Tilboði Werder Bremen í Alfreð hafnað

Alfreð Finnbogason þrumar boltanum í landsleik gegn Slóveníu í sumar.
Alfreð Finnbogason þrumar boltanum í landsleik gegn Slóveníu í sumar. mbl.is/Golli

Heerenveen hefur hafnað fyrsta tilboði þýska knattspyrnufélagsins Werder Bremen í landsliðsmanninn Alfreð Finnbogason. Tilboðið var langt frá því sem Heerenveen hyggst fá fyrir Alfreð sem skoraði 24 mörk í hollensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og fékk bronsskóinn.

Alfreð hefur verið orðaður við Werder síðustu daga og sjálfur lýst því yfir áður að hann vilji komast til Þýskalands. Til þess þarf Werder hins vegar að hækka tilboð sitt sem sagt var hljóða upp á fimm milljónir evra.

„Þetta er ekki nálægt fimm milljónum. Þetta er langt frá okkar kröfum. Við höfnuðum þessu og nú verðum við að sjá hvað Werder gerir,“ sagði Johan Hansma, yfirmaður íþróttamála hjá Heerenveen, við blaðið Leeuwarden Courant.

Werder er í leit að framherja og er einnig sagt hafa Lucas Barrios, fyrrverandi framherja Dortmund sem nú er án samnings, í sigtinu. Aðspurður hvort Alfreð yrði kannski áfram hjá Heerenveen sagði Hansma:

„Ég er ánægður með uppbygginguna á okkar liði. Við þurfum ekki endilega á peningum að halda,“ sagði Hansma.

mbl.is