Elísabet Gunnarsdóttir: Meiriháttar að fá svona leik í lokin

Elísabet Gunnarsdóttir gefur skipanir til sinna leikmanna.
Elísabet Gunnarsdóttir gefur skipanir til sinna leikmanna. mbl.is/hag

Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Íslandsmeistara Vals segir að tvö álíka sterk lið eigist við í dag en Valur og KR leika til úrslita í Visabikarkeppni kvenna á Laugardalsvelli klukkan 16 í dag.

,,Þetta er tvö bestu lið landsins sem hafa marga góða styrkleika og það er meiriháttar að fá svona leik til að enda tímabilið hér heima,“ sagði Elísabet Gunnardóttir þjálfari Vals við mbl.is.

Hverjir eru helstu styrkleikar KR-liðsins að þínu mati?

,,Við verðum að loka á uppspilið sem kemur í gegnum Olgu og Hrefnu. Þær gegna lykilhlutverki í þeirra sóknarleik og við þurfum líka að hafa góðar gætur á Hólmfríði á vinstri kantinum og passa að hún verði ekki mikið í boltanum. Varnarlega er KR-liðið sterkt, markvarslan er betri hjá liðinu en undanfarin ár og við erum bara að fara mæta mjög góðu liði,“ sagði Elísabet.

Hvað þurfið þið að gera til að hampa titlinum?

,,Við verðum bara að spila af 100% getu og vera mjög einbeittar. Ef okkur tekst það þá er ég sannfærð um að sigurinn endar okkar megin. Liðin eru nokkuð jöfn að styrkleika og það er ekki sem ber mikið á milli. Mér fannst við vinna sanngjarnt í fyrri umferðinni og í seinni umferðinni var sigur KR sanngjarn. Hungrið er því pottþétt báðum megin og ég held að bæði lið komi dýrvitlaus til leiks.“

Nú hafið þið staðið í ströngu í Evrópukeppninni. Sitja þeir leikir eitthvað í þínu liði?

,,Nei ekki nema á jákvæðan hátt. Í ferðinni náðum við að þjappa hópnum vel saman og mynda ákveðna stemningu. Ég óttast alls ekki að mínir leikmenn séu orðnir saddir. Það er lengur vegur frá því. Við misstum af bikarnum í fyrra og það kemur ekki til greina að gera það aftur. Ég get ekki ímyndað mér annað en að leikurinn verði stórskemmtilegur og ég reikna með því að sóknarfótbolti verði uppi á teningnum hjá báðum liðum,“ sagði Elísabet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert