Þriggja marka tap gegn Bandaríkjunum

Ísland tapaði fyrir ólympíumeisturum Bandaríkjanna, 0:3, í fyrsta leiknum í B-riðli Algarve-bikars kvenna í knattspyrnu í Albufeira í dag.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik og þá var ekki mikið um marktækifæri. Bandaríska liðið náði undirtökunum í byrjun síðari hálfleiks þegar Rakel Buehler skoraði á 48. mínútu. Shannon Boxx bætti við marki á 62. mínútu og Abby Wambach, knattspyrnukona ársins í heiminum 2012, innsiglaði sigurinn með marki á 74. mínútu.

Bestu færi Íslands fengu þær Harpa Þorsteinsdóttir, sem átti hættulegan skalla að marki á 18. mínútu, og Sandra María Jessen sem náði ekki að skora úr dauðafæri á 81. mínútu.

Ísland mætir Svíþjóð í öðrum leik sínum á mótinu á föstudaginn klukkan 18.00 en Svíar mæta Kínverjum í dag klukkan 16.00.

Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Dóra María Lárusdóttir, Sif Atladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði (Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 83.), Dagný Brynjarsdóttir (Guðný Björk Óðinsdóttir 78.), Katrín Ómarsdóttir (Edda Garðarsdóttir 72.) - Fanndís Friðriksdóttir (Rakel Hönnudóttir 46.), Harpa Þorsteinsdóttir (Elín Metta Jensen 73.), Hólmfríður Magnúsdóttir, Sandra María Jessen 64.)
Varamenn: Birna Kristjánsdóttir (M), Mist Edvardsdóttir, Elísa Viðarsdóttir.

Katrín Jónsdóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir voru hvíldar í dag.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90+3. LEIK LOKIÐ, með öruggum bandarískum sigri, 3:0.

90+2. Edda Garðarsdóttir með skot að bandaríska markinu af 25 metra færi en yfir.

90. Christen Press með skot að marki Íslands, rétt utan markteigs, en Þóra ver með fótunum.

89. Þóra B. Helgadóttir er snögg út í vítateiginn og hirðir boltann áður en Alex Morgan nær til hans.

86. Ísland fær hornspyrnu en dæmd er aukaspyrna á íslenska liðið í kjölfarið fyrir brot í bandaríska vítateignum.

84. Abby Wambach með skot að íslenska markinu af 20 metra færi en framhjá.

83. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kemur inná fyrir Söru Björk Gunnarsdóttur og Edda Garðarsdóttir tekur við fyrirliðabandinu.

81. Íslenskt dauðafæri eftir skyndisókn. Sandra María Jessen sleppur í gegn, leikur framhjá Loyden markverði en hittir ekki markið. Þessi átti að vera inni!!

79. Ísland fær hornspyrnu en Abby Wambach er mætt í vörnina og skallar boltann í burtu.

78. Guðný Björk Óðinsdóttir kemur inná fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur. Fyrsti landsleikur Guðnýjar síðan á Algarve í fyrra en hún slasaðist skömmu síðar og missti af restinni af tímabilinu.

76. Bandaríkin fá hornspyrnu en hún er illa tekin og ekkert verður úr.

74. MARK - 0:3. Knattspyrnukona ársins í heiminum 2012, Abby Wambach, er komin á blað og skorar þriðja markið eftir sendingu frá Alex Morgan. Sú síðarnefnda nær að pota boltanum framhjá Þóru og Wambach sendir hann í tómt markið. Hennar 154. mark fyrir landslið Bandaríkjanna!

73. Elín Metta Jensen kemur inná fyrir Hörpu Þorsteinsdóttur í framlínunni.

72. Edda Garðarsdóttir kemur inná fyrir Katrínu Ómarsdóttur. Þetta er 98. landsleikur Eddu.

68. Christen Press með skot yfir íslenska markið eftir að Alex Morgan renndi boltanum út til hennar.

64. Sandra María Jessen kemur inná fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur og hjá Bandaríkjunum kemur Christen Press inná fyrir Carli Lloyd.

62. MARK - 0:2. Bandaríska liðið eykur forystuna og aftur skallamark eftir hornspyrnu frá Lauren Cheney sem sveigði boltann innað marklínunni. Skallað frá markinu, Christie Rampone skallar boltann til baka og Shannon Boxx skorar með skalla af stuttu færi.

61. Þóra B. Helgadóttir ver vel í horn frá Alex Morgan.

57. Enn sækir bandaríska liðið og Alex Morgan á skot að marki Íslands sem Þóra B. Helgadóttir ver auðveldlega.

55. Carli Lloyd með skot að íslenska markinu, rétt framhjá stönginni fjær.

55. Alex Morgan á hörkuskot að marki Íslands en yfir þverslána.

48. MARK - 0:1.  Bandaríkin fá hornspyrnu. Lauren Cheney tekur hana og fyrirliðinn Rachel Buehler stingur sér fram við stöngina nær og skorar með föstum skalla, í sínum 100. landsleik. Óskabyrjun Ólympíumeistaranna í síðari hálfleik.

46. Síðari hálfleikur er hafinn í Albufeira. Ein breyting á liði Íslands. Rakel Hönnudóttir kemur í stað Fanndísar Friðriksdóttur.

45+1 - HÁLFLEIKUR. Bandaríkin hafa sótt meira og átt 4 marktilraunir gegn 2, fengið 4 hornspyrnur gegn 1, en bæði lið hafa tvisvar verið dæmd rangstæð. Aukaspyrnurnar í hálfleiknum voru 19 talsins, 11 á Ísland en 8 á Bandaríkin.

45. Bandaríkin fá hornspyrnu og uppúr henni á Alex Morgan skot að íslenska markinu eftir barning í markteignum en yfir markið. Hún á annað skot í blálokin en framhjá markinu.

43. Dagný Brynjarsdóttir með laglega sendingu í gegnum vörn Bandaríkjanna en vantaði að henni væri fylgt eftir.

39. Leikurinn er hægari eftir því sem liðið hefur á seinni hálfleikinn og mikið er af aukaspyrnum á báða bóga.

34. Bandaríkin fá hornspyrnu. Abby Wambach með hörkuskalla en Þóra B. Helgadóttir ver glæsilega og dæmd er aukaspyrna á Bandaríkin í kjölfarið.

28. Fyrsta markskot Bandaríkjanna í leiknum. Abby Wambach er þar á ferð en hittir ekki íslenska markið.

23. Fanndís Friðriksdóttir með skot að marki Bandaríkjanna en framhjá.

21. Bandaríkin fá hornspyrnu en ekkert kemur út úr henni.

20. Abby Wambach, knattspyrnukona ársins í heiminum 2012, er hársbreidd frá því að ná til boltans í vítateig Íslands eftir aukaspyrnu frá Lauren Cheney.

19. Bandaríska liðið reynir stöðugt að komast í gegn á miðjunni en vel skipulögð vörn Íslands hefur ekki verið í vandræðum með að stöðva sóknartilraunir Ólympíumeistaranna til þessa.

18. Harpa Þorsteinsdóttir á fyrstu marktilraun leiksins en Loyden í marki Bandaríkjanna ver skalla hennar eftir aukaspyrnu örugglega.

15. Bandaríska liðið hefur verið meira með boltann það sem af leik en lítið gerst.

10. Bandaríkin fá sína fyrstu hornspyrnu en engin hætta skapast eftir hana.

5. Ísland fær fyrstu hornspyrnu leiksins eftir skyndisókn. Loyden markvörður slær boltann frá.

1. Leikurinn er hafinn.

13.55 - Glódís Perla Viggósdóttir tekur stöðu Katrínar Jónsdóttur fyrirliða í vörninni og leikur sinn þriðja A-landsleik í dag. Harpa Þorsteinsdóttir er fremsti leikmaður Íslands í dag í stað Margrétar Láru Viðarsdóttur sem er ekki með í þessu móti þar sem hún er að jafna sig eftir uppskurð í vetur.

13.54 - Bandaríkin tefla fram geysiöflugu byrjunarliði með þrjár af bestu knattspyrnukonum heims, Abby Wambach, Alex Morgan og Carli Lloyd, í sókn og á miðju. Rachel Buechler leikur sinn 100. landsleik og er fyrirliði. Til marks um mikinn leikjafjölda bandaríska liðsins ár hvert lék Buchler ekki sinn fyrsta landsleik fyrr en árið 2008.

13.50 - Í Albufeira er 17 stiga hiti, sól og dálítill vindur. Fallegt veður og völlurinn er sagður mjög góður.

Lið Bandaríkjanna: Loyden, Dunn, Buehler fyrirliði, Rampone, O’Hara, O’Reilly, Boxx, Lloyd, Cheney, Morgan, Wambach.

Katrín Jónsdóttir fyrirliði, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir eru hvíldar í leiknum í dag.

Seinni leikurinn í riðlinum er á milli Svíþjóðar og Kína en hann hefst klukkan 16.00.

mbl.is