ÍBV fær ungan Englending

Magnús Gylfason er þjálfari ÍBV.
Magnús Gylfason er þjálfari ÍBV. mbl.is/Golli

George Baldock, 19 ára gamall enskur knattspyrnumaður, er kominn til liðs við úrvalsdeildarlið ÍBV í láni frá enska C-deildarliðinu MK Dons, en þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

Baldock er varnarsinnaður miðjumaður og á Eyjafréttum er haft eftir Óskari Erni Ólafssyni formanni knattspyrnudeildar ÍBV að hann hafi verið kjörinn efnilegasti leikmaður MK Dons.

Hann á þó aðeins þrjá leiki að baki með liðinu í C-deildinni en hefur verið í láni hjá tveimur liðum í vetur, fyrst hjá Northampton í D-deildinni og síðan hjá Tamworth í E-deildinni.

Eyjamenn verða án nokkurra lykilmanna í fyrstu umferðum Íslandsmótsins og því er þessi liðsauki þeim kærkominn núna.

mbl.is