Borgin hafnaði fyrstu umsókn um bjórsölu

Önnur staðsetning fyrir bjórsöluna er í umsóknarferli.
Önnur staðsetning fyrir bjórsöluna er í umsóknarferli. mbl.is

„Þeir höfnuðu fyrstu hugmynd um staðsetningu bjórsölunnar en til skoðunar er önnur hugmynd okkar. Það mun svo koma í ljós hvort við fáum leyfi fyrir henni,“ segir Jón Kaldal, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, við mbl.is um mögulega bjórsölu fyrir landsleik Íslands og Slóveníu næstkomandi föstudag.

Þróttur sér um alla veitingasölu á landsleikjum karla- og kvennalandsliðs Íslands og stefnir að því að vera með svokallað „bjórtjald“ fyrir leikinn næsta föstudag en aldrei áður hefur verið hægt að kaupa bjór í kringum landsleik.

„Fyrsta umsókn snerist um að hafa bjórsöluna á stað sem er á borgarlandi en því var hafnað. Nú erum við búnir að sækja um að hafa hana á afgirtu æfingasvæði félagsins á milli skautahallarinnar og gervigrasvallarins. Það er í umsóknarferli hjá borginni. Við viljum gera þetta í samstarfi við borgina enda þarf þess,“ segir Jón Kaldal.

Það er því enn möguleiki að stuðningsmenn landsliðsins geti fengið sér einn kaldan fyrir landsleikinn næsta föstudag en til stendur að hafa tjaldið opið á milli 16 og 18 en enginn börn fá að fara þar inni nema í fylgd með fullorðnum. Öryggisgæsla verður einnig á staðnum. Tjaldið lokar svo klukkustund fyrir leik.

Fyrr í dag birtist frétt á mbl.is þar sem fullyrt var að bjórsalan væri bönnuð alfarið en það er sem sagt ekki alveg rétt en hún var byggð á upplýsingum frá KSÍ.

Jón Kaldal, formaður Þróttar.
Jón Kaldal, formaður Þróttar. Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina