Björgólfur: Lagði aðeins meiri áherslu á að skora sjálfur

Björgólfur hefur verið frábær fyrir KR í sumar.
Björgólfur hefur verið frábær fyrir KR í sumar. mbl.is/Eggert

„Ég hef nú ekki skorað svona mörg mörk í leik en ég held ég hafi nú náð því á æfingu áður. Ég klúðraði samt 2-3 dauðafærum og það skemmtilega við hausinn á manni er að það situr alltaf frekar í manni. En ég er mjög sáttur við daginn og að vinna svona stóran sigur hérna í lokaleik mótsins,“ sagði Björgólfur Takefusa markakóngur Pepsideildarinnar 2009 en hann gerði fimm mörk í sigri KR á Val í dag.

Undirritaður var ekki frá því að meiri markagræðgi hefði einkennt leik Björgólfs í dag en stundum áður en hann mátti vart fá boltann án þess að reyna skot á markið.

„Fannst þér það? Ég er nú ekki sammála því. Ég var aðallega að hugsa um að leggja upp á félagana,“ sagði Björgólfur léttur en viðurkenndi svo að kannski væri eitthvað til í þessu.

„Þegar mér fannst sigurinn vera kominn leyfði ég mér kannski að leggja aðeins meiri áherslu á að ég skoraði en að einhverjir aðrir gerðu það,“ sagði Björgólfur sem lét til að mynda félaga sinn Gunnar Örn Jónsson heyra það eitt sinn í leiknum þegar Gunnar leyfði sér að taka skot í stað þess að gefa á Björgólf.

Þetta er annar gullskór Björgólfs því hann varð einnig markakóngur með Þrótti árið 2003 og þá á hann tvo silfurskó en hann varð næstmarkahæstur á síðustu leiktíð á eftir Guðmundi Steinarssyni úr Keflavík.

„Stundum dettur maður í gírinn“ 

“Ég sagði fyrir mótið að ég vildi fá bronsskóinn, eða alla vega annað hvort bronsskóinn eða gullið og það er náttúrulega sætara að hafa náð gullinu,“ sagði Björgólfur sem kom „bakdyramegin“ inn í baráttuna um gullskóinn því hann hafði hægt um sig framan af móti en skoraði svo í sjö leikjum í röð og kórónaði frábæra frammistöðu sína í sumar með mörkunum fimm í dag.

„Þetta fór að ganga ansi vel þarna um mitt tímabilið og ég veit ekki alveg ástæðuna fyrir því. Stundum dettur maður bara í gírinn og þetta er líka spurning um hvernig sjálfstraustið er og hvernig liðið spilar. Svo vonar maður að þetta haldist bara sem lengst og þessu lauk ansi skemmtilega í dag,“ sagði Björgólfur sem þvertók fyrir að hafa skipað samherjum sínum að einbeita sér að því að leggja upp mörk fyrir sig í dag.

„Ég var nú ekkert að leggja á það áherslu en maður treysti bara á að þeir myndu gefa á mann og það gekk eftir í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina