Bjarni Jóhannsson: Fögnin hafa truflað

Frá leik ÍBV og Stjörnunnar í Eyjum í dag.
Frá leik ÍBV og Stjörnunnar í Eyjum í dag. mbl.is/SIgfús

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar sagði í leikslok að margt hafi orðið til þess að trufla leikmenn Stjörnunnar í undanförnum leikjum.  Hann var þó ekki allskostar ósáttur við spilamennsku liðsins í Eyjum í dag en ÍBV sigraði 2:1.

„Vestmannaeyingarnir byrjuðu gríðarlega vel og voru kraftmiklir fyrsta hálftímann.  Við vorum í bölvuðu basli með þá í byrjun og töpum hreinlega leiknum í þessum leikhluta.  En mér fannst við spila seinni part fyrri hálfleiks og seinni hálfleik ágætlega og við reyndum allt til að jafna þetta.  En vörn Vestmannaeyinga stóð bara vaktina vel.  Við settum samt smá pressu á þá og smá skjálfta í Eyjamenn.“

Er ekkert erfitt að halda haus í lok móts þegar liðið siglir lygnan sjó í deildinni?

„Við reynum bara að fara í hvern einasta leik til að standa okkur almennilega og ekki hægt að saka okkur um annað.  Við erum kannski að gera mistök sem við gerum kannski ekki á góðum dögum.  En það er búið að vera mikið að gera hjá okkur í skemmtanabransanum sem hefur truflað okkur.  En það þarf bara að klára það líka fyrst við erum orðnir svona heimsfrægir,“ sagði Bjarni um hin heimsfrægu fögn Stjörnumanna.

Er þessi athygli að trufla liðið?

„Já klárlega hefur hún gert það.  Þetta hefur farið svolítið út fyrir þau mörk sem við höfðum sett okkur.  En þetta er vissulega skemmtilegt fyrir íslenskan bolta að fá þessa athygli.  Það er t.d. bandarísk sjónvarpsstöð að koma sem ætlar að elta okkur í einhverja fjóra daga.  Við verðum bara að klára það verkefni líka.“

En það kom ekkert fagn í dag?

„Nei enda berum við virðingu fyrir þeim sem uppgötvuðu fögnin.  Hér á Hásteinsvelli er uppruninn og óþarfi að sýna Eyjamönnum fögn, enda kunna þeir þau upp á sína tíu,“ sagði Bjarni að lokum.

Í tólf síðna íþróttablaði Morgunblaðsins er fjallað ítarlega um alla leikina í 21. og næstsíðustu umferð deildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert