Logi: Rænulausir í föstum leikatriðum

Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, segir það vonbrigði að hafa ekki fengið a.m.k. eitt stig út úr leiknum við KR á KR-vellinum í dag í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni.

„Það fellur ekkert með okkur og síðan erum við alveg rænulausir í föstum leikatriðum, dekkum ekki okkar menn. Á því verðum við að vinna bug í næstu leikjum," segir Logi.

„Við áttum hinsvegar möguleika á að jafna leikinn öðru sinn í síðari hálfleik. Úr því að ekki tókst að skora úr vítinu þá áttu menn að nýta það þegar þeir fengu boltann eftir frákastið. Betri færi fá menn vart í fótbolta en það við fengum en sem fyrr þá féllu hlutirnir ekki með okkur eins og stundum áður í sumar."

Logi segir að lið sitt hafi á köflum verið að spila ágætlega og haft lengst í af í fullu tré við KR-liðið á heimavelli þeirra. Þann lærdóm taki menn m.a. með sér úr þessum leik í þann næsta.

mbl.is