Hannes Þór gengur til liðs við Brann

mbl.is/Hannes Þór Halldórsson
mbl.is/Hannes Þór Halldórsson Eggert Jóhannesson

Norska knattspyrnuliðið Brann staðfestir á vef sínum í dag að félagið hafi náð samkomulagi við Íslandsmeistara KR um að fá markvörðinn Hannes Þór Halldórsson að láni. Hannes heldur til Noregs í dag og verður í herbúðum Brann fram í maí en hann verður svo klár í slaginn með KR-ingum þegar flautað verður til leiks í Pepsi-deildinni.

Báðir markverðir Brann eiga við meiðsli að stríða. Jørgen Mohus er á sjúkralistanum og verður það í einhvern tíma og Piotr Leciejewski sem stóð á milli stanganna hjá Brann gegn Rosenborg í 1. umferðinni um síðustu helgi varð fyrir meiðslum.

Vegna þessa settu forráðamenn Brann sig í samband við KR-inga og óskuðu eftir því að fá Hannes Þór að láni.

Rune Skarsfjord þjálfari Brann segir á vef félagsins að Hannes Þór muni verja mark liðsins í leiknum á móti Sandnes Ulf en með liði Sandnes leikur Steinþór Freyr Þorsteinsson.

Skarsfjord segist aldrei hafa séð Hannes Þór í leik.

,,Ég hef bara séð hann af myndbandi en ég veit ýmislegt um hann. Hann spilar með KR, var í markinu þegar Ísland vann Kýpur síðastliðið haust og góður alhliða markvörður. Kannski spilar hann sig inn á samning,“ segir Skarsfjord.

mbl.is

Bloggað um fréttina