Fanndís til liðs við Kolbotn

Fanndís Friðriksdóttir í leik með landsliði Íslands.
Fanndís Friðriksdóttir í leik með landsliði Íslands. mbl.is/Kristinn

Fanndís Friðriksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu úr Breiðabliki, hefur ákveðið að taka samningstilboði norska úrvalsdeildarfélagsins Kolbotn og semja við það til eins árs. Hún staðfesti þetta við mbl.is fyrir stundu.

„Ég á eftir að skrifa undir samninginn en geri það fljótlega. Aðalmálið var að taka ákvörðun um hvert ég myndi fara og niðurstaðan var sú að mér leist best á Kolbotn," sagði Fanndís við mbl.is en hún var einnig með í höndunum tilboð frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Piteå.

Kolbotn hefur lengi verið í fremstu röð í Noregi og hafnaði í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar á þessu ári.

Tveir Íslendingar hafa áður leikið með liðinu en Katrín Jónsdóttir spilaði með því á árunum 1997 til 2003 og vann þá m.a. með því fyrsta meistaratitilinn í sögu þess, og Þóra B. Helgadóttir varði mark liðsins árið 2009 og var þá kjörin besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar.

Fanndís, sem er 22 ára gömul, var fyrirliði Breiðabliks á síðasta tímabili og skoraði þá 9 mörk í 16 leikjum með liðinu í úrvalsdeildinni. Hún hefur samtals spilað 107 leiki með Breiðabliki í efstu deild og skorað í þeim 50 mörk. Í ár lék hún alla 12 landsleiki Íslands, alla nema einn í byrjunarliði, og á alls 33 A-landsleiki að baki.

mbl.is