Eiður Aron aftur til ÍBV

Eiður Aron Sigurbjörnsson.
Eiður Aron Sigurbjörnsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson er genginn til liðs við ÍBV á nýjan leik en hann kemur til Eyjamanna sem lánsmaður frá Örebro í Svíþjóð. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

Eiður, sem er 22 ára gamall varnarmaður, fór til Örebro frá ÍBV í ágúst 2011, eftir að hafa spilað 53 leiki með Eyjamönnum í úrvalsdeildinni og skorað í þeim 4 mörk. Hann lék 7 leiki með Örebro í sænsku úrvalsdeildinni á lokaspretti tímabilsins en fékk síðan engin tækifæri með liðinu á keppnistímabilinu 2012.

Eiður á að baki 7 leiki með 21-árs landsliði Íslands. Fyrir Eyjamenn er mikill fengur að fá hann aftur, ekki síst vegna þess að fyrirliðinn Rasmus Christansen hefur yfirgefið Eyjarnar og samið við Ull/Kisa í norsku B-deildinni.

mbl.is