Þórður: Þú verður að spyrja stjórnina

Þórður Þórðarson þjálfari Skagamanna.
Þórður Þórðarson þjálfari Skagamanna. mbl.is/Ómar

“Eftir að þeirra maður er rekinn útaf þá dó leikurinn hreinlega. Við vorum betri heilt yfir, reyndum að halda boltanum en vorum ekki með markvissar sóknaraðgerðir. Þetta var bara komið,” sagði Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is eftir 3:1 sigurinn á Selfossi í dag í lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. 

“Ég var mjög ánægður með fyrri hálfleikinn hjá mínum mönnum. Við vorum að verjast vel, spila fínan fótbolta og skora góð mörk.”  

Og Þórður er ánægður með sumarið í heild sinni. “Heilt yfir getum við ekki verið annað en sáttir eftir sumarið. Það hefur gleymst dálítið í umræðunni að við erum nýliðar þó að við höfum mikla sögu í efstu deild og við getum ekki verið annað en sáttir við árangurinn. Vissulega áttum við möguleika á Evrópusæti fyrir fjórum eða fimm umferðum síðan en höfðum ekki breiddina til að berjast um það.”  

Þórður hefur hug á að halda áfram með liðið en hann er með opinn samning við félagið. “Það er viss uppsagnarfrestur á mínum samningi þannig að hann er bara í gangi þangað til ég fæ uppsagnarbréfið,” sagði Þórður léttur í bragði.

“Að öllu óbreyttu mun ég halda áfram þó að þú þurfir auðvitað að spyrja stjórnina að því en ég hef klárlega áhuga á þessu verkefni. Það er virkilega gaman að þjálfa þetta lið og það eru margir seigir strákar í hópnum.”

mbl.is

Bloggað um fréttina