í stað Hjálms Hjálmssonar.

62. mínúta Verði jafntefli niðurstaðan í leiknum, þá verður ÍA Íslandsmeistari.

63. mínúta Grétar Steinsson lék laglega inn í vítateig ÍBV en skot hans fór vel yfir mark ÍBV.

67. mínúta Birkir grípur boltann eftir aukaspyrnu frá ÍBV.

67. mínúta Grétar Steinsson liggur á vellinum og virðist kvalinn. Sjúkraþjálfari ÍA athugar vinstri fótlegg hans.

69. mínúta Gott skot frá Tommy Schram hafnar í hliðarnetinu utan frá á marki ÍA.

71. mínúta Gunnlaugur Jónsson fyrirliði ÍA fær gult spjald fyrir að brjóta á Tómasi Inga aftan frá. Tómas Ingi liggur eftir á vellinum.

77. mínúta Boltinn gengur nú á milli vallarhelminga án þess að liðin skapi sér nein færi.

79. mínúta Eyjamenn fá aukaspyrnu inn á vallarhelmingi ÍA.

79. mínúta Bjarnólfur reynir skot en Ólafur grípur boltann örugglega enda færið 40m.

82. mínúta Hjalti Jónsson ÍBV reynir skot en boltinn fer langt fram hjá marki Ólafs.

82. mínúta Sigurður fiskar markspyrnu. ÍBV sækir nú mun meira enda þurfa þeir mark til þess að tryggja sér sigur í deildinni.

83. mínúta Egill Már gefur Bjarnólfi gula spjaldið fyrir brot á Ellert.

83. mínúta Gunnar Þorvaldsson fer af velli hjá ÍBV og í hans stað kemur Unnar Ólafsson.

84. mínúta Aukaspyrna dæmt á Kára Stein fyrir að brjóta á Birki í úthlaupi.

85. mínúta Alexander Ilic kemur inn á í lið ÍBV fyrir Hjalta Jónsson.

87. mínúta Hlynur Stefáns reynir sendingu inn í vítateig ÍA sem fer aftur fyrir endamörk.

87. mínúta Bjarnólfur reynir þrumuskot af löngu færi sem fer rétt fram hjá marki ÍA.

87. mínúta Tómas Ingi reynir skot fyrir utan vítateig ÍA sem fer í Pálma Haraldsson.

88. mínúta Tómas Ingi skorar í tómt mark ÍA eftir að ÍA tók aukaspyrnu, en Egill var ekki búinn að flauta og því verður aukaspyrnan tekin á ný.

90. mínúta Tommy Schram tekur langt innkast en ekkert verður úr því.

90. mínúta Sturla Guðlaugsson er kominn inn á sem varamaður fyrir Grétar Steinsson.

90. mínúta ÍBV fær aukaspyrnu vinstra megin á vallarhelmingi ÍA.

90. mínúta Páll Hjarðar skallar knöttinn yfir mark ÍA eftir aukaspyrnu Bjarnólfs.

90. mínúta ÍBV fær aukaspyrnu rétt innan við miðju. Bjarnólfur fær boltann en skýtur yfir af nokkuð löngu færi.

90. mínúta Ingi stelur boltanum en fyrirgjöf hans fer aftur fyrir mark ÍA. Tvær mínútur eftir.

90. mínúta ÍA fær markspyrnu, 90 sekúndur eftir.

90. mínúta Hlynur Stefánsson fær aukaspyrnu.

90. mínúta Atli tekur spyrnuna en boltinn fer aftur fyrir endamörk.

90. mínúta Ólafur tekur markspyrnu, 30 sekúndur eftir að viðbótartíma.

90. mínúta Reynir fær aukaspyrnu við eiginn vítateig.

90. mínúta ÍBV fær hornspyrnu.

90. mínúta Egill Már Markússon flautar til leiksloka og Akranes er Íslandsmeistari í knattspyrnu karla árið 2001!

mbl.is