Leystum sterka vörn ÍA ágætlega

Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, sagði sína menn hafa staðið sig mjög vel í fyrri hálfleik gegn ÍA, en heldur dottið niður í þeim síðari. Leiknum lauk með jafntefli 1:1.„Við leystum þessa sterku vörn Skagamanna ágætlega, en ekki betur en svo að við gerðum bara eitt mark. Við fengum góð færi til að skora fleiri mörk en gerðum það ekki, þannig að við verðum að vinna í því.“

Athygli vakti að 17 ára piltur, Jóhann Berg Guðmundsson, var í byrjunarliðinu í stað Marels Baldvinssonar, en þetta var fyrsti leikur Jóhanns í Landsbankadeildinni. „Jóhann er mjög efnilegur og búinn að standa sig vel, og hann komst vel frá sínu. Hann er mjög áræðinn og djarfur að fara maður á móti manni, og við hvetjum hann til þess.“

Engum sögum fer af viðbrögðum Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara ÍA, né lærisveina hans við úrslitunum. Skagamenn neituðu að ræða við blaðamann Morgunblaðsins eftir leikinn. 

mbl.is