Pétur um Grétar Rafn: „Sýnir þvílíka heimsku“

Pétur lætur Grétar Rafn heyra það.
Pétur lætur Grétar Rafn heyra það. mbl.is/Ómar

Pétur Pétursson, aðstoðarþjálfari KR og fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafs Jóhannssonar hjá íslenska landsliðinu, er ómyrkur í máli í garð Grétars Rafns Steinssonar og ummæla hans um umgjörð landsliðsins síðastliðinn föstudag.

Í viðtali við 433.is á föstudaginn og í sjónvarpsþætti fotbolti.net síðar sama dag ræddi Grétar Rafn það sem honum fannst ábótavant í umgjörð landsliðsins en hann gagnrýndi hana einnig harkalega á sínum tíma.

Þá sagðist hann fagna komu Lars Lagerbäcks sem landsliðsþjálfara og fullyrti að áhugamenn, sem sagt þjálfarar sem starfa hér heima, gætu ekki þjálfað atvinnumenn eins og í landsliðinu.

Í viðtali við 433.is í dag segir Pétur: „Grétar Rafn er með þessum ummælum að afskrifa íslenska þjálfara í framtíðinni; Heimi Guðjóns, Rúnar Kristins, Heimi Hallgrímsson, Ólaf Kristjánsson og fleiri sem hafa allir menntað sig. Duglegir og klókir þjálfara eru afskrifaðir þarna með þessum ummælum. Þetta sýnir þvílíka heimsku að ég á varla til aukatekið orð.“

Pétur upplýsir líka í viðtalinu hvað það var sem Grétar Rafn gagnrýndi í umgjörð landsliðsins á sínum tíma og segir landsliðsframherjinn fyrrverandi að það hafi bara snúið að honum, ekki liðinu.

„Umgjörðin sem hann talaði um á sínum tíma og bað KSÍ um að fyrrverandi eiginkona hans yrði flutt til landsins á heimaleiki liðsins, að knattspyrnuskóli Grétars Rafns fengi 100 miða á landsleiki, að foreldrar hans yrðu fluttir á leikinn og myndu fá miða á góðum stað. Að fyrrverandi kona hans þyrfti ekki að bíða í röð fyrir utan Laugardalsvöllinn og kæmist beint upp í VIPsvæðið. Að það yrði alltaf bílaleigubíll fyrir utan hótel og flugvöll fyrir Grétar Rafn. Þetta var það sem Grétar Rafn var að biðja um, umgjörðin sem þarf að bæta snýr að honum sjálfum," segir Pétur Pétursson.

Allt viðtalið á 433.is má lesa hér.

Grétar Rafn hugsaði bara um sjálfan sig, segir Pétur.
Grétar Rafn hugsaði bara um sjálfan sig, segir Pétur. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina