„Mér fannst leikurinn byrja vel og fyrsta korterið var hann jafn en svo ætluðu menn bara að skokka og við komum varla við boltann í lok fyrri hálfleiks,“ sagði Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur, eftir 1:1-jafntefli gegn Breiðabliki suður með sjó í kvöld.
„Það gerist þegar menn vinna ekki saman. Haukur Ingi kom inn á í síðari hálfleik með smákraft sem smitaði út frá sér en þegar við jöfnum er smáspenningur í mönnum og þeir ná ekki að slaka á. Það gerist því aftur að menn taka slæmar ákvarðanir, þeir sækja og það kostar löng hlaup til baka. Gegn svona góðu liði eins og Breiðabliki getum við bara þakkað fyrir eitt stig þegar menn gera ekki allt sem þeir geta.“Grindavík færði sig aðeins frá botni deildarinnar. „Staðan í dag er bara eins og hún er. Það þýðir ekkert að vorkenna sér og halda að menn ættu að vera ofar í stigatöflunni, við erum þar sem við erum og það þarf einfaldlega að vinna sig út úr því. Það geta öll lið unnið sig út úr stöðunni, það veltur bara á að menn gefi sig alla í verkefnið og berjist en ekki á skokki eins og gerðist oft í dag.“