Mikilvægur sigur meistaranna á Hlíðarenda

Frá leik Vals og Stjörnunnar á Hlíðarenda í kvöld.
Frá leik Vals og Stjörnunnar á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Ómar

Íslandsmeistarar Stjörnunnar unnu 2:1 sigur á bikarmeisturum Vals á Hlíðarenda í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og Breiðablik komst í efsta sætið með stórsigri á Selfyssingum, 7:1.

Ashley Bares og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir komu Stjörnunni í 2:0 á Hlíðarenda. Mist Edvardsdóttir minnkaði muninn en fékk síðan rauða spjaldið skömmu fyrir leikslok.

Fanndís Friðriksdóttir skoraði þrjú mörk og Rakel Hönnudóttir tvö fyrir Breiðablik gegn Selfossi en þær Björk Gunnarsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir gerðu sitt markið hvor. Selfoss gerði þó fyrsta mark leiksins og þar var Valorie O'Brien að verki.

Fylkir og KR skildu jöfn, 1:1, í Árbænum. Alma Rut Garðarsdóttir kom KR yfir en Rut Kristjánsdóttir jafnaði fyrir Fylki.

ÍBV sigraði Aftureldingu, 3:0, í Mosfellsbæ. Shaneka Gordon skoraði tvö mörk og Vesna Smiljkovic eitt.

Breiðablik er með 10 stig, Þór/KA10, Stjarnan 9, ÍBV 6, Fylkir 5, Valur 4, FH 4, Selfoss 4, KR 2 og Afturelding 1 stig.

 Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

18.00 Afturelding - ÍBV 0:3 - Leik lokið -. Leikskýrsla.

19.15 Fylkir - KR 1:1. - Leik lokið - Leikskýrsla.

19.15 Breiðablik - Selfoss 7:1. - Leik lokið - Leikskýrsla.

19.30 Valur - Stjarnan 1:2. - leik lokið - Leikskýrsla.

21:18 Leiknum er lokið á Vodafone-vellinum með 2:1 sigri Stjörnunnar. 

21:10 Rautt spjald! Mist Edvardsdóttir markaskorari Vals var rekinn af leikvelli á 85. mínútu. Togaði í Ashley Bares sem var að sleppa ein inn fyrir vörnina. 

21:07 Leikjunum er lokið í Kópavogi og í Árbæ. Breiðablik burstaði Selfoss 7:1 og Fylkir og KR gerðu 1:1 jafntefli. 

20:52 Staðan er 2:1 fyrir Stjörnuna. Rakel Logadóttir kom inn á hjá Val á 65. mínútu fyrir Hildi Antonsdóttur sem fór af velli eftir tæklingu Hörpu Þorsteinsdóttur. Fyrstu mínútur Rakelar í sumar og hún lagði strax upp dauðafæri fyrir Telmu Þrastardóttur sem mokaði boltanum yfir markið frá markteig. 

20:42 Mark! Staðan er 1:1 í Árbænum. Rut Kristjánsdóttir jafnaði fyrir Fylki á 61. mínútu. Samkvæmt urslit.net.

20:37 Mark! Staðan er 2:1 fyrir Stjörnuna. Valur var að minnka muninn. Dóra María Lárusdóttir tók aukaspyrnu á vallarhelmingi Stjörnunnar og gaf góða sendingu inn á teiginn. Þar stökk Mist Edvardsdóttir hæst og skallaði í hægra hornið. 

20:33 Mark! Staðan er 2:0 fyrir Stjörnuna. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skoraði með góðum skalla frá markteig eftir fyrirgjöf Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur frá hægri. Nú gæti orðið erfitt fyrir Valskonur að snúa þessum leik við. 

20:28 Mark! Staðan er 6:1 fyrir Breiðabliki. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði á 52. mínútu. Nýliðarnir frá Selfossi eru að fá slæman skell eftir að hafa komist í 1:0. Samkvæmt urslit.net.

20:17 Flautað hefur verið leikhlés á Hlíðarenda og er Stjarnan marki yfir. Valsliðið hresstist undir lok fyrri hálfleik og skapaði hættu við mark Stjörnunnar í fyrsta skipti í leiknum. Svava Rós Guðmundsdóttir komst ein á móti Söndru Sigurðardóttur markverði Stjörnunnar á 40. mínútu eftir stungusendingu frá Hildi Antonsdóttur. Sandra sá við henni í dauðafæri. Sókninni var þó ekki lokið og Dóra María Lárusdóttir fékk skotfæri hægra megin í teignum en hitti ekki markið. Á lokamínútu fyrri hálfleiks komst Dóra inn í teiginn og fór framhjá Söndru sem virtist brjóta á henni en Sigurður Óli Þorleifsson sá ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnu. Hildur reyndi skot sem datt ofan á þverslána og fór aftur fyrir. 

20:10 Mark! Breiðablik bætti við fimmta markinu fyrir hlé. Það gerði Rakel Hönnudóttir í uppbótartíma. Samkvæmt urslit.net.

20:04 Mark! Staðan er 1:0 fyrir Stjörnuna á Hlíðarenda. Íslandsmeistararnir hafa tekið forystuna á móti bikarmeisturum Vals. Hver önnur en Ashley Bares? Hún raðaði inn mörkunum í fyrra og skoraði glæsilegt mark að þessu sinni. Fékk boltann utan vítateigs lítillega hægra megin og skrúfaði boltann upp í hornið vinstra megin. 

20:01 Mark! Staðan er 4:1 fyrir Breiðablik. Fanndís Friðriksdóttir er búin að skora þrennu í fyrri hálfleik. Hún bætti við mörkum á 29. mínútu og 40. mínútu. Samkvæmt urslit.net.

19:56 Leiknum er lokið í Mosfellsbæ. ÍBV sigraði Aftureldingu 3:0. 

19:52 Staðan er 0:0 á Hlíðarenda eftir tuttugu mínútna leik. Brett Maron markvörður Vals varði rétt í þessu glæsilega fast skot Hörpu Þorsteinsdóttur af 25 metra færi. 

19:49 Mark! Staðan er 1:0 fyrir KR. Alma Rut Grétarsdóttir kom KR yfir á 20. mínútu á móti Fylki í Árbænum. Samkvæmt urslit.net.

19:38 Mark! Staðan er 2:1 fyrir Breiðablik. Björk Gunnarsdóttir skoraði á 16. mínútu. Fjörugur leikur á Kópavogsvelli. Samkvæmt urslit.net.

19:37 Mark! Breiðablik er búið að jafna á móti Selfossi. Fanndís Friðriksdóttir gerði það á 12. mínútu. Samkvæmt urslit.net.

19:31 Síðasti leikur kvöldsins er hafinn á Vodafone-vellinum. 

19:26 Mark! Staðan er 1:0 fyrir Selfoss í Kópavoginum. Óvænt tíðindi þó svo að Selfoss hafi staðið sig vel í upphafi móts. Valarie O´Brien skoraði á 5. mínútu. Samkvæmt urslit.net.

19:23 Mark! Staðan er 3:0 fyrir ÍBV í Mosfellsbæ. ÍBV bætti þriðja markinu við á 62. mínútu og þar var á ferðinni Vesna Smiljkovic. Samkvæmt urslit.net.

19.19 - MARK - 0:2 í Mosfellsbæ. ÍBV skorar aftur og aftur er það hinn jamaíkíska Shaneka Gordon á 54. mínútu, samkvæmt urslit.net.

19.15 - Tveir leikir eru hafnir, Fylkir - KR og Breiðablik - Selfoss.

18.45 - MARK - 0:1 í Mosfellsbæ. ÍBV er komið yfir, Shaneka Gordon skorar fyrir Eyjakonur á 39. mínútu, samkvæmt urslit.net.

18.42 - Byrjunarliðið er klárt í leik Vals og Stjörnunnar, eins og sjá má hér fyrir ofan. Rakel Logadóttir er á bekknum hjá Val en hún hefur misst af fyrstu þremur leikjunum vegna meiðsla.

18.23 -  Byrjunarliðin eru komin inn í leikjum Fylkis gegn KR og Breiðabliks gegn Selfossi, eins og sjá má með því að smella á hlekkina hér að ofan.

18.00 - Flautað hefur verið til leiks í Mosfellsbæ. Þar vekur athygli að Berglind Björg Þorvaldsdóttir er varamaður hjá ÍBV en Shaneka Gordon kemur hinsvegar inní byrjunarliðið í fyrsta skipti á tímabilinu.

Fyrir leiki kvöldsins er Þór/KA með 10 stig, Breiðablik 7, Stjarnan 6, Valur 4, FH 4, Fylkir 4, Selfoss 4, ÍBV 3, KR 1 og Afturelding 1 stig. Þór/KA vann FH 4:1 á útivelli í fyrsta leik umferðarinnar í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert